Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. júní 2013 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundar með Westerwelle í Berlín

Gunnar Bragi Sveinsson & Guido Westerwelle.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands í Berlín. Ráðherrarnir ræddu ýmis mál er varða samskipti ríkjanna og alþjóðasamskipti, m.a. Evrópumál, norðurslóðir, fríverslun og varnar- og öryggismál. Utanríkisráðherra þakkaði Þjóðverjum þann stuðning, velvilja og áhuga sem þeir hafa sýnt Íslendingum, í samstarfi milli þjóðanna tveggja, í alþjóðastarfi og á menningarsviðinu og sagði hann mikils metinn.

Á fundinum ræddu utanríkisráðherrarnir aukið mikilvægi norðurslóðamála. Þeir fóru einnig yfir öryggis- og varnarmál en ríkin eiga gott samstarf á því sviði, bæði tvíhliða og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, en Þjóðverjar hafa í tvígang tekið þátt í loftrýmisgæslu á Ísland.
Ráðherrarnir ræddu einnig um viðræður Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um fríverslunar- og fjárfestingarsamning. Lýsti utanríkisráðherra áhuga Íslands á að fylgjast grannt með framgangi viðræðna.

Utanríkisráðherra gerði starfsbróður sínum grein fyrir þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að gera hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og í hverju það fælist. Tók utanríkisráðherra jafnframt fram að hann vildi efla tvíhliða samskipti og samstarf Íslands og ESB sem og styrkja þátttöku Íslands í samstarfi Evrópuríkja á vettvangi EES. Utanríkisráðherra Þýskalands sýndi ákvörðun Íslands virðingu og skilning og lagði jafnframt áherslu á áframhaldandi gott samstarf ríkjanna.

Utanríkisráðherra Þýskalands ræddi ennfremur mikilvægi efnahagsmála og fór yfir stöðuna innan ESB, ekki síst á evrusvæðinu.

Utanríkisráðherra tekur nú þátt í opinberri heimsókn forseta Íslands til Þýskalands. Saman hafa þeir átt fundi með Joachim Gauck Þýskalandsforseta, Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Norbert Lammert, forseta þýska þingsins. Þá hafa þeir tekið þátt í kynningum á íslensku viðskiptalífi í Berlín.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum