Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. júlí 2013 Forsætisráðuneytið

A-489/2013. Úrskurður frá 3. júlí 2013

ÚRSKURÐUR


Hinn 3. júlí 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-489/2013 í máli ÚNU 13010005.

Kæruefni og málavextir

Þann 28. desember 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð í máli nr. A-469/2012 í tilefni af kæru [A] vegna ákvörðunar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að synja um aðgang að skýrslu sem unnin var fyrir hann. Hún ber heitið: „Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011.“ Í úrskurðarorðinu segir svo: „Beiðni [A], dags. 15. september 2012, er vísað til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til nýrrar meðferðar og afgreiðslu á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996.“

Hinn 4. janúar synjaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu á ný beiðni kæranda um aðgang að fyrrgreindri skýrslu og kærandi sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál nýja kæru hinn 16. janúar 2013.

Málsmeðferð

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. janúar 2013, var lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu send kæran til athugasemda. Hann svaraði með bréfi, dags. 24. janúar. Þar segir: „Rökstuðningur embættisins fyrir synjuninni kemur skýrt fram í tölvupósti undirritaðs til [A], dags. 4. janúar sl., og úrskurðarnefndin hefur þegar undir höndum. Engu er við það að bæta sem þar kemur fram. “

Hinn 7. febrúar 2013 barst nefndinni nýtt bréf lögreglustjórans og ákvörðun með hliðsjón af nýjum upplýsingalögum, sem tóku gildi sama dag og úrskurðarnefndin kvað upp fyrri úrskurð sinn í málinu, þ.e. úrskurð A-469/2012. Í bréfinu segir m.a.: „Í ljósi þessa efnis samantektarinnar og þeirra viðkvæmu persónuupplýsinga sem þar er að finna um fjölda einstaklinga er beiðni yðar hafnað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þar segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Fram kemur í lögskýringargögnum með fyrri upplýsingalögum, en ákvæðið er óbreytt í nýjum lögum, að engum vafa sé undirorpið að undir þetta ákvæði falli þær persónuupplýsingar sem taldar eru upp í tilgreindu ákvæði laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Sama kemur fram í frumvarpi að gildandi lögum í umfjöllun um þessa grein. Þá er beiðninni jafnframt hafnað með vísan til 1. tl. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, með hliðsjón af því að þar er að finna upplýsingar um skipulag löggæslu í tengslum við mótmæli og óeirðir. Þá er einnig til þess að líta að framangreind samantekt fellur undir 5. tl. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna, enda er hér um að ræða vinnugagn sem eingöngu var ritað til eigin afnota innan embættisins og hefur það ekki farið til annarra stjórnvalda. Umrædd samantekt er því einnig undanþegin upplýsingarétti með hliðsjón af þessu ákvæði upplýsingalaga.“

Umsögnin var send kæranda og henni gefinn kostur á athugasemdum. Þær bárust með tölvupósti, dags. 10. febrúar. Þar segir m.a.: „Varðandi vísan til 9. greinar skal tekið fram, eins og í fyrri kærum, að ekki er farið fram á persónuupplýsingar eða upplýsingar um fjármál eða aðra einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari. Stjórnvaldinu er í lófa lagið að afmá nöfn einstaklinga og önnur persónugreinanleg einkenni eins og ég hef áður bent á. Í fyrra svari sínu vísaði [B] til þess að einstakir lögreglumenn komi við sögu í skýrslunni. Ég vil ítreka þá skoðun mína að sú vísan sé óviðeigandi. […] Varðandi 5. tl. 6. gr. skal fyrst á það bent að samantektin getur ekki talist vinnuskjal, einungis til nota innan embættisins, eins og lögreglustjóri heldur fram, í ljósi þess að fyrrverandi undirmaður hans kynnti efni hennar á opinberum vettvangi.“
Í athugasemdunum er vísað til þess að mánuði eftir útkomu umræddrar skýrslu hafi höfundur hennar haldið fyrirlestur í stjórmálaskóla Sjálfstæðisflokksins undir yfirskriftinni: „Aðförin að Alþingi – mótmælin við Austurvöll í lok árs 2008 og byrjun árs 2009.“ Fyrirlesturinn hafi verið aðgengilegur á netinu um tíma. Kærandi telur að höfundur hafi þar fjallað um sömu atburði og í umræddri samantekt og því geti hún ekki talist vera vinnuskjal. Þá telur kærandi líklegt að í svo viðamiklu skjali komi fram endanlegar ákvarðanir um afgreiðslu mála. Síðan segir m.a.: „Þá er ljóst að skjalið inniheldur vissulega upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá. Í áðurnefndum fyrirlestri hélt Geir Jón fram ýmsum rangfærslum, sem sumar eru reifaðar í grein á þessari vefslóð: http://www.pistillinn.is/?p=3486. Almenningur á engan kost á því að afla sér upplýsinga um hvort þessar rangfærslur og fleiri hafi ratað inn í skýrsluna nema með því að fá aðgang að henni, svo nefnt sé dæmi um það sem skýrslan kann að innihalda en ekki verður aflað annarsstaðar frá. Einnig nefndi hann atvik sem ég hef hvergi fundið með hjálp leitarvéla svo sem um samskipti sín við blaðakonu sem var sagt upp störfum í kjölfar umfjöllunar sinnar um búsáhaldabyltinguna. Ennfremur verður að teljast sennilegt að í skýrslunni komi fram lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd lögreglu. Að því er varðar vísan til 1. tl. 10. gr. er ekki hægt að fallast á að það ákvæði eigi við enda öryggi ríkisins ekki stefnt í hættu þó veittur sé aðgangur að skjalinu. Að auki skal minnt á, að upplýsingaréttur almennings er meginreglan og undantekningar frá henni ber að skýra þröngt. Fráleitt er að halda því fram að sýn lögreglunnar á búsáhaldabyltinguna, viðbrögð lögreglu við uppþotunum, og hvað hún telur sig hafa lært af þeim atburðum, komi almenningi ekki við. […] Ósennilegt verður að teljast að 270 síðna skýrsla varði öll upplýsingar, sem stefna myndu öryggi ríkisins í hættu ef birtar yrðu nú, og/eða atriði er varða persónuvernd einstakra almennra borgara. Eins og áður tek ég fram, að ef í skýrslunni er að finna atriði sem falla undir nefnd undanþáguákvæði, fer ég fram á að mér verði veittur aðgangur að öðrum hlutum skýrslunnar […].“

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að skýrslu með yfirskriftinni „Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011“. Þegar hefur verið fjallað um skýrsluna í úrskurði nefndarinnar í máli nr. A-469/2012. Í þeim úrskurði er uppbyggingu skýrslunnar lýst svo: „Sú skýrsla eða samantekt sem óskað er aðgangs að í umræddu máli er rúmar 270 blaðsíður að lengd. Í fyrstu tveimur köflum samantektarinnar, aftur að blaðsíðu 10, er fjallað almennt um tilurð samantektarinnar og skipulag lögreglunnar vegna mótmæla eða óeirða. Frá og með blaðsíðu 10 og aftur að blaðsíðu 270 er hins vegar fjallað sérstaklega um afmörkuð mótmæli og skipulag og aðgerðir vegna þeirra. Í þessum samantektum er iðulega vikið að einstökum persónum, lögreglumönnum eða þeim sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af og eftir atvikum er einnig fjallað um það hvort tilteknir einstaklingar voru teknir höndum, ákærðir eða dæmdir fyrir refsiverða háttsemi.“ Skýrslan er þannig uppbyggð að þar er fjallað um hvert og eitt tilvik þeirra mótmæla sem fram fóru og lögregla kom að. Um hvert tilvik er skráð hvaða lögreglumenn voru við störf með vísun til upphafsstafa í nöfnum þeirra og lögreglunúmers, skipulagi lögregluaðgerða lýst, tímalengd aðgerða, þar er atvikum lýst og metið hvernig til tókst, vitnað í ummæli nokkurra lögreglumanna sem tóku þátt og að lokum er fjallað um gagnrýni og viðhorf annarra, s.s. fjölmiðla.

Beiðni kæranda er lögð fram á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en þar segir í 1. málsl. 1. mgr. að stjórnvöldum sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum um tiltekin mál með þeim takmörkum sem greini í 6.-10. gr. laganna.

Synjun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7. febrúar 2013, er reist á þremur ástæðum. Í fyrsta lagi er það afstaða lögreglustjórans að umrædd skýrsla teljist vinnugagn í skilningi upplýsingalaga nr. 140/2012 en samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna eru slík gögn undanþegin upplýsingarétti. Í öðru lagi er synjun lögreglustjórans reist á 9. gr. upplýsingalaga er fjallar um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Í þriðja lagi er vísað til þess að efni skýrslunnar falli undir ákvæði 10. gr. laganna er lýtur að takmörkunum vegna almannahagsmuna.

2.
Eins og vikið var að hér að ofan er það afstaða lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skýrsla sú er kærandi óskar eftir aðgangi að teljist vinnugagn í skilningi upplýsingalaga nr. 140/2012. Í 8. gr. upplýsingalaga lagnna er nánar fjallað um hvaða gögn teljist til vinnugagna. Þar segir í 1. mgr.:

„Vinnugögn teljast þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar skv. 2. og 3. gr. hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Nú eru gögn afhent öðrum og teljast þau þá ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu.“

Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði verður gagn aðeins talið vinnugagn hafi það verið ritað eða útbúið við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Á þessu skilyrði er hnykkt í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 en þar segir m.a. í athugasemdum við ákvæðið:

„Af orðalagi 1. mgr. 8. gr. leiðir að til að skjal teljist vinnugagn þarf almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf þannig í reynd að vera undirbúningsgagn, það skal ritað eða útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins (eða lögaðilans) sjálfs og má ekki hafa verið afhent öðrum. Fyrsta skilyrðið þarfnast ekki sérstakra skýringa en er þó mjög þýðingarmikið við afmörkun hugtaksins.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fær ekki séð að skýrsla sú er mál þetta lýtur að geti talist undirbúningsgagn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Þannig verður ekki ráðið af skýrslunni, né af öðrum gögnum máls þessa, að henni hafi verið ætlað að undirbúa ákvörðun eða aðrar lyktir máls innan lögreglunnar. Þegar af þessari ástæðu fellst úrskurðarnefndin ekki á það með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að skýrslan teljist vinnugagn. Af því leiðir að ástæðulaust er að úrskurðarnefndin taki afstöðu til annarra skilyrða sem rakin eru hér að framan og fram koma í umræddu ákvæði upplýsingalaga og greinargerðinni er fylgdi frumvarpi til þeirra. Það er því niðurstaða nefndarinnar að synjun um aðgang kæranda að skýrslunni geti ekki byggt á 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna.

Eins og áður er rakið byggði synjun lögreglu einnig á 9. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Í fyrri málslið 9. gr. kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut eigi. Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi til upplýsingalaga segir m.a. um ákvæðið:

„Ákvæði 9. gr. frumvarpsins er samhljóða 5. gr. gildandi upplýsingalaga. Hér er kveðið á um takmarkanir á upplýsingarétti almennings vegna einkahagsmuna einstaklinga, fyrirtækja og annarra lögaðila. Eins og fram kom í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins er á grundvelli þessarar reglu heimilt að undanþiggja tiltekin gögn upplýsingarétti ef í þeim er að finna upplýsingar sem eru þess eðlis að rétt þykir að þær fari leynt. Af því leiðir einnig að eftir atvikum kann að vera rétt að veita aðgang að hluta gagns sé slíkar upplýsingar aðeins að finna í hluta þess.
   
Eins og fram kemur í frumvarpi því sem síðan varð að gildandi upplýsingalögum er augljóst að óheftur aðgangur almennings að öllum gögnum sem falla undir upplýsingalög kynni að rjúfa friðhelgi manna og/eða ganga gegn mikilvægum fjárhagslegum hagsmunum tiltekinna lögaðila. Á hinn bóginn mundi það einnig takmarka upplýsingaréttinn mjög ef allar upplýsingar sem snerta einkahagsmuni einstaklinga eða lögaðila væru undanþegnar. Ekki er ástæða til að víkja frá þeirri stefnu sem mótuð var að þessu leyti með þeim lögum sem nú eru í gildi, enda kynni annað að ganga gegn stjórnarskrárvörðum rétti manna til einkalífs annars vegar og hins vegar eðlilegum og réttmætum hagsmunum fyrirtækja og annarra lögaðila af því að geta lagt grundvöll að viðskiptalegum ákvörðunum og gerningum.

Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.
    
Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.“

Við mat á því hvort skýrsla sú er kærandi hefur óskað aðgangs að hafi að geyma upplýsingar sem falla undir undantekningarákvæði 9. gr. upplýsingalaga ber samkvæmt framangreindu að líta til þess hvaða persónuupplýsingar teljast vera viðkvæmar. Í a-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, segir að meðal slíkra upplýsinga séu m.a. upplýsingar um stjórnmálaskoðanir, svo og trúar- eða aðrar lífsskoðanir, en það getur átt við um upplýsingar sem skráðar eru um menn sem taka þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum. Þá segir í b-lið að viðkvæmar séu upplýsingar um það hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, en það getur átt við um upplýsingar sem unnar eru úr dagbókum og málaskrám lögreglu.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir umrædda skýrslu og felst á það mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að hún hafi að geyma upplýsingar sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar af þessari ástæðu er það niðurstaða nefndarinnar að lögreglustjóranum hafi verið rétt að synja kæranda um aðgang að skýrslunni í heild sinni.

Í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga segir að eigi ákvæði 6.-10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð er fylgdi frumvarpi til laganna segir um þetta:

„Í 3. mgr. 5. gr. er kveðið á um að eigi undantekningarreglur 6.–10. gr. frumvarpsins aðeins við um hluta gagns beri að veita aðgang að öðru efni þess. Hér er um að ræða sambærilega reglu og nú er að finna í 7. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996. Ber að skýra hana með sama hætti og það ákvæði hefur verið skýrt. Í því felst að veita á aðgang að hluta gagns ef fært telst að skilja þær upplýsingar sem falla undir undantekningar frá þeim upplýsingum sem veita má aðgang að með tiltölulega einföldum hætti. Skiptir í því sambandi máli hversu víða þær upplýsingar koma fram sem óheimilt er að veita aðgang að og hversu stór hluti gagnsins verður þá ekki afhentur. Má hér almennt miða við að ef þær upplýsingar sem halda ber eftir koma fram í meira en helmingi skjals þurfi ekki að veita aðgang að öðrum hlutum þess.“

Hér að framan var efnistökum skýrslu þeirrar er kærandi óskar aðgangs að lýst í grófum dráttum. Eins og þar var rakið lýkur einstökum þáttum skýrslunnar yfirleitt á því að teknar eru upp orðréttar tilvitnanir í umfjöllun fjölmiðla um þau mótmæli sem skýrslan fjallar um. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er hér um að ræða opinberar upplýsingar sem ekki falla undir nein ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012 um takmarkanir á upplýsingarétti. Umræddir hlutar skýrslunnar eru skýrt afmarkaðir og aðgengilegir. Er það því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kærandi eigi rétt á að fá aðgang að umræddum hlutum skýrslunnar á grundvelli 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Umræddir hlutar skýrslunnar eru nánar afmarkaðir í úrskurðarorði.

Eins og rakið er hér að framan var beiðni kæranda reist á 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er fjallar um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Í 14. gr. upplýsingalaga er fjallað um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfa. Þar segir í 1. mgr. að skylt sé, sé þess óskað, að veita aðila aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan.

Á einum stað í umræddri skýrslu er að finna sérstaka umfjöllun um samskipti lögreglunnar við kæranda sjálfan. Umfjöllunin er afmörkuð og vel aðgreinanleg frá öðrum hlutum skýrslunnar án þess að samhengi textans raskist. Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sé rétt, á grundvelli 14. og 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, að afhenda kæranda afrit af þessum hluta skýrslunnar, svo sem afmarkað er með nánari hætti í úrskurðarorði.

Að öðru leyti eru þeir hlutar skýrslunnar sem ekki innihalda upplýsingar er falla undir ákvæði upplýsingalaga um takmarkanir á upplýsingarétti svo samofnar meginefni skýrslunnar að ekki kemur ekki til álita að leggja fyrir lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu að afmá þær og afhenda aðeins það sem eftir stendur, með vísan til 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð

Staðfest er synjun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á beiðni Evu Hauksdóttur um að fá aðgang að skýrslunni „Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011“ í heild sinni.Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu ber hins vegar að veita kæranda aðgang að eftirfarandi hlutum skýrslunnar:

Umfjöllun um samskipti stjórnvalda við kæranda á blaðsíðu 52, frá og með orðum: „Atvikalýsing“ til og með orðm „út úr bankanum“ á blaðsíðu 53.

Tilvitnanir í fjölmiðlaumfjöllun á eftirfarandi stöðum: Frá og með orðinu „gagnrýni“ á miðri blaðsíðu 21 að orðunum „á Austurvelli árið 1949“ á miðri blaðsíðu 26, frá orðinu „gagnrýni“ á miðri blaðsíðu 35 og að orðinu „miðborginni“ í lok fyrstu málsgreinar á bls. 38, frá orðinu „gagnrýni“ á miðri bls. 46 og að orðunum „af þessu tagi“ í lok 2. málsgr. á bls. 49, frá orðinu „gagnrýni“ á bls. 55 og að orðunum „[…]“ í lok fyrstu málsgr. á bls. 57, frá orðinu „gagnrýni“ í næstneðstu málsgr. á bls. 63 og að orðunum „[…]“ á miðri bls. 65, frá orðinu „gagnrýni“ á bls. 70 og niður þá síðu, frá orðinu „gagnrýni“ á bls. 84 og að orðunum „bara á sjónvarpinu“ á þeirri síðu, frá orðinu „gagnrýni“  á bls. 113 og að orðunum „bætt á eldinn“ á miðri bls. 115, frá orðunum „gagnrýni“ á bls. 131 og til loka bls. 134, frá orðunum „gagnrýni“ á bls. 136 og að orðunum „segir […]“ á bls. 140, frá orðinu „gagnrýni“ á miðri bls. 166 og að orðunum „bróðir minn“ á bls. 168, frá orðinu „gagnrýni“ á miðri bls. 180 og til orðanna „taka […] niður“.    
    


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður





                                                Sigurveig Jónsdóttir                                        Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum