Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. júlí 2013 Dómsmálaráðuneytið

Átak vegna útlendingamála framlengt

Framlengja á átaki innanríkisráðuneytisins vegna málefna hælisleitenda en umsóknum um hæli fjölgaði umtalsvert á fyrri hluta ársins miðað við síðasta ár. Kostnaður vegna þessarar fjölgunar hefur vaxið mjög bæði vegna fjölda umsókna og lengri málsmeðferðartíma. Með því að fjölga stöðum tímabundið hefur tekist að stytta meðal málsmeðferðartímann fyrstu fimm mánuði ársins úr 548 dögum í 393.

Með því að stytta meðal málsmeðferðartímann næst umtalsverður sparnaður þegar tíminn vegna dvalar og umönnunar hælisleitenda styttist. Kostnaður ríkisins vegna hælisleitenda meðan umsóknir þeirra eru gaumgæfðar er 7.449 kr. á dag og hefur verið áætlað að með tveimur viðbótar stöðugildum megi spara kringum 38 milljónir króna á ári. 

Tillögur um framtíðarskipan í haust

Átak í útlendingamálum snýst annars vegar um að í mars var bætt við tveimur tímabundnum stöðum lögfræðinga hjá Útlendingastofnun og tveimur hjá innanríkisráðuneytinu. Framlengja á ráðningu þeirra til áramóta sem kosta mun kringum 13 milljónir króna. Hins vegar snýst átakið um að verkefnisstjórn sem skipuð var í vor vinnur að tillögum um skilvirkara fyrirkomulag til framtíðar hvað varðar stjórnsýslu í málaflokknum svo og móttöku og dvöl hælisleitenda. Gert er ráð fyrir að ráðuneytið móti í haust stefnu til framtíðar um fyrirkomulag hælismála.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum