Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. júlí 2013 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fundar í Brussel

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fundaði í dag með José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Herman van Rompuy, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins.

Forsætisráðherra gerði á fundunum grein fyrir áherslum nýrrar ríkisstjórnar varðandi hlé á viðræðum við Evrópusambandið, og lagði áherslu á mikilvægi góðs samstarfs Íslands og Evrópusambandsins og gildi EES-samningsins fyrir Íslendinga. Fjallað var um stöðu mála innan Evrópusambandsins almennt, einkum um þróun efnahagsmála á evrusvæðinu og framtíð þess.

Jafnframt var rætt um að styrkja samstarf Íslands og Evrópusambandsins, m.a. varðandi orkumál og málefni Norðurslóða. Forsætisráðherra gerði einnig grein fyrir afstöðu Íslands í makríldeilunni, lýsti áhyggjum af þeirri umræðu sem hefur verið á vettvangi Evrópusambandsins um mögulegar viðskiptaþvinganir ESB gagnvart Íslandi í andstöðu við EES og Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) og benti á að slíkar aðgerðir myndu ekki stuðla að lausn deilunnar.

„Þetta voru mjög uppbyggilegir og jákvæðir fundir. Möguleikar á sterkara samstarfi Íslands og ESB eru fjölbreyttir og við eigum að vinna sameiginlega að því að nýta þá óháð því hvernig sambandi þessara aðila er háttað að öðru leyti. Þar nefni ég t.d. sérstaklega Norðurslóðasamstarf, umhverfismál og orkunýtingu“ sagði forsætisráðherra að loknum fundunum.

„Það var sérstaklega áhugavert að heyra mat Barroso á framtíðarþróun Evrópusambandsins og þeim áskorunum sem sambandið stendur frammi fyrir. Við ræddum einnig þá stöðu sem komin er upp í makríldeilunni og það var mjög ánægjulegt að heyra að forseti framkvæmdastjórnarinnar tók að loknum umræðum okkar skýrt fram að höfuðmarkmið Evrópusambandsins væri að leysa deiluna með samningum og að mögulegar refsiaðgerðir sambandsins vegna deilunnar myndu alls ekki fara út fyrir ramma EES samningsins og WTO eða annarra alþjóðlegra skuldbindinga Evrópusambandsins.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum