Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. júlí 2013 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Drög að breytingu á reglugerð um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu til umsagnar

Drög að breytingu á reglugerð um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu nr. 364/2003 eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Umsagnarfrestur er til og með 20. ágúst næstkomandi og skulu umsagnir sendar á netfangið [email protected].

Innanríkisráðuneytið hefur undanfarna mánuði í samvinnu við Póst- og fjarskiptastofnun skoðað leiðir til að draga úr kostnaði við dreifingu póstsendinga sem dreift er með landpóstum. Helstu ástæður þess er mikil fækkun á póstsendum bréfum á undanförnum árum. Þannig hefur bréfum innan einkaréttar (0-50 g) fækkað um 36,5% frá árinu 2008 til loka ársins 2012 eða úr 50,5 milljónir bréfa í rúmlega 32 milljónir. Færri bréf standa því undir heildarkostnaði Íslandspósts við þá þjónustu sem fyrirtækinu ber að veita um land allt.

Að mati PFS er takmarkað svigrúm til þess að mæta þessari fækkun bréfa með frekari gjaldskrárhækkunum. 

Fyrirtæki og stofnanir ríkisins hafa á undanförnum árum aukið rafrænar sendingar á pósti. Er nú svo komið að flestir landsmenn og fyrirtæki hafa aðgang að reikningum í heimabanka viðkomandi. Mikilvægi þess að fá póstinn einnig sendan heim hefur því farið minnkandi. Þá hafa nær allir landsmenn nú aðgang að háhraðatengingum eftir aðkomu fjarskiptasjóðs.

Þann 1. júní 2012 var þjónustu Íslandspósts á dreifingu bréfa skipt upp með skýrari hætti en verið hafði. Notendum póstsins er boðið upp á að kaupa tvenns konar þjónustu. A-þjónustu þar sem borið er út daginn eftir móttöku og B-þjónustu þar sem pósturinn er borinn út innan þriggja daga. Til að þetta nýtist Íslandspósti til að draga úr kostnaði við dreifingu hefur verið tekið upp sértakt kerfi við útburð, svokallað XY- dreifkerfi. Aðeins er hins vegar hagkvæmt að styðjast við þetta kerfi á höfuðborgarsvæðinu og í stærri þéttbýliskjörnum landsins. Með þeim breytingum sem lagt er til að verði gerðar á 10. gr. reglugerðar um alþjónustu er ætlunin að Íslandspóstur fái svigrúm til að nýta sér það hagræði sem þessi breyting hafði í för með sér.

Hefur ekki áhrif á B-póst

Sú tilhögun að dreifa pósti annan hvern dag með landpósti mun ekki hafa áhrif á dreifingu þess pósts sem flokkast undir B-póst. Fyrirtækið ætti að geta staðið við dreifingu á a.m.k. 85% þess pósts innan þriggja daga í samræmi við þær gæðakröfur sem gilda í dag. Áhrif yrðu fyrst og fremst á þann póst sem í dag fellur undir A-póst og þá einungis á um helminginn eða um 16% af heildarmagni innan einkaréttar því póstur sem er póstlagður daginn á undan landpóstaferð mun fara í dreifingu daginn eftir.

Þess skal geta að fram til ársins 2005 var pósti dreift tvo til þrjá daga í viku á flestum þeim leiðum sem líklegar eru til að falla undir væntanlegar breytingar.

Bréfapósti sem fellur utan einkaréttar (50-2000 g) og bögglapósti mun seinka um einn dag að meðaltali í dreifingu. Hins vegar er rétt að benda á hvað varðar bögglaþjónustu, að neytendum standa fleiri kostir til boða en þjónusta Íslandspósts auk þess sem fyrirtækið gæti mögulega gripið til einhverra mótvægisaðgerða.

Með hliðsjón af ofangreindu er lagt til að tekið verði upp það fyrirkomulag í dreifbýli að dreift verði annan hvern dag þar sem kostnaður við dreifinguna er þrefalt hærri en sambærilegur kostnaður í þéttbýli (höfuðborgarsvæðið og þéttbýliskjarnar út á landi).

Auk framangreindra breytinga er lagt til að heimilt verði að synja um útburð pósts á heimilisfang ef vart verður við eftirlitslausan hund á viðkomandi lóð sem torveldað getur aðgengi bréfbera að bréfakassa/bréfalúgu. Er breytingin lögð til í kjölfar atvika þar sem bréfberar hafa orðið fyrir líkamstjóni af völdum eftirlitslausra hunda.

Skoðanakönnun

Við undirbúning að reglugerðarbreytingunni létu IRR og PFS kanna í apríl 2012 viðhorf landsmanna til póstþjónustu. Var þar m.a. spurt hversu vel það myndi henta viðkomandi að fá póstinn þrisvar í viku. Um 60% svarenda töldu það henta prýðilega, um 40% lýstu sig óánægð með slíka fækkun póstdreifingardaga en einungis tæp 3% lýstu sig tilbúin að greiða fyrir daglega afhendingu þrátt fyrir að lýsa yfir óánægju með fækkun póstdreifingardaga.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum