Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. júlí 2013 Forsætisráðuneytið, Úrskurðir forsætisráðuneytisins

Úrskurður forsætisráðuneytisins nr. 1 í máli nr. 1/2013

Fimmtudaginn 25. júlí 2013 var í forsætisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Með erindi, dags. 17. júlí 2013, kærði Must Visit Iceland ehf.  (hér eftir kærandi) þá ákvörðun sveitarfélagsins Hornafjarðar (hér eftir kærði) frá 30. maí 2013 að synja umsókn kæranda um leyfi til að nýta þjóðlendu innan sveitarfélagsins við vesturbakka Jökulsárlóns. Um kæruheimild vísar kærandi til 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. 

Kröfur

Kærandi krefst þess að ráðherra felli framangreinda synjun kærða úr gildi og leggi fyrir kærða að samþykkja umsókn kæranda frá 5. apríl 2013 um leyfi til að nýta þjóðlendu við vesturbakka Jökulsárlóns. Þá er þess óskað í kærunni að réttaráhrifum ákvörðunar kærða verði frestað þar til úrskurður gengur í málinu.

Er einungis sá hluti málsins er lýtur að kröfu um frestun réttaráhrifa til meðferðar í úrskurði þessum.

Málsmeðferð

Kæran var send kærða til umsagnar með tölvupósti 17. júlí sl. Kærði hefur ekki lagt fram umsögn um þann þátt málsins er varðar kröfuna um frestun réttaráhrifa ákvörðunar kærða.

Málavextir

Málavextir verða hér raktir eins og þeir koma fram í kæru og einungis að því marki sem þörf er á vegna úrlausnar um þá ósk kæranda að frestað verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi farið þess á leit við kærða með bréfi, dags. 10. júní 2010, að hann fengi aðstöðu undir starfsemi sína á vesturbakka Jökulsárlóns sem er þjóðlenda. Á bæjarráðsfundi hinn 21. júní 2010 var beiðni kæranda hafnað. Engin leyfi hafa síðar verið veitt til handa kæranda til að reka umrædda atvinnustarfsemi á vesturbakka lónsins. Þrátt fyrir það hóf kærandi starfsemi innan þjóðlendunnar og hefur svo verið síðan. Kærandi sótti um leyfi öðru sinni til að nýta land á umræddum stað undir atvinnustarfsemi sína með erindi til kærða 5. apríl 2013. Kærði hafnaði erindi kæranda með ákvörðun þann 30. maí 2013 og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsástæður og lagarök kæranda vegna kröfu um frestun réttaráhrifa

Kærandi færir í kæru fram þau rök fyrir kröfu um frestun réttaráhrifa á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ríkar ástæður mæli með því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað. Telur hann verulegar líkur á að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt og að verði starfsemi hans stöðvuð muni það valda honum óbætanlegu tjóni á háanna tíma í starfseminni og vera til þess fallið að eyðileggja orðspor hans. Telur kærandi að það yrði honum sérstaklega þungt að ráða bót á því tjóni sem hann yrði fyrir ef hin kærða ákvörðun fengi að standa óhögguð.

Niðurstaða

Um kæruheimild vísar kærandi til 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998. Þar segir að rísi ágreiningur um veitingu leyfa sveitarstjórnar sker ráðherra úr honum. Samkvæmt 1. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 66 frá 23. apríl 2013 fer forsætisráðuneytið með málefni sem varða þjóðlendur. Í athugasemdum við frumvarp til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta segir meðal annars um 3. gr. að þar sem sveitarfélögum sé fengin aðild að ráðstöfun hinna sameiginlegu gæða sem felast í þjóðlendum þykir rétt að forsætisráðherra geti ráðið til lykta ágreiningi sem rís um veitingu leyfa til nýtingar lands og landsréttinda innan þjóðlendna, t.d. ef synjun sveitarstjórnar telst ekki byggð á málefnalegum sjónarmið. Með vísan til þessa er ljóst að forsætisráðuneytið er úrskurðaraðili á æðra stjórnsýslustigi um ákvarðanir sveitarstjórna á grundvelli laga nr. 58/1998 sem lúta að leyfisveitingu innan þjóðlendna.

Krafa kæranda um frestun á réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar er reist á 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar er í 1. mgr. kveðið á um þá meginreglu að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Undantekningu frá þeirri reglu er að finna í 2. mgr. þar sem segir að æðra stjórnvaldi sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því. 

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 er engum heimil afnot þjóðlendu fyrir sjálfan sig nema að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum laga að öðru leyti. Er leyfisveitingarvaldinu skv. 3. gr. skipt á milli sveitarstjórna annars vegar og forsætisráðuneytisins hins vegar. Þannig veitir forsætisráðuneytið leyfi fyrir nýtingu vatns- og jarðhitaréttinda, náma og annarra jarðefna og sveitarstjórnir veita leyfi fyrir nýtingu lands og landsréttinda að öðru leyti. Þó þarf sveitarstjórn jafnframt að leyta samþykkis ráðuneytisins ef fyrirhuguð nýting er til lengri tíma en eins árs. Þar sem ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna felur í sér úthlutun takmarkaðra gæða sem eru eftirsóknarverð og kunna að hafa mikla fjárhagslega þýðingu fyrir þá sem fá leyfi til slíkrar nýtingar verður að gera þær kröfur að gætt sé að sjónarmiðum um jafnræði þegar slíkum gæðum er úthlutað til einstaklinga eða lögaðila. Í samræmi við góða stjórnsýsluhætti er því rétt að tilkynna í auglýsingu um hina fyrirhuguðu leyfisveitingu og kalla eftir umsóknum um að hljóta leyfi til nýtingar lands eða landsréttinda innan þjóðlendu áður en leyfi er veitt. Slík stjórnsýsluframkvæmd stuðlar að jafnræði borgaranna og gegnsærri stjórnsýslu.

Kærandi sótti um leyfi til kærða með erindi 10. júní 2010 til að staðsetja atvinnustarfsemi sína innan þjóðlendu á vesturbakka Jökulsárlóns og var þeirri umsókn hafnað. Ekkert leyfi hefur síðar verið veitt fyrir atvinnustarfsemi kæranda á umræddum stað. Starfsemi kæranda er því án leyfis á umræddu svæði. Í ljósi þessa er ekki unnt að fallast á með kæranda að hugsanlegt tjón hans vegna hinnar kærðu ákvörðunar leiði til þess að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar sé frestað. Hugsanlegt tjón kæranda er tilkomið vegna atvinnustarfsemi hans innan þjóðlendu sem ráðist var í án þess að lögformlegt leyfi lægi fyrir og almennt má ætla að aðili í slíkri stöðu eigi að gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem í því felst. Þá telur ráðuneytið, við upphaf málsmeðferðarinnar og áður en aðilum hefur verið veitt tækifæri til að koma að frekari sjónarmiðum, að rök kæranda sem fram koma í kærunni séu ekki svo viðurhlutamikil að verulegar líkur séu á að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt. 

Ráðuneytið tekur fram að í framangreindri niðurstöðu um frestun réttaráhrifa felst ekki efnisleg afstaða til röksemda kæranda sem fram koma í kæru eða þeirra sjónarmiða sem lágu til grundvallar ákvörðun kærða.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu kæranda um að frestað verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, er hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum