Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. júlí 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra tekur á móti umhverfisráðherra Japans

Umhverfis- og auðlindaráðherra tekur á móti umhverfisráðherra Japans
Umhverfis- og auðlindaráðherra tekur á móti umhverfisráðherra Japans

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók á móti Nobuteru Ishihara, umhverfisráðherra Japans og föruneyti í Hellisheiðavirkjun um helgina. Ishihara er annar japanski ráðherrann sem heimsækir Ísland í opinberum tilgangi síðastliðin 14 ár en Ishihara hafði óskað sérstaklega eftir þessu boði starfsbróður síns til að sjá þá uppbyggingu á jarðvarmasviðinu sem orðið hefur á hér á Íslandi með eigin augum.

Nobuteru Ishihara er 56 ára og er annar valdamesti stjórnmálamaður Japans, en jafnframt því að gegna embætti umhverfisráðherra þá er hann aðalframkvæmdastjóri stærsta stjórnmálaflokks Japans, Frjálslynda lýðræðisflokksins.

Í heimsókn sinni til Íslands kynnti Ishihara sér nýtingu jarðvarma og þá þekkingu sem íslendingar búa yfir á þessu sviði. Ráðherrann fékk greinargóða kynningu á jarðvarma og orkunýtingu í Hellisheiðavirkjun í fylgd Sigurðar Inga umhverfis- og auðlindráðherra en heimsókn ráðherra þessa málaflokks frá Japan er augljóslega afar mikilvæg fyrir Íslendinga.

Hellisheiðavirkjun skoðuð Hellisheiðavirkjun skoðuð Bjarni Bjarnason forstjóri Hellisheiðarvirkjunar sýnir japanska umhverfisráðherranum og fylgdarliði virkjunina.

Í heimsókninni í Hellisheiðarvirkjun kynnti Ingimar G. Haraldsson, sérfræðingur í jarðvarmaverkfræði, frá Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna starfsemi skólans en höfuðstöðvar jarðhitaskólans eru staðsettar í Tókýó.

Ishihara er mjög áhugasamur og sérlega hrifinn af þeirri þekkingu og reynslu sem Íslendingar hafa aflað sér og nýtt í eigin þágu og jafnframt miðlað til erlendra landa. Hamfarirnar miklu árið 2011 og kjarnorkuslysið í Fukushima sem kom í kjölfar jarðskjálftans mikla og flóðbylgjunnar sem skullu á kjarnorkuverinu urðu til þess að andstaða við nýtingu kjarnorku hefur verið mikil í landinu. Þróunin í jarðvarmanum er langt á veg komin miðað við aðra orkumiðla s.s. vind- og sólarorku. Heimsóknin gæti því verið upphafið að nýju tækifæri sem Íslendingar gætu nýtt sér til að selja hugvit og dýrmæta reynslu.

Á jarðvarmasviðinu felst samkeppnisforskot íslenskra fyrirtækja aðallega í hitaveitunni en ekkert annað land hefur 85 ára reynslu á þessu sviði líkt og við Íslendingar. Japanir á hinn bóginn þekkja ekkert til hitaveitu en í Norður-Japan hitar fólk híbýli sín helst með húshitunarolíulömpum (kerósín) sem rétt dugar til að hita eitt herbergi í senn, og með ærnum tilkostnaði þar sem þessi húshitunaraðferð er mjög kostnaðarsöm miðað við hitaveitu og er mjög mengandi.

Jarðskjálftahermirinn skoðaður Jarðskjálftahermirinn skoðaður. 


Japan hefur þriðja mesta jarðvarmaforða í jörðu af öllum löndum heims, þ.e. 20.540 MW, en nýtir einugis brot af honum, þ.e. 530 MW. Þessi nýting fer nær eingöngu í að framleiða rafmagn. Vegna þessa er nýting þessara jarðvarmavera ekki sjálfbær og verður japanska ríkið að niðurgreiða þessa framleiðslu.

Ísland er í sjötta sæti hvað orkumagn í jörðu varðar, þ.e. 5.800 MW, en ekki er sömu sögu að segja hvað nýtingu jarðvarmans varðar í samanburði við Japan þar sem Íslendingar nýta mun meiri jarðvarma eða um 630 MW.

Jarðvarmasvæðin í Japan voru friðuð fyrr á tímum og eru nú flest í einkaeigu þar sem hótel og baðstofur ( á japönsku „onsen“) hafa verið byggð upp. Almenningur í Japan hefur því ekki sama aðgang að jarðvarma og getur ekki nýtt auðlindina á sama hátt og Íslendingar.

Síðan Ishihara tók við völdum sem umhverfisráðherra hefur hann staðið fyrir því að greiða úr því flókna regluverki sem sett hefur jarðvarmanýtingu sérlega þröngar skorður og gert hana nánast ómögulega á svæðum sem japönsk stjórnvöld hafa skilgreint sem þjóðgarða.

Heimsóknin sem skipulögð var í samvinnu við sendiráð Íslands í Japan var liður í því að kynna fyrir Ishihara verklag á Íslandi á þessu sviði og hvernig íslenska umhverfisráðuneytið kemur að þróun þess. Hvað þetta varðar má líta til þess hvernig íslenska umhverfisráðuneytið hefur staðið að þessari skipulagningu með það að markmiði að finna leiðir til þess að saman geti farið verndun jarðhitasvæðanna en líka aukin sjálfbær nýting í almanna þágu.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum