Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. ágúst 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Reglugerð um náttúrulaugar í umsagnarferli

Náttúrulaug

Drög að reglugerð um baðstaði í náttúru Íslands hefur verið send haghöfum til umsagnar. Markmið reglugerðarinnar er að fyrirbyggja og koma í veg fyrir slys og sýkingar, stuðla að öryggi og bættum hollustuháttum í náttúrulaugum og heilnæmi vatns á baðstöðunum.   

Reglugerðin á að gilda um náttúrulaugar eða baðströnd sem er notað til baða af almenningi þar sem vatnið er ómeðhöndlað af sótthreinsiefnum, geislum eða með öðrum hætti. Þá tekur reglugerðin einnig til búnings- og salernisaðstöðu við náttúrulaugar þar sem það á við og skyldur rekstraraðila í tengslum við hana.

Samkvæmt drögunum er baðstöðum skipt í fjóra flokka, m.a. eftir því hvort formlegur rekstur fer fram við þá eða ekki og aðsókn baðgesta. Eru skyldur rekstraraðila baðstaða í ólíkum flokkum tilgreindar sem og hvort rekstur þeirra sé starfsleyfisskyldur eða ekki. Þá er kveðið á um sýnatökur og örverufræðilegar rannsóknir og getur heilbrigðisnefnd á hverjum stað gefið út viðvaranir, t.d. þar sem niðurstöður örverurannsókna á baðvatninu eru ítrekað yfir viðmiðunargildum, sýrustig er óeðlilega hátt eða lágt, þar sem hætta er á bruna af heitu vatni, hætta á grjóthruni og þar sem aðrar hættur eru í nánasta umhverfi baðstaðarins.

Drögin að reglugerðinni voru send helstu hagsmunaaðilum til umsagnar um miðjan júlí en almenningi gefst einnig kostur á að senda ráðuneytinu athugasemdir við þau. Umsagnir eða ósk um lengri frest skal senda umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík fyrir 15. ágúst nk. eða með tölvupósti á netfangið [email protected].

Drög að reglugerð um baðstaði í náttúru Íslands

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum