Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. ágúst 2013 Utanríkisráðuneytið

ESB setur ekki af stað fleiri IPA-verkefni

Á undanförnum vikum hefur utanríkisráðuneytið átt í viðræðum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) um framhald svokallaðra IPA-verkefna, en markmið slíkra verkefna hér á landi hefur verið að styrkja stjórnsýsluna og undirbúa mögulega þátttöku í uppbyggingarsjóðum ESB kæmi til aðildar að sambandinu. Hafa íslensk stjórnvöld beitt sér fyrir hagfelldri lausn málsins samhliða því að skýrt hefur komið fram af þeirra hálfu að í ljósi þess að gert hafi verið hlé á aðildarviðræðum Íslands við ESB verði fleiri IPA-verkefni ekki undirbúin.

Íslensk stjórnvöld hafa í samskiptum sínum við framkvæmdastjórn ESB lagt áherslu á að þau standi að fullu við þær skuldbindingar sem þegar hefur verið stofnað til og lúta að því að ljúka þeim verkefnum sem þegar eru hafin. Jafnframt lýstu stjórnvöld sig reiðubúin til að hefja framkvæmd þeirra verkefna sem undirbúin hafa verið en framkvæmdastjórnin hefði ekki enn gengið frá samningum um. Á þetta sérstaklega við um verkefni þar sem umfangsmikil undirbúningsvinna liggur að baki sem annars kunni að fara forgörðum, þ. á m. tilraunaverkefni á sviði atvinnu- og byggðaþróunar sem fjölmargir aðilar um allt land hafa lagt mikla vinnu í að undirbúa.

Stjórnvöldum hefur nú borist svar frá stækkunarskrifstofu framkvæmdastjórnar ESB þar sem áréttað er að tilgangur IPA-aðstoðar sé að undirbúa umsóknarríki fyrir aðild að ESB og að það sé í raun skilyrði fyrir að aðstoð sé veitt að viðtökulandið stefni að inngöngu í sambandið. Með vísan til þess að stjórnvöld hafi gert hlé á aðildarviðræðunum verði fleiri samningar um IPA-verkefni því ekki undirritaðir að svo stöddu.

Yfirlit um verkefni á landsáætlunum IPA 2011-2013

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum