Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. ágúst 2013 Dómsmálaráðuneytið

Kirkjustaðurinn Hólar samofinn sögu og menningu þjóðarinnar

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti ávarp á hátíðarsamkomu á Hólahátíð í gær, sunnudag. Þar var þess meðal annars minnst að 250 ár eru liðin frá byggingu Hóladómkirkju.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti ávarp á Hólahátíð.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti ávarp á Hólahátíð.

Í ávarpi sínu sagði ráðherra að kirkjan og kirkjustaðurinn Hólar væru samofin sögu þjóðarinnar og menningu, þar hefðu atburðir og tíðindi gerst sem hefðu haft mikil áhrif á söguna og skipan veraldlegra sem andlegra mála á Íslandi.

Í ræðu sinni sagði innanríkisráðherra meðal annars:

,,Sem elsta steinkirkjan á landinu var Hóladómkirkja byggð á mjög erfiðum tímum í sögu þjóðarinnar. 18. öldin öll var Íslendingum þungbær, hófst með stórubólu, eldgos og hafísár voru tíð og í aldarlok dynja móðuharðindin yfir. Húsakynnin á þessum tíma voru slæm og það hafa því verið mikilfengleg áform fyrir litla og fátæka þjóð að reisa kirkju sem þessa.

En þó að þjóðin hafi þá og oft síðar glímt við erfiðleika þá er svo mörgu hægt að áorka með samtakamætti og áræði – en fyrst og fremst með því að hafa trú á okkur sjálf og framtíðina. Hóladómkirkja er vitnisburður um það.

Það er einmitt þetta sem ég tel að við eigum að leggja áherslu á saman – að halda ótrauð áfram að byggja upp okkar samfélag, horfa til framtíðar og nýta þau tækifæri sem við Íslendingar höfum á svo mörgum sviðum.”

Þá sagði ráðherra að þjóðkirkjan væri sú stofnun sem hlúð hefði að þjóðararfinum gegnum aldirnar, hún væri ekki aðeins vettvangur fyrir trúariðkun heldur einnig skjól í erfiðleikum og helgidómur á gleðistundum og tímamótum. Í lok ávarpsins sagði ráðherra síðan:

,,Ég vil því að endingu hvetja biskup Íslands, vígslubiskupa og aðra innan kirkjunnar til að vera áfram sannir leiðtogar í kirkjunni og veita þjóð sinni leiðsögn á erfiðum tímum. Kirkjan er það þjóðfélagsafl sem getur náð til allrar þjóðarinnar með kærleiksboðskap sinn. Saman skulum við svo – með vonina, kraftinn og íslenska hugrekkið að vopni – takast á við verkefnin framundan af sömu framsýni og metnaði og þeir sem nákvæmlega hér að Hólum unnu sannkallað kraftaverk fyrir 250 árum síðan.”

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum