Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. september 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Þrjár tilnefningar til fjölmiðlaverðlauna

Jarðarberið.

Dómnefnd hefur tilnefnt þrjá til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem veitt verða á Degi íslenskrar náttúru mánudaginn 16. september næstkomandi.

Tilnefnd til verðlaunanna eru:

Guðbjörg Gissurardóttir, ritstjóri tímaritsins Í boði náttúrunnar

Guðbjörg ritstýrir vönduðu og fallegu tímariti um íslenska náttúru sem hún stofnaði með manni sínum Jóni Árnasyni árið 2010 og nefnist Í boði náttúrunnar. Áður önnuðust þau útvarpsþætti á RÚV um sama efni svo að málaflokkurinn er henni afar hugleikinn. Efni tímaritsins er umfram allt innblásið af íslenskri náttúru og hvernig íbúar landsins tengjast henni og nýta kosti hennar. Með brennandi áhuga á sjálfbærum og heilbrigðum lífsstíl leitast Guðbjörg við að höfða til breiðs lesendahóps meðal annars í því augnamiði að færa náttúruna nær fólki og stuðla að góðri andlegri og líkamlegri heilsu.

Páll Steingrímsson, kvikmyndagerðarmaður

Páll er þekktur fyrir heimildamyndagerð sína en heimildamyndir hans skipta mörgum tugum frá Vestmannaeyjagosinu 1973 og fram á þennan dag. Megináhersla hans hefur verið á náttúrulífsmyndir, s.s. fuglasögurnar sem hann hefur fengist við hin síðustu ár, og áhrif manna á umhverfið. Starf Páls að fræðslu og vernd íslenskrar náttúru er langt og farsælt og hefur borið hróður hans og landsins um heimsbyggðina. Páll hefur enda hlotið viðurkenningar bæði hér á landi og erlendis fyrir störf sín, m.a. heiðursverðlaun Eddu.

Svavar Hávarðsson, blaðamaður á Fréttablaðinu

Svavar hefur víðtækan áhuga á umhverfismálum og íslenskri náttúru eins og skrif hans í Fréttablaðinu bera vott um. Meðal mála, sem hann hefur fjallað um í ítarlegum fréttum og fréttaskýringum, eru síldardauði í Kolgrafafirði, útblástur brennisteinsvetnis frá virkjunum, loftslagsmál og skólp- og fráveitumál. Svavar fékk verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku árið 2012 fyrir umfjöllun sína um díoxínmengun frá sorpbrennslum. Skrif hans þjóna mikilvægu upplýsinga- og fræðsluhlutverki fyrir almenning auk þess sem þau veita valdhöfum og fyrirtækjum nauðsynlegt aðhald.

Verðlaunagripinn, Jarðarberið, hannaði Finnur Arnar Arnarson.

Í dómnefnd sitja Þór Jónsson formaður, Árni Gunnarsson og Snæfríður Ingadóttir.

Þakkað er fyrir allar ábendingar og tilnefningar vegna verðlaunanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum