Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 24. september 2013

Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Jóna Valgerður kristjánsdóttir, varamaður Unnars Stefánssonar, tiln. af Landssambandi eldri borgara, Salbjörg Bjarnadóttir varamaður Geirs Gunnlaugssonar landlæknis, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af Bandalagi háskólamanna, Ólafur Magnússon, ASÍ, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Hrefna K. Óskarsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og ÖBÍ, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af Samtökum atvinnulífsins, Ásta S. Helgadóttir, Umboðsmaður skuldara, skipuð af velferðarráðherra, Unnar Stefánsson, tiln. af Landssambandi eldri borgara, Björg Bjarnadóttir, tiln. af Kennarasambandi Íslands, Ellý A. Þorsteinsdóttir, varamaður Stellu Kr. Víðisdóttur, tiln. af Reykjavíkurborg, Lovísa Lilliendahl, velferðarráðuneyti og Ingiríður Hanna Þorkelsdóttir, velferðarráðuneyti sem ritaði fundargerð.

Formaður setti fund og fór yfir dagskrá fundarins.

1. Fundargerð 87. fundar.

Fundargerð 87. fundar frá 27.08.2013 borin upp og samþykkt.

2. Lögð fram tillaga að málþingi um margbreytileika fjölskyldugerða.

Formaður rifjaði upp að í apríl sl. hafi verið haldinn fundur um fjölskyldustefnu og í framhaldinu hafi sveitarfélögunum verið sent hvatningarbréf um að setja sér fjölskyldustefnu.  Í framhaldinu var ákveðið  að halda málþing um margbreytileika fjölskyldugerða og nefnd skipuð um verkefnið og hefur Valgerður leitt starf nefndarinnar. Stefnt er að halda málþingið 1. nóvember nk og he  Yfirskrift málþingsins:  Taka stofnanir samfélagsins mið af margbreytileika fjölskyldugerða?  Á fundinum fór Valgerður Halldórsdóttir yfir dagskrárdrögin og dreifði þeim til fundarmanna.  Um er að ræða málþing sem haldið verður í samstarfi við Félag stjúpfjölskyldna, Heimili og skóla, Kennarasamband Íslands, velferðarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.  Valgerður benti á að e.t.v. mætti bjóða frjálsum félagasamtökum að taka þátt.  Fram kom sú ábending að hugsa mætti sér að fá fulltrúa frá skattayfirvöldum og fjármálaráðuneytinu til að vera með innlegg á málþinginu.  Upplýst að félagsmálaráðherra væri að skipa nefnd um mótun fjölskyldustefnu og mikilvægt væri að formaður eða fulltrúi þeirrar nefndar yrði annað hvort með innlegg eða tæki þátt í pallborðsumræðum. Umræður urðu um innhald og kostnað vegna málþingsins og fram koma að  hugsanlega gæti velferðarvaktin lagt eitthvað af mörkum eða sem næmi kr 100 þúsund en einnig leggur nefndin til að þátttökugjald verði. Ákveðið að Valgerður og hennar hópur geri fjárhagsáætlun og festi dagsetningu málþingsins.

3. Staðan í vinnu við skýrslu velferðarvaktarinnar.

Fulltrúar hópa um eldri borgara, jafnréttismál, skuldavanda, atvinnuleysi ungs fólks og hlutverk sveitarfélaga í kreppu hafa skilað sínum tillögum í skýrsluna en fulltrúar hópa um fjölskyldumál, viðkvæma hópa og barnahóp eiga eftir að skila sínum tillögum. Efni um gagnsemi vaktarinnar og upplýsingar frá Suðurnesjavaktinni eiga enn eftir að berast. Einnig hefur dregist starf Hilmu vegna anna við önnur verkefni í ráðuneytinu..

4. Geir Gunnlaugsson, landlæknir ræðir stöðuna í heilbrigðismálum.

Formaður bauð landlækni velkominn á fundinn og benti á að þar til í vor hafi velferðarvaktin ekki talið ástæðu til að vara við ástandinu í heilbrigðismálum í landinu. Ef marka mætti  fréttir sem nú birtast daglega í fjölmiðlum um uppsagnir og flótta heilbrigðisstarfsmanna og þá einkum í tengslum við ástandið á LSH sé kominn tími til að heyra í landlækni um stöðuna. 

Geir Gunnlaugsson, landlæknir telur brýnt að horfa á þá þætti heilbrigðisþjónustunnar sem brestir eru komnir í og að nauðsynlegt sé að halda vöku sinni.  Erum við að tala um heilsugæsluna í borginni eða heilsugæsluna úti á landi? Erum við að tala um sjúkrahúsið í Reykjavík eða sjúkra-húsin úti á landi?  Landlæknir telur heilbrigðisþjónustuna mjög góða og segir forvarnastarf kröftugt og í fullum blóma.  Heilbrigðisþjónustan sé miklu víðtækari en læknar og sjúklingar.  Um allt land er öryggi sjúklinga haft í fyrirrúmi en undir miklu álagi er vissulega meiri hætta á mistökum.  Nýjar tölur frá 2011 og 2012 sýna ekki fjölgun mála sem hafa borist landlæknis-embættinu og benti landlæknir á að 17 af 54 málum, sem búið er að ljúka, megi flokka sem mistök en þetta væri rétt um þriðjungur allra málanna.  Landlæknir vakti athygli á því að þjónusta við þungaðar mæður og fyrirbura væri með því besta sem þekktist í heiminum.  Engu að síður þurfum við að vera vakandi fyrir hættumerkjum.  Landlæknir lokar ekki augunum fyrir því að LSH stendur frammi fyrir gríðarlegum vanda og ýmis hættumerki eru til staðar vegna LSH svo sem húsnæðismál og aðbúnaður.  Þá hefur hann áhyggjur af mannauði íslenskrar heilbrigðisþjónustu en það sé nauðsynlegt að vanda orðavalið þegar talað er um að heilbrigðiskerfið sé hrunið.  Það að fólk er að flýja landið er vissulega áhyggjuefni og því sé nauðsynlegt að skapa spennandi starfsaðstöðu fyrir heilbrigðisfólk.

Að loknu máli landlæknis urðu umræður og spurningar til landlæknis þar sem m.a. var bent á nýútkomna skýrslu þar sem fram kemur að æ fleiri eldri borgarar hafa ekki efni á að leita sér læknisþjónustu.  Þetta væri erfitt vandamál sem þurfi að vera vakandi fyrir. Þá var vakin athygli á skýrslu Rúnars Vilhjálmssonar.  Landlæknir svaraði því til að þetta yrði að skoða og að hann vilji að staðinn verði vörður um að allir hafi aðgengi og jafnan kost að heilbrigðisþjónustunni.

Fram kom frá fulltrúum í vaktinni að  einkum efnalítið fólk leggur ekki í að fara til læknis vegna þess að það skuldar síðustu heimsóknir og þeim sem ekki leita læknis hefur farið fjölgandi í kjölfar nýja lyfjagreiðslukerfisins.  Bent var á að um helgar kemst fólk með geðraskanir ekki að fyrr en kl. 13 á geðdeild LSH.  Mikilvægt væri að stokka upp heilbrigðiskerfið. Góð heilbrigðisþjónusta ætti annað hvort að vera ókeypis eða tekjutengd.  Landlæknir sagði að finna þyrfti lausn á þessu, það vanti ekki viljannn en þetta væri flókið.  Það er skortur á geðlæknum og íslenska samfélagið er að kljást við langvinna sjúkdóma.  Geðheilbrigðisvandamál, alzheimer og fleiri sjúkdómar væri stórt heilbrigðisvandamál sem leysist ekki eingöngu með læknum heldur einnig vegna margra annarra þátta, væri samfélagslegt og þverfaglegt.

Spurt var hvort það væri siðferðilega rétt að senda ógreiddan lækniskostnað í lögfræðilega innheimtu.  Eiga inniliggjandi sjúklingar líka að borga lyfin sín eins og aðrir.  Í þessu sambandi benti landlæknir á að Norðmönnum væri farið að blöskra hár lyfjakostnaður þar í landi.  Á Íslandi höfum við val á lyfjum þ.e. læknar á LSH geta ákveðið lyfin.

Bent á að sá hópur sjúklinga fer vaxandi sem leitar aðstoðar hjá Reykjavíkurborg og biður um stuðning við lyf- og læknisþjónustu.  Lýst var miklum áhyggjum af þessu. – Bent var á mikilvægi þess að hafa skráðan heimilislækni.

Þá kom fram að kerfin okkar væru ekki að vinna nógu vel saman, skortur væri á heildstæðu skipulagi og forgangsröðum í úthlutun fjármuna væri röng. Samkvæmt skýrslu Boston Consulting er mikilvægt að styrkja grunnþjónustuna.

Þá var spurt hvort eðlilegt væri að vera á vottorði í mörg ár.  Hvort Virk hafi breytt einhverju en Virk hefur það hlutverk að reyna að koma fólki út í atvinnulífið.  Bent á að veikasti hópurinn hefur ekki aðgang að Virk.

Landlæknir ræddi sjálfsvígin og hefur landlæknisembættið verið að skoða sjálfsvígin.  Almennt virðist kreppa í samfélögum auka tíðni sjálfsvíga en að það hafi hins vegar ekki gerst hjá okkur.  Dánarmeinaskrá er vistuð hjá landlæknisembættinu og er skráningin nokkuð á eftir.  Á árunum 2001-2010 voru 34-35 sjálfsvíg á ári og hefur fækkað í yngri hópunum.  Mikil samvinna er við geðsviðið.  Fram kom að á árinu 2012 voru gerðar um 700 sjálfsvígstilraunir. – Að lokum benti landlæknir á að verið væri að kljást við margvísleg vandamál og að þannig hafi það ævinlega verið.  Auk þess vantar fjármagn.

Fundi slitið kl. 16:00.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum