Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. september 2013 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á aðalfundi Eyþings

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flytur ávarp á aðalfundi Eyþings, samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra 27. september 2013
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flytur ávarp á aðalfundi Eyþings, samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra 27. september 2013

Ágætu aðalfundargestir,
Kærar þakkir fyrir að bjóða mér að ávarpa ykkur. Það er ánægjulegt að vera með ykkur fulltrúum sveitarfélaga á starfssvæði Eyþings hér í dag. 

Er við ókum út Eyjafjörðinn áðan tók ég eftir því að framkvæmdir eru komnar vel á veg við Vaðlaheiðargöngin. Mér skilst að gangnamenn séu komnir um 700 metra inn í fjallið. Það er gleðilegt hvað vel gengur því ég veit hversu miklu þessu samgöngubót getur breytt fyrir fólk hér á svæðinu og einnig gert samstarf sveitarfélaga enn nánara og betra. 

Mér varð líka hugsað til annarra framkvæmda hér á svæðinu. Væntanleg uppbygging kísilvers á Bakka er önnur stórframkvæmd hér í landshlutanum sem að mínu mati á eftir að hafa mikil áhrif á uppbyggingu samfélaga hér. Þar stendur fyrir dyrum uppbygging innviða og mikilar framkvæmdir sem án efa munu hafa mikil áhrif á Húsavík og  í landshlutanum öllum. Nýju fólki og framkvæmdum fylgja alltaf ferskir straumar. 

Þessar framkvæmdir leiða hugann að þeim möguleikum sem felast í uppbyggingu atvinnulífsins og samfélaganna hér og þeirra tækifæra sem blasa við okkur og liggja í sérstöðu landsins okkar. 

Hvað ef olía og gas finnast á Drekasvæðinu og við á sama tíma reisum umskipunarhöfn á Norð-Austurlandi til að þjónusta norð-austur siglingaleiðina? Leið sem t.d. Kínverjar stefna að því að flytja 20% af öllum sínum útflutningi til Evrópu um árið 2020? Það er ljóst að slíkar stórframkvæmdir myndu hafa afgerandi breytingar í för með sér fyrir Ísland allt. 

Hér á starfssvæði ykkar er þegar farin af stað uppbygging sem tengist þessari sérstöðu. Menn hafa náð saman og stofnað klasa til að veita þjónustu tengda þróuninni á norðurslóðum. 

Í gegnum landshlutaáætlun svæðisins 2012 var fjármögnuð sjálfseignarstofnunin Norðurslóðanet sem er samstarfsvettvangur stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka á Íslandi sem vinna að málefnum norðurslóða. 

Ferðamálin hér í landshlutanum eru einnig í miklum vexti. Icelandair hefur boðið upp á tengiflug inn á svæðið fyrir farþega á leiðinni milli Evrópu og Ameríku og svo skilst mér að þess geti verið skammt að bíða að erlend flugfélög hefji beint áætlunarflug til Akureyrar. 

Ef við hugsum til allra þessara tækifæra í víðu samhengi blasir við hvað þau geta haft jákvæð áhrif á lífsgæði hér og hversu mikilvægt það er fyrir okkur að vera opin fyrir tækifærum, en á sama tíma þurfum við að vanda okkur við að samþætta ólík sjónarmið. 

Í heildina má segja að þar vegi þungt sjónarmið um nýtingu auðlinda annars vegar og verndun þeirra hins vegar. Hvernig við förum að því að skila jörðinni sem best frá okkur til komandi kynslóða.    

Byggðamál

Við lítum svo á að byggðamál séu öll þau viðfangsefni sem hafi áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, s.s. búseta, atvinna og nýsköpun. Að byggðamál snúi að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta. 

Hingað til og um all langt skeið hefur Alþingi falið ríkisstjórninni að vinna byggðaáætlun til fjögurra ára í senn. Þá síðustu 2010-2013. 

Það verður því miður að segjast að framkvæmd þeirra 32 aðgerðaliða sem fram eru settir í síðustu byggðaáætlun hefur ekki verið nægilega markviss. Úr því ætlum við okkur að bæta. 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Unnið verður að samþættingu opinberra áætlana og gerð sérstakra landsáætlana í samvinnu við sveitarfélögin. Þannig verður hlutverk sveitarstjórna og heimamanna á hverjum stað aukið við forgangsröðun í héraði.“ 

Við ætlum okkur að vinna nýja aðgerðamiðaða byggðaáætlun í samstarfi við landshlutasamtökin. 

Þar með tryggjum við samþættingu hennar við áætlanir landshlutana og aðrar áætlanir hins opinbera. 

Við ætlum okkur að fylgja vel eftir þeirri vinnu sem hafin er við að dreifstýra almannafé í gegnum áætlanir hvers landshluta. Markmiðið er að færa aukin völd og ábyrgð til landshlutanna. Þannig náum við fram betri nýtingu fjármagns, einfaldara stoðkerfi og nærum enn meira samráð innan hvers landshluta. 

Samráð byggt á svæðisbundnum áherslum og ákvarðanatöku nær heimamönnum. Ávinningur slíks vinnulags er margvíslegur, bæði fyrir sveitarfélög og ríkið.

Einföldun

Samskipti ríkis og einstakra landshluta um verkefnafé og áherslur hafa hingað til verið bundin u.þ.b. 200 samningum eða þá í nokkurs konar „skyndisamráði“ um sértækar aðgerðir. 

Með landshlutaáætlunum er gerð tilraun til þess að ráðstafa fjármagni til verkefna á grundvelli stefnumótunar og áætlanagerðar hvers landshluta þar sem landshlutasamtök sveitarfélaga eru ábyrgðaraðilar. 

Í stað fjölmargra samninga margra ráðuneyta við fjölmarga aðila í landshlutunum ætti markmiðið að vera að ein fjárveiting komi til hvers landshluta byggð á sanngjarnri skiptareglu. 

Samráðsvettvangur landshlutans, sem landshlutasamtökin halda utan um kæmi í stað hinna ýmsu stjórna og nefnda í eldra skipulagi. Hann mótar áætlun landshlutans sem forgangsraðar fjármagninu í verkefni og bætir jafnvel við verkefnin öðru fjármagni t.d. frá atvinnulífinu. 

Samningar eru svo gerðir á milli landshlutanna og fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem felur stýrineti Stjórnarráðsins að halda utan um útfærslu samningana og samskipti við landshluta. 

Fyrstu landshlutaáætlanirnar voru fyrir árið 2013 og innan þeirra liggja nú verkefni upp á 630 milljónir króna. Nú á haustdögum verður það verkefni Alþingis að fjalla um umfang verkefnisins árið 2014. 

Hugmyndin er að áætlanir landshlutanna verði nú aftur til eins árs en síðan taki við þriggja ára áætlun frá 2015-2017. 

Æskilegt væri að ný byggðaáætlun yrði stefnumarkandi fyrir þau meginmarkmið sem landshlutaáætlanirnar byggjast á og stuðla að. 

Til þess að festa þetta vinnulag í sessi þarf að meta hvort gera þurfi lagabreytingar og endurskoða og efla hlutverk Byggðastofnunar og tengja stofnunina með markvissari hætti við stýrinet ráðuneytanna. 

Eðli byggðamála er slíkt að þau koma við sögu í öllum ráðuneytum. Þess vegna er mikilvægt að Stjórnarráðið sé samhent í vinnu við málaflokkinn. Nú eru byggðamál samkvæmt forsetaúrskurði staðsett innan sjávarútvegs- og landbúnaðarhluta atvinnuvegaráðuneytisins. Ábyrgðin á utanumhaldi samhæfðrar aðkomu ráðuneyta og landshlutaáætlanirnar eru í innanríkisráðuneytinu auk þess sem ábyrgðin á vaxtasamningum er í iðnaðarráðuneytishluta atvinnuvegaráðuneytisins. Framundan er vinna við að samræma þessi mál. 

Norður-Landið 

Hér hefur fólk verið upptekið við haustverkin m.a. við að ganga til fjár. Ég veitti því athygli að hér í Grýtubakka hreppi þurfti að moka Leirdalsheiðina í síðustu viku svo gangnamenn kæmust til leita. 

Störf okkar Íslendinga eru margbreytileg og aðstæður stundum erfiðar. En iðulega tekst Íslendingum að leysa málin þegar þeir vinna saman. Ég sagði það í ræðu á fundi samtaka sveitarfélaga á Austurlandi á Eskifirði fyrir hálfum mánuði að ég sæi frekar tækifæri í samvinnu en aðskilnaði. Þar var ég að vísa í þann meinta aðskilnað sem illu heilli hefur of oft litað samskipti höfuðborgar og landsbyggðar. Okkur verður í því samhengi að bera auðna til þess að láta sameiginlega hagsmuni okkar sem Íslendinga vera grunn að samvinnu okkar. 

Undirstaðan fyrir slíkri samvinnu er að mínu viti samkennd, skilningur og umburðarlyndi. Samkennd til að átta sig á því hvernig öðrum líður, skilningur fyrir aðstæðum þeirra og umburðarlyndi svo ákvarðanir okkar hagnist sem flestum án þess að þær brjóti á öðrum. 

Nú þegar þróun síðustu ára hefur leitt okkur á þann stað að samvinna ríkis og sveitarfélaga er eitt að þeim lykilatriðum sem við þurfum að huga að til að nýta tækifærin er mikilvægt að hafa þessar grunnforsendur samvinnunnar í huga. 

Ágætu gestir,
Það er fallegur dagur í dag og framtíð þessa lands er björt. Ég veit að síðar í dag setjist þið niður og eigið umræður í nefndum um hvernig þið metið samtímann og hvernig megi vinna að því að gera framtíðina betri. Þið viljið laða að fleiri íbúa; fjölga ferðamönnum; styrkja grunnstoðir atvinnulífsins; þið viljið hafa þjónustu hins opinbera eins góða og eins aðgengilega og hægt er. Ríkisstjórnin vill vinna að þessum markmiðum með ykkur. 

Ég hef í grófum dráttum farið yfir það fyrirkomulag sem við vonum að geti nýst til að við náum árangri saman. Fyrirkomulag sem mun fela í  sér heilmikið lærdómsferli en miðar að valdeflingu og virkari samvinnu tveggja stjórnsýslustiga. 

Þetta er fyrirkomulag sem miðar að því að þið ákveðið hvernig almannafé er best varið til hinna ýmsu verkefna.
Ég veit að fjármagnið er takmarkað en það er eins með þetta verkefni eins og annað í lífinu að sé það ræktað af staðfestu og alúð yfir ákveðinn tíma þá vex það og dafnar og mun með tímanum bera ávöxt. – Að því stefnum við saman. 

Ágætir gestir, ég óska ykkur farsælla aðalfundarstarfa.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum