Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. október 2013 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 18. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn föstudaginn 18. maí 2012, kl. 9:00, í fundarsal Háskólans á Bifröst, Hverfisgötu 4-6.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Páll Þórhallsson skipaður af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu og Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) fulltrúi BHM og KÍ. Magnús Pétursson (MP), fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ) frá BSRB og Kristín Ástgeirsdóttir (KÁ) boðuðu forföll.

Nú þegar siðareglur fyrir ráðherra og starfsfólk stjórnsýslunnar hafa verið staðfestar á einungis eftir að setja almennum starfsmönnum ríkisins siðareglur til að uppfylla lagaskyldur skv. breytingum á lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Eðli málsins samkvæmt þurfa reglurnar að vera almennar og mega ekki stangast á við aðrar siðareglur, t.d. starfstétta. Samkvæmt PÞ er hlutverk samhæfingarnefndarinnar hvað varðar fræðslu og umræður það sama hvort sem um almenna starfsmenn eða starfsmenn Stjórnarráðsins er að ræða. JÓ taldi eðlilegt að vinna reglurnar samhliða einhvers konar plani um fræðslu en augljóslega þurfi peninga til verkefnisins ef fræðslan á að standa undir nafni. Fyrir fund höfðu nefndarmenn fengið tillögu að reglum frá HF sem aðallega voru fengnar úr kaflanum um góðar siðvenjur sem ákveðið var að sleppa í lokaútfærslu siðareglna Stjórnarráðsstarfsmanna. JÓ lagði fram plagg frá Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu þar sem sett eru fram fimm siðferðileg viðmið á fjármálamarkaði og velti upp hvort slík framsetning gæti verið heppileg fyrir ríkisstarfsmenn. GHÞ taldi það skynsamlega nálgun því þá væri settur fram einskonar rammi en síðan væri það hlutverk stofnana að útfæra skýrari reglur, teldu þær þörf á slíku. JÓ sagðist líta svo á að það væri í raun hlutverk samhæfingarnefndarinnar að sjá til þess að reglurnar verði ekki dautt plagg sem endar ofaní skúffu engum til gagns.

Í framhaldinu var rætt hvort betra væri að byrja með hreint borð og byrja á því að reyna að ná utan um hlutverk stofnana ríkisins. Hvað felst í hugtakinu almannaþjónusta? Og er t.d. munur á þjónustu- og eftirlitsstofnunum? Er það þjónustuhlutverkið sem á að vera miðlægt í reglum fyrir alla ríkisstarfsmenn? GHÞ spurði hvort hægt væri að byrja á því að hugsa reglurnar út frá þjónustuhlutverki og hafa viðmið fjármálafyrirtækja til hliðsjónar. HF sagðist hvergi hafa fundið siðareglur sem ættu að ná til allra ríkisstarfmanna enda væri það flókið þar sem hlutverk og störf þeirra væru svo ólík. Heilbrigðisstarfsmenn sinntu t.d. allt öðruvísi störfum en viðskiptafræðingar á sömu stofnun. JÓ nefndi sérstaklega akademíska starfsmenn háskóla og fannst óheppilegt að hafa þá undir sama hatti og aðra ríkisstarfmenn.

PÞ spurði hvort ekki væri skynsamlegast að útbúa viðmið annars vegar og leiðbeiningar um hvernig stofnanir útfæri siðareglur hins vegar og þá mismunandi eftir hlutverki stofnunar. JÓ sagði að skv. lögunum verði að setja ríkisstarfsmönnum siðareglur og hans tillaga var að fjármálaráðherra yrði sent bréf þar sem hann væri beðinn um að staðfesta siðareglur en síðan væri gerð grein fyrir því hvernig samhæfingarnefndin sér fyrir sér hlutverk sitt sem er að leiðbeina stjórnendum við að setja sér reglur sem þurfi að taka mið af starfsemi stofnunar. Nokkrar umræður urðu um þessa tillögu enda ljóst að með því að vísa því til fjármálaráðuneytisins að semja reglurnar myndi það enda á borði HF. Niðurstaðan varð að JÓ ætlar að gera tillögu að reglum til að ræða á næsta fundi en næsta skref yrði að útbúa plan varðandi samskipti við stofnanir og fræðslu fyrir stjórnarráðið.

Næsti fundur ákveðinn föstudaginn 9. júní kl. 9. Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum