Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. október 2013 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 19. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn föstudaginn 8. júní 2012, kl. 9:15, í fundarsal Háskólans á Bifröst, Hverfisgötu 4-6.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, og Kristín Ástgeirsdóttir (KÁ) skipuð af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Magnús Pétursson (MP) fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ) frá BSRB. Páll Þórhallsson og Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir boðuðu forföll.

Eins og fram kom hjá JÓ í upphafi fundar vill starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins drífa í því að útbúa siðareglur fyrir ríkisstarfsmenn en vandinn er sá að það er ekki auðvelt verk að setja reglur  sem hæfa öllum. MP sagðist ekki í vafa um að siðareglur hefðu tilgang, jafnvel þótt þær væru ekki mjög ítarlegar, en spurning hvort hlutverk samhæfingarnefndarinnar væri frekar að leiðbeina um hvernig eigi að setja reglur en að semja þær. Að sögn SÝÞ eru væntingar BSRB þær að reglurnar fylli upp í ákveðin göt í starfsmannalögunum, t.d. varðandi hegðun utan vinnu.

KÁ sagði frá því að á Jafnréttisstofu væri verið að endurskoða starfsmannastefnu og í tengslum við það hefðu menn m.a. skoðað starfsmannastefnu TR sem innihaldi leiðbeiningar sem hún myndi flokka sem siðareglur. Í framhaldinu var rætt um mun á siðareglum og háttsemisreglum en niðurstaðan var að almennar siðareglur þyrftu að vera einhvers konar rammi eða viðmið en síðan gætu stofnanir sett sér ítarlegri reglur. KÁ spurði hvort ekki væri skynsamlegt að halda fund með völdum starfsmannastjórum til að fá fleiri sjónarmið og vekja áhuga á efninu. JÓ taldi að besta leiðin til að vekja áhuga væri að halda semínör í líkingu við vinnustofurnar sem boðið var upp á fyrir starfsfólk Stjórnarráðsins. Með því væri líka verið að þjálfa fólk í því að ræða um siðferðileg álitaefni. Þá var rætt um hlutverk stjórnsýsluskólans en eðlilega er hann aðeins ætlaður þeim sem starfa í Stjórnarráðinu. Nefndin þarf að setja niður fræðsluáætlun og bjóða upp á námskeið og fyrirlestra auk nýliðafræðslu.

Í umræðum kom fram að markmiðið með almennum siðareglum væri vitundarvakning og því þyrfti að virkja stéttarfélög, trúnaðarmenn og stjórnendur. MP sagði mikilvægt að nefndin kæmi þeim skilaboðum til stjórnenda að stofnanir eigi að setja sér siðareglur þótt ekki sé verið að skikka þær til þess. Að mati JÓ þarf nefndin annars vegar að útbúa almennar reglur eða viðmið og hins vegar leiðbeiningar um hvernig skuli staðið að setningu siðareglna úti í stofnunum. HF sagði að almennu reglurnar yrðu þá að vera lágmarksviðmið sem nægðu þeim sem ekki myndu setja sér ítarlegri reglur.

Eftirfarandi verkefni ákveðin:

1)      JÓ tekur að sér að gera fyrstu drög að almennum siðareglum

2)      HF skoðar hverja væri best að boða á samráðsfund í haust

3)      PÞ, HF og JÓ gera drög að áætlun fyrir stjórnsýsluskólann, þar sem gert yrði ráð fyrir námskeiðum/vinnustofum og a.m.k. einum fyrirlestri fyrir jól og öðrum eftir jól

4)      MP kannar heppilega tímasetningu fyrir fund með Félagi forstöðumanna ríkisstofnana.

Ekki var ákveðið hvenær næsti fundur verður haldinn en það verður væntanlega eftir miðjan ágúst.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum