Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. október 2013 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 20. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn fimmtudaginn 13. september 2012, kl. 14:00, í fundarsal Háskólans á Bifröst, Hverfisgötu 4-6.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, og Páll Þórhallsson (PÞ) skipaðir af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) fulltrúi BHM og KÍ og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ) frá BSRB. Kristín Ástgeirsdóttir og Magnús Pétursson boðuðu forföll.

Fyrir fundinn sendi JÓ nefndarmönnum ný drög að almennum siðareglum. Farið var yfir einstaka liði og gerðar orðalagsbreytingar og varð niðurstaðan þessi:

1.      Starfa í þágu almennings af vandvirkni og samkvæmt bestu dómgreind.

2.      Sinna starfi sínu af alúð, trúmennsku og heiðarleika.

3.      Leita samvinnu um úrlausn mála eftir því sem kostur er.

4.      Koma fram við borgarana af háttvísi og virðingu.

5.      Stuðla að gagnsæjum starfsaðferðum og góðum samskiptum á vinnustað.

6.      Láta samstarfsfólk njóta sannmælis og sanngirni.

7.      Vinna gegn sóun og ómarkvissa meðferð fjármuna.

8.      Standa vörð um hlutleysi og faglegt sjálfstæði.

9.      Virða skoðana- og tjáningarfrelsi.

10.  Vekja athygli viðeigandi aðila á ólögmætum ákvörðunum og athöfnum.

11.  Hvetja samstarfsfólk til að leita réttar síns telji það á sér brotið.

12.  Axla ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum.

13.  Efla vitund um jafnrétti og önnur mannréttindi.

14.  Tileinka sér vinnubrögð sem skapað geta traust á starfi þeirra og stofnun.

15.  Forðast hagsmunaárekstra.

16.  Gæta þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf þeirra.

 

Nokkuð var rætt um uppröðunina og ákveðið að GHÞ tæki að sér að skoða hana betur og senda síðan nefndarmönnum tillögu í tölvupósti. Þá var sömuleiðis ákveðið að PÞ skrifaði inngang sambærilegan þeim sem fylgdi siðareglum fyrir starfsfólk Stjórnarráðsins. JÓ ætlar svo að skrifa stutta útskýringu með hverri grein. Um leið og reglurnar, ásamt inngangi og skýringum, verða tilbúnar verða þær sendar heildarsamtökum launafólks og forstöðumönnum til umsagnar. Til að athugasemdir rati örugglega inn í málaskrá þarf að senda þær til forsætisráðuneytisins.

PÞ sagði frá því að í næstu viku verður haldið nýliðanámskeið fyrir starfsfólk Stjórnarráðsins. Þátttaka virðist ætla að verða mjög góð og m.a. verður boðið upp á hópverkefni um siðferðileg álitamál. Hann hefur líka fengið beiðni frá Innanríkisráðuneytinu um kynningu á siðareglunum sem mun fara fram þann 21. september. PÞ vék af fundi um kl. 15.30.

Í lokin var rætt um hvernig bregðast eigi við erindum sem nefndin fær. JÓ sagði frá því að tveir aðilar hafi rætt við PÞ; annars vegar Ríkisendurskoðun vegna vildarpunkta og hins vegar fulltrúi í nefnd sem er að undirbúa frumvarp sem varðar tjáningarfrelsi. Einnig hefur verið haft samband við JÓ og varðar það mál meinta valdníðslu flugmálayfirvalda í garð svifflugmanna. Í umræðum kom fram að það sé alls ekki víst að ofangreind mál gætu talist brot á siðareglum en það þurfi engu að síður að skoða. Forsenda þess sé að fá formlegt erindi með gögnum. Þau yrðu síðan send nefndarmönnum og rædd á fundi í framhaldinu. Loks verði samið álit sem verði sent á viðkomandi. Nokkrar umræður spunnust um hlutverk samhæfingarnefndarinnar í framhaldinu enda er ljóst að hún á ekki að vera úrskurðaraðili sem hægt er að kæra til.

Ekki fleira rætt og fundi slitið 15.45.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum