Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. október 2013 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 22. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn föstudaginn 14. desember 2012, kl. 9:00, í Lind, fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Páll Þórhallsson og Kristín Ástgeirsdóttir, skipuð af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) fjármála- og efnahagsráðuneyti, og Magnús Pétursson (MP), fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana. Sonja Ýr Þorbergsdóttir og Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir boðuðu forföll.

Í upphafi fundar var stuttlega rætt um fjárframlög til nefndarinnar á yfirstandandi ári sem ekki hafa verið nýtt. PÞ tók að sér að kanna hvort nefndinni sé ætlað fé í fjárlögum fyrir 2013 og einnig hvort færa megi framlög þessa árs yfir á næsta almanaksár.

Fyrir fundinn sendi PÞ drög að inngangi með reglunum sem byggir á textanum sem fylgdi Stjórnarráðsreglunum. Siðareglurnar þurfa að komast í kynningu og umsagnarferli sem fyrst enda stefnt að því að reglurnar verði tilbúnar til staðfestingar fjármála- og efnahagsráðherra 1. mars. Ekki er kveðið á um að haft skuli samráð við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands en fundarmenn voru sammála um að gera það engu að síður.

KÁ sagðist sakna þess í drögum að siðareglum að þar stæði ekkert um virðingu starfsfólks fyrir stofnun og spurði hvort hægt væri að bæta því inn. Í reglum starfsmanna Stjórnarráðsins væri tekið á þessu og líka vísað til notkunar samfélagsmiðla. Eftir nokkrar umræður var ákveðið að bæta inn setningunni Gæta að orðspori vinnustaðar í samskiptum utan vinnu. JÓ ætlar að skrifa stuttan skýringartexta við þessa grein og einnig var ákveðið að taka út 5. lið í drögunum (Sinna starfi sínu af alúð, trúmennsku og heiðarleika) en bæta orðinu heiðarleika inn í fyrstu regluna. Skjal með lagfæringum verður sent nefndarmönnum síðar í dag. MP minnti á að það þyrfti að ítreka í kynningarbréfi með reglunum að þær ryðji ekki úr vegi siðareglum sem vinnustaðir eða stéttir hafa sett sér. HF mun sjá um að senda reglurnar til forstöðumanna og heildarsamtaka launafólks.

Í lok fundar sagði JÓ frá erindi frá Kristjáni Sveinbjörnssyni, formanni Flugmálafélagsins, sem hann mun svara á þá leið að erindið hafi verið rætt á fundi en heyri ekki undir nefndina.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 10:00

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum