Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. október 2013 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 23. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn miðvikudaginn 20. febrúar 2013, kl. 15, í fundarsal Háskólans á Bifröst, Hverfisgötu 4-6.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Páll Þórhallsson (PÞ) forsætisráðuneyti og Halldóra Friðjónsdóttir (HF) fjármála- og efnahagsráðuneyti og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ) fulltrúi BSRB.

Kristín Ástgeirsdóttir, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir og Magnús Pétursson boðuðu forföll. .

 

JÓ, PÞ og HF hittust á stuttum fundi þann 15. febrúar og fóru yfir innsendar athugasemdir við drög að almennum siðareglum sem snérust mest um skýringarnar en ekki reglurnar sjálfar. HF tók að sér að útbúa tillögur að svörum sem samhæfingarnefndin gæti svo farið yfir á sameiginlegum fundi.

Tillögur HF að svörum við athugasemdum voru ræddar og voru fundarmenn sammála um að það þyrfti að hnykkja á því að skýringarnar sem fylgdu væru ekki til birtingar með reglunum heldur hafi þær verið settar fram til skýringar á þeirri hugsun sem býr að baki reglunum. HF mun laga textann og senda til PÞ því svörin þarf að skrá í málaskrá forsætisráðuneytisins.

Þá var rætt hvort breyta ætti innganginum sem fylgdi reglunum og taka þar fram að samhæfingarnefndin ætlist til þess að stofnanir setji sér eigin siðareglur. Ákveðið að það orðalag væri ekki í samræmi við texta laganna og því væri heppilegra að það kæmi fram í ársskýrslu að nefndin telji eðlilegt að stofnanir setji sér siðareglur sem taki mið af eðli og starfsemi stofnunar. JÓ mun útbúa ársskýrslu líkt og í fyrra.

Í lok fundar var rætt um væntanlega ráðstefnu um siðferðileg viðmið í opinberri þjónustu. PÞ er búinn að fá Janos Bertok, sem hefur lengi starfað í þessum málaflokki hjá OECD, til að koma hingað til að halda erindi. Að auki myndi JÓ segja frá starfsemi samhæfingarnefndarinnar, PÞ fjalla um samband stjórnmálamanna og starfsfólks í stjórnsýslunni, Þórir Óskarsson, starfsmaður Ríkisendurskoðunar, hefur samþykkt að ræða um siðferðileg viðmið við opinber innkaup og væntanlega mun Róbert Spanó sem þá verðu starfandi Umboðsmaður Alþingis flytja erindi. Ákveðið að reyna að fá Ástu Bjarnadóttur, mannauðssérfræðing, til að ræða um ráðningar hjá ríkinu.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 16.20.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum