Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. október 2013 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 24. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn miðvikudaginn 29. maí 2013, kl. 14:30, í fundarsal forsætisráðuneytisins, Hverfisgötu 4-6.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Páll Þórhallsson (PÞ) forsætisráðuneyti,  Halldóra Friðjónsdóttir (HF) fjármála- og efnahagsráðuneyti og Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ), fulltrúi BHM/KÍ.

Kristín Ástgeirsdóttir, Sonja Ýr Þorbergsdóttir og Magnús Pétursson boðuðu forföll.

Nefndarmenn fengu fyrir fundinn send drög að siðareglum fyrir starfsmenn sem annast opinber innkaup sem hópur skipaður tveimur fulltrúum úr fjármála- og efnahagsráðuneyti auk fulltrúa frá Ríkiskaupum og Landspítala háskólasjúkrahúsi hefur útbúið. Nefndarmenn voru sammála um að ekki væri heppilegt að kalla þetta siðareglur og þótti „viðmið“ heppilegra orð. Fram komu nokkrar tillögur að breytingum á texta auk þess sem bætt var inn málsgrein í kafla II, 1. Almennar reglur sem hljóðar svo: Sérstaklega skal gjalda varhug við því að samið sé við fyrirtæki sem tengjast starfsmönnum stofnunar. Kafli 6 um gjafir þótti mjög ítarlegur en ekki komu fram tillögur um breytingar að svo stöddu.

PÞ upplýsti að nk. föstudag, þann 31. maí, muni Stjórnsýsluskólinn standa fyrir fræðslufundi fyrir nýja ráðherra. Þar verður m.a. sagt frá siðareglum en í lögum um Stjórnarráðið kemur fram að það sé ríkisstjórn sem samþykki siðareglur fyrir ráðherra. Ný ríkisstjórn þarf því að samþykkja siðareglur og því væri tilvalið að nota fræðslufundinn til að koma á framfæri hugmyndum um breytingar ef nefndin telur þörf á því. HF nefndi að víða í OECD ríkjum væri upplýsingar um fjármál ráðherra og þingmanna ítarlegri en hér og þá sérstaklega hvað varðar skuldir. Spurning hvort beina mætti tilmælum til ríkisstjórnar um að breyta eyðublaði fyrir fjárhagslegar upplýsingar og bæta skuldum við.

Þessu næst var fjallað um fyrstu drög að skýrslu um starfsemi nefndarinnar sem JÓ hefur tekið saman. Hann ætlar að bæta við textann og senda til nefndarmanna við fyrsta tækifæri.  Í umræðum um starfsáætlun næsta vetrar kom fram að bæta þyrfti við hana og nefna að ganga þyrfti eftir því að dómstólaráð og Alþingi settu sér siðareglur. Þá þyrfti að senda ráðuneytum bréf og kanna hvort haldið sé bókhald yfir gjafir og boðsferðir og hvort því sé fylgt eftir að ráðherra þiggi ekki greiðslur fyrir tilfallandi verkefni. Samráð við sveitarfélög var líka nefnt.

Í lokin urðu nokkrar umræður um starfsskilyrði nefndarinnar og var ákveðið að bæta kafla með þeirri yfirskrift inn í skýrsluna. Fundarmenn voru sammála um að til að tryggja að nefndin geti sinnt skyldum sínum þyrfti hún að hafa aðgang að starfsmanni og ætti 20% starfshlutfall að duga.

Um leið og Magnús Pétursson boðaði forföll á fundinn sagðist hann ætla að óska eftir lausn úr nefndinni. Þar sem skipunartími hennar rennur út þann 1. október var ákveðið að fara fram á að hann sæti út skipunartíman og mun JÓ senda honum póst þess efnis.

Ákveðið að stefna að einum fundi fyrir sumarfrí, væntanlega á bilinu 18. til 21. júní.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 16.30.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum