Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. október 2013 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 25. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn þriðjudaginn 18. júní 2013, kl. 8:00, í Hóli fundarsal fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Arnarhvoli.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Páll Þórhallsson (PÞ) og Kristín Ástgeirsdóttir, öll skipuð af forsætisráðherra,  Halldóra Friðjónsdóttir (HF) fjármála- og efnahagsráðuneyti, Magnús Pétursson, tilnefndur af Félagi forstöðumanan ríkisstofnana, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, fulltrúi BSRB og Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ), fulltrúi BHM/KÍ.

Fyrir fund hafði HF sent nefndarmönnum drög að siðareglum fyrir innkaupastarfsmenn ríkisins. Þar sem ljóst þykir að ekki verði unnið frekar í þessum reglum fyrr en að afloknu sumarleyfi var ákveðið að geyma umfjöllun um þær til haustsins.

JÓ sagði frá því að hann hefði frétt að dómstólaráð væri að vinna að siðareglum fyrir starfsfólk dómstóla. Nefndarmenn voru sammála um að æskilegt væri að nefndin fengi þær til yfirlestar og var JÓ falið að setja sig í samband við dómstólaráð.

Nokkrar umræður urðu um framtíð samhæfingarnefndarinnar en á síðasta fundi var m.a. rætt um nauðsyn þess að hafa aðgang að starfsmanni. PÞ tekur að sér að kanna möguleika hvað það varðar í forsætisráðuneytinu og þá ætlar JÓ að reyna að fá fund með nýjum forsætisráðherra. Skýrsla fyrir starfsárið 2012-2013 er nánast tilbúin en JÓ ætlar að bæta aðeins við upphaf hennar og lokaorð. Að því búnu verður skýrslan send nefndarmönnum til yfirlestrar.

Í fyrrnefndri skýrslu er talað um endurskoðun siðareglna starfsmanna Stjórnarráðsins. Reglurnar hafa aðeins verið í gildi í rúmt ár og því spurning hvort ekki sé meiri þörf á að kynna þær vel fyrir starfsfólki en að endurskoða þær svo skömmu eftir gildistöku. Reglurnar eru kynntar á sérstökum fræðsludegi fyrir nýliða í Stjórnarráðinu en þyrftu líka að vera í starfsmannahandbók hvers ráðuneytis. MP sagði að það væri mikilvægt að vita hvort og hvernig reglurnar eru notaðar og til dæmis mætti hugsa sér könnun á því meðal ráðuneytisstjóra. Reglur fyrir almenna ríkisstarfsmenn hafa ekki verið kynntar sérstaklega og HF tók að sér að ræða við Gunnar Björnsson, yfirmann Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, um hvernig best sé að standa að fræðslu um reglurnar.

Í lok fundar var rætt um gögn sem ráðherrar geta tekið með sér eða fengið afrit af þegar þeir hætta störfum. Samkvæmt PÞ eru engar reglur hvað þetta varðar og því í raun á valdi hvers og eins ráðherra að ákveða hvort hann tekur gögn með sér við starfslok.

Ákveðið að hafa næsta fund í byrjun september og verður það væntanlega síðasti fundur samhæfingarnefndarinnar eins og hún er nú skipuð þar sem skipunartíminn rennur út í haust.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum