Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. október 2013 Innviðaráðuneytið

Fjallað um samgöngumál, sóknaráætlanir og byggðamál á Fjórðungsþingi Vestfirðinga

Samgöngumál, byggðamál, sóknaráætlanir og samskipti ríkis og sveitarfélaga voru meðal umfjöllunarefna á Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var í Trékyllisvík 11. og 12. október. Fjallað var um málin í erindum og hópaumræðum.

Fjórðungsþing Vestfirðinga var haldið um síðustu helgi í Trékyllisvík.
Fjórðungsþing Vestfirðinga var haldið um síðustu helgi í Trékyllisvík.

Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur á skrifstofu mannréttinda og sveitarstjórna í innanríkisráðuneytinu, flutti fundinum kveðju Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra sem ekki átti kost á að sækja fundinn. Þá flutti ávarp Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fjallaði um samskipti ríkis og sveitarfélaga og benti hann á að meðal þingmanna væru allmargir sveitarstjórnarmenn og fyrrverandi stjórnarmenn sambandsins.Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður flutti kveðju frá þingmönnum kjördæmisins.

Skilaboð innanríkisráðherra sem Stefanía flutti á fundinn voru meðal annars þau að ráðherra legði ríka áherslu á góð samskipti og samráð við sveitarstjórnarfólk og að hún vildi eiga í beinum og milliliðalausum samtölum. Sveitarstjórnarstigið væri hitt stjórnsýslustigið í landinu og á þeirri forsendu eigi samskiptin að byggjast. Margvísleg viðfangsefni blasi við í innanríkisráðuneytinu á komandi vetri, bæði á sviði sveitarstjórnarmála og annarra málaflokka. Sumarið hefði verið notað vel til að fara yfir og undirbúa mál sem verði sett í forgang á næstu vikum og mánuðum. Meðal þingmála var nefnt að lagt yrði fram frumvarp um að lágmarksútsvar yrði afnumið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar svo og frumvarp um að heimila sveitarfélögum að lækka eða fella niður fasteignaskatt.

Fjórðungsþing Vestfirðinga var haldið um síðustu helgi í Trékyllisvík.Þóroddur Bjarnason, formaður stjórnar Byggðastofnunar og prófessor við Háskólann á Akureyri, ræddi um byggðastefnu og sóknarfæri Vestfirðinga. Kom meðal annars fram í mál hans að brýnt væri við undirbúning nýrrar byggðastefnu áranna 2014 til 2017 að huga að lögmætum byggðavinkli í öllum atriðum hennar, svo sem samgöngumálum, heilbrigðismálum, menntamálum og fjarskiptamálum. Þá ræddi hann byggðaþróun á Vestfjörðum og hvernig íbúum hefði fækkað mest í sveitum og minni þéttbýlisstöðunum, bráðavandinn að þessu leyti væri í þorpunum. Einnig sagði hann brýnt að samþætta alla áætlanagerð á vegum stjórnvalda.

Á þinginu var síðan fjallað í hópum um stefnumörkun sveitarfélaga á sviði sóknaráætlunar landshluta og lagðar fram ályktanir um ýmis málefni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum