Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. október 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samráðsvettvangur um stefnu í úrgangsstjórnun skipaður 

Úrgang má víða nota sem hráefni

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skipað samráðsvettvang um mótun stefnu í úrgangsstjórnun. Vettvangnum er ætlað að efla samstarf á sviði úrgangsstjórnunar og stuðla að virku samráði við hagsmunaaðila við mótun stefnu í úrgangsstjórnun.

 Með samramráðsvettvangnum gefst tækifæri til að ræða úrgangsstjórnun í víðu samhengi og velta upp hugmyndum og tillögum sem nýtast við frekari stefnumótun af hálfu ráðuneytisins á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að m.a. verði rætt um landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir tímabilið 2013-2024, sem gefin var út í apríl sl. og hvernig tillögum sem þar koma fram verði best fylgt eftir. Jafnframt er gert ráð fyrir að fjallað verði um önnur tilfallandi atriði í úrgangsstjórnun.

 Í landsáætluninni eru sett fram tímasett markmið sem öll miða að því að bæta nýtingu auðlinda og lágmarka þau neikvæðu áhrif sem myndun og meðhöndlun úrgangs hefur á umhverfið og heilsu manna. Í áætluninni er lögð áhersla á að ævinlega þurfi að skoða úrgangsmál í víðu samhengi, enda ræðst úrgangsmyndunin öðru fremur af neyslu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Þetta kallar á að beitt sé lífsferilshugsun í allri stefnumótun og ákvarðanatöku um úrgangsmál, jafnt á vettvangi ríkis og sveitarfélaga.      

Auk fulltrúa ráðuneytisins er samráðsvettvangurinn skipaður fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Úrvinnslusjóði, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi,

Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu, Fenúr, Umhverfisstofnun og Samtökum iðnaðarins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum