Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. október 2013 Innviðaráðuneytið

Búsetuform húsnæðissamvinnufélaga raunhæfur kostur

Eygló Harðardóttir og  David Rodgers
Eygló Harðardóttir og David Rodgers

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra flutti ávarp á afmælisráðstefnu Búseta í dag í tilefni 30 ára afmælis félagsins. Ráðherra sagði Búseta sönnun þess að samvinnuleiðin sé raunhæfur kostur og fær leið í húsnæðismálum. Í tengslum við ráðstefnuna átti hún fund með David Rodgers, alþjóðaforseti ICA housing sem var gestafyrirlesari á ráðstefnu Búseta.

Ráðherra rakti í stuttu máli hvernig aðstæður voru í húsnæðis- og efnahagsmálum þegar Búseti var stofnaður á sínum tíma. Verðbólga fór í rúm 80% milli ára 1982-´83, húsbyggjendur og íbúðakaupendur lentu í alvarlegum greiðsluerfiðleikum, nauðungarsölum fjölgaði frá degi til dags og á Alþingi komu fram tillögur um frestun nauðungaruppboða: „Það var í þessu umhverfi sem Búseti varð til og bauð landlægri séreignastefnu í húsnæðismálum Íslendinga byrginn.“

Það er ekki ofsögum sagt þótt ég haldi því fram hér að séreignastefnan í húsnæðismálum okkar hefur beðið alvarlegt skipbrot á Íslandi, ekki aðeins einu sinni heldur tvisvar. Búsetuformið hefur engu að síður verið til í þrjátíu ár og fleiri slík félög áttu eftir að bætast í hópinn eftir að Búseti reið á vaðið á sínum tíma“ sagði ráðherra í ræðu sinni.

Ráðherra sagði forsvarsmenn Búseta alltaf hafa lagt áherslu á að húsnæði samvinnufélaganna stæði öllum opið, óháð tekjuviðmiðum: „Þessi hugsun stendur í mínum huga í góðu gildi. Þetta á einfaldlega að vera valkostur sem gerir fólki mögulegt að búa í öruggu húsnæði þótt það vilji ekki leggja út í þá miklu fjárfestingu sem fylgir fasteignakaupum.“

Ráðherra ræddi um mikilvægi húsnæðisöryggis og nauðsyn raunhæfra valkosta; „...þar sem fólk getur valið á milli ólíkra leiða því sem viljinn og skynsemin býður og efni og aðstæður leyfa. Leiguhúsnæði á líka að vera raunhæfur kostur og ég hef ítrekað talað fyrir leiðum sem stuðlað geta að uppbyggingu leigumarkaðar sem stendur undir nafni. Þar tel ég að lausnin felist einnig í samvinnufélögum þar sem langtímamarkmiðin eru skýr í þágu félagsmanna og hagnaður ekki markmiðið með rekstinum. Búseti hefur raunar rennt stoðum undir þessa skoðun mína með farsælum rekstri leiguíbúða um langt skeið“ sagði ráðherra og bætti við að hún væri þaklát þeim sem standa að Búseta fyrir að hafa sýnt svo ekki verði um villst að húsnæðissamvinnufélagið sé rekstrarbært fyrirkomulag ef gildi samvinnuhugsjónarinnar eru höfð í heiðri. „Þrjátíu ára löng saga Búseta sannar þetta svo ekki verður um villst. Fortíðin talar sínu máli og gefur góð fyrirheit um framtíðina.“

Ráðherra gerði að umtalsefni öryggisíbúðir hjúkrunarheimilisins Eirar og stöðu íbúanna þar og nefndi einnig að í opinberri umfjöllun hefði ranglega verið rætt um búseturétt í því sambandi: Ég ætla ekki að greina það fyrirkomulag sem byggt var á hjá Eir og kallað íbúðaréttur – né heldur ætla ég að leggja á það dóm, enda dæmir það mál sig sjálft. Það er hins vegar mjög mikilvægt að þessi sorgarsaga kasti ekki rýrð á starfsemi húsnæðissamvinnufélaga og búseturéttarformið. Eins er mjög áríðandi að tryggja eins og nokkur kostur er að fólk gerist ekki aðilar að samningum sem varða húsnæðisöryggi þess og fjárhagslega stöðu án þess að hafa viðhlítandi tryggingar í höndunum, þekki stöðu sína og viti að hverju það gengur.

Ávarp ráðherra í heild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum