Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mikill ávinningur af kerfisbundnu vinnuverndarstarfi

Áhættumat tengt vinnuvernd. Mynd af vel Vinnueftirlitsins
Áhættumat tengt vinnuvernd. Mynd af vel Vinnueftirlitsins

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, ræddi um margvíslegan ávinning af kerfisbundnu vinnuverndarstarfi á ráðstefnu Vinnueftirlits ríkisins um stefnumótun í vinnuverd til ársins 2020 sem haldin var í tilefni evrópsku vinnuverndarvikunnar.

Ráðherra vísaði til rannsókna sem sýna að stjórnendur á vinnustöðum telja að helsti hvati vinnuverndarstarfs sé að uppfylla lagaskyldu og siðferðislegar skyldur en fjárhagslegum ávinningi hefði verið minni gaumur gefinn: „Þegar allt kemur til alls sýna nýjar alþjóðlegar rannsóknir að fjárhagslegur ávinningur af kerfisbundnu vinnuverndarstarfi er verulegur þannig að hver króna sem lögð er í fjárfestingu vegna vinnuverndar skilar sér tvöfalt og jafnvel þrefalt til baka.“

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherraVelgengni vinnustaða veltur á starfsfólkinu

Í ávarpi sínu sagði ráðherra að fjárhagslegur ávinningur af vel skipulögðu vinnuverndarstarfi ætti ekki að koma á óvart, enda velti velgengni vinnustaða á starfsfólkinu: „Fjarvistir vegna veikinda, slysa eða annars heilsutjóns eru dýrkeyptar og afleiðingarnar margvíslegar, ekki aðeins fyrir starfsfólkið sjálft og vinnustaðinn heldur fyrir samfélagið allt. Orðspor er einnig dýrkeypt en skiptir miklu máli. Að byggja upp traustan vinnustað og góða ímynd hans kostar þrotlausa vinnu og stöðuga aðgát. Að slaka á kröfum – að sofna á vaktinni getur eyðilagt traust og ímynd á augabragði. Þegar traustið bíður hnekki og ímyndin fölnar verður erfiðara um vik að ráða gott starfsfólk og viðskiptavinir eru líklegir til að leita annað eftir vörum eða þjónustu.“

Ráðherra sagði að vinnuvernd sem standi undir nafni sé víðtæk og snúi að öllum þáttum í vinnuumhverfinu hvort sem litið sé til öryggis tækja og tóla, öryggisbúnaðar, meðferðar hættulegra efna, loftgæða, og tengdra umhverfisþátta, hávaða, lýsingar, vinnutíma og vinnuálags og svo mætti áfram telja. Öllum þessum þáttum þurfi að sinna ef vel eigi að vera en séu þeir vanræktir geti mikið verið í húfi sem snýr bæði að lífi og heilsu starfsfólksins og velgengni og ímynd vinnustaðarins.

Ráðherra ræddi einnig um leiðandi hlutverk Vinnueftirlitsins í stefnumótun á sviði vinnuverndar og hve mikilvægt væri að hafa skýra sýn og stefnu. Meira þyrfti þó til, því þótt skýr sýn og stefna væri mikilvæg fælist vandasamasti hlutinn í innleiðingunni: „Í því felst að gera sýn og stefnu hluta af menningu vinnustaðarins þar sem stjórnendur og starfsmenn eru meðvitaðir um markmiðin og leiðirnar, vita hvert þeir ætla og hvers vegna og eru sammála um ávinninginn.

Metnaðarfullir stjórnendur taka vinnuverndarmál alvarlega og samþætta vinnuverndarstarf inn í allan daglegan rekstur í náinni samvinnu og samráði við starfsfólk. Við þurfum að sjá slíkan metnað alls staðar og þess vegna skiptir miklu að vel takist til við mótun og innleiðingu stefnu í vinnuvernd til næstu ára“ sagði Eygló Harðardóttir ráðherra að lokum og óskaði ráðstefnugestum velgengni í störfum sínum framundan.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum