Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. október 2013 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra afhendir þjóðargjöf til Norðmanna og sækir Norðurlandaráðsþing

Norðurlandaráð
Norðurlandaráð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mun sækja Norðurlandaráðsþing í Osló dagana 28.-30. október nk.  Á þinginu mun forsætisráðherra meðal annars taka þátt í þemaumræðu um ungt fólk á Norðurlöndunum og kynna formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2014, sem bera mun yfirskriftina „Gróska og lífskraftur“.

Í tengslum við Norðurlandaráðsþingið mun forsætisráðherra funda með leiðtogun Norðurlandanna, auk þess sem fundað verður með Eystrasaltsríkjunum, sem og formönnum heimastjórna Grænlands, Færeyja og Álandseyja og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Mun forsætisráðherra m.a. leiða umræður um málefni norðurslóða. 

Þá mun forsætisráðherra afhenda forsætisráðherra Noregs, Ernu Solberg, þjóðargjöf Íslendinga til Norðmanna í tilefni af því að árið 2005 voru 100 ár voru liðin frá endurreisn norska konungdæmisins. Fer afhendingin fram á morgun, mánudag, við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í Osló. 

Þjóðargjöfin samanstendur af fimm bindum og hefur Hið íslenzka fornritafélag haft veg og vanda af útgáfunni. Er um að ræða nýjar útgáfur norskra konungasagna, sem allar voru ritaðar á Íslandi á miðöldum. Árið 2007 kom Sverris saga út og Morkinskinna í tveimur bindum árið 2011. Í haust komu svo út tvö bindi með Hákonar sögu og Böglunga sögu. Allar eru sögurnar mikilvægar heimildir um sögu Noregs og mun forsætisráðherra afhenda bindin fimm í viðhafnarútgáfu. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum