Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. nóvember 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Ákvörðun um endurskipulagningu sjúkraflutninga endurskoðuð

Sjúkraflutningar
Sjúkraflutningar

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að endurskoða áform um  fækkun sjúkrabíla á landsbyggðinni sem taka átti gildi í byrjun næsta árs samkvæmt samningi við Rauða kross Íslands (RKÍ). Samningurinn verður endurskoðaður og mögulegar breytingar á sjúkraflutningum skoðaðar í samhengi við ákvörðun um sameiningu heilbrigðisstofnana. Þegar hefur verið fundað um málið með forsvarsmönnum RKÍ.

Þann 19. desember 2012 staðfesti Guðbjartur Hannesson, þáverandi velferðarráðherra, samning milli Sjúkratrygginga Íslands og RKÍ um sjúkraflutninga frá 1. janúar 2012  til ársloka 2015. Í kröfulýsingu velferðarráðuneytisins með samningnum var kveðið á um skipulagsbreytingar sjúkraflutninga og tilgreindur lágmarksfjöldi sjúkrabíla í hverju heilbrigðisumdæmi. Samhliða áætlun um endurnýjun sjúkrabifreiðaflotans var gert ráð fyrir fækkun sjúkrabíla úr 77 í 68 og umsjónarlæknum sjúkraflutninga í hverju heilbrigðisumdæmi falið að endurskipuleggja fyrirkomulag sjúkraflutninganna í samvinnu við RKÍ og samráðsnefnd um heilbrigðisþjónustu í umdæmum.

Endurskoðun í ljósi sameiningar heilbrigðisstofnana

Fækkun sjúkrabíla og endurskipulagningu sjúkraflutninga í heilbrigðisumdæmum átti að vera lokið í byrjun næsta árs. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að í ljósi breyttra aðstæðna, ekki síst vegna ákvörðunar um sameiningu heilbrigðisstofnana, telji hann nauðsynlegt að endurskoða þessi áform. „Sameining heilbrigðisstofnana kann að hafa áhrif á það hvernig sjúkraflutningum verður best hagað í framtíðinni svo tryggja megi öryggi fólks í einstökum byggðarlögum. Þetta verður því að skoða í samhengi og þess vegna tel ég ekki tímabært að ráðast í þessar breytingar núna nema þar sem augljóst er að fækkun bíla hafi ekki neikvæð áhrif á þjónustuna,“ segir Kristján Þór.

Á síðustu árum hefur ítrekað verið fjallað um þörf á því að endurskipuleggja sjúkraflutninga og lagðar fram tillögur þar að lútandi, meðal annars í skýrslu nefndar á vegum heilbrigðisráðherra um sjúkraflutninga sem kom út í byrjun árs 2008 og tillögum starfshóps velferðarráðherra um endurskipulagningu sjúkraflutninga frá júní 2012. Bent hefur verið á að reksturinn sé óhagkvæmur, æskilegt sé að hafa miðlægar starfsstöðvar í hverju heilbrigðisumdæmi og að auka þurfi áhrif rekstraraðila í umdæminu á skipulag sjúkraflutninganna.

Heilbrigðisráðherra segist sammála því að auka þurfi áhrif rekstraraðila á skipulagi sjúkraflutninga í heilbrigðisumdæmunum. Þá hafi líka verið bent á fleiri þætti sem skipti máli en fjöldi sjúkrabíla og staðsetning þeirra. Eitt af því sé aukin menntun sjúkraflutningafólks og eins að koma á formlegu skipulagi vettvangsliða sem geti hafið mikilvæga meðferð og tekist á við aðstæður meðan beðið er eftir sjúkraflutningi.

Öryggið skiptir öllu máli

„Fyrst og fremst verðum við að tryggja öryggi fólks í öllum byggðum landsins. Það gerum við best með því að skoða aðstæður með staðkunnugum og skipuleggja fyrirkomulag sjúkraflutninga með hliðsjón af skipulagi heilbrigðisþjónustunnar á hverjum stað í náinni samvinnu við forsvarsmenn í hverju heilbrigðisumdæmi“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum