Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. nóvember 2013 Forsætisráðuneytið

Óháð ráð gefi umsagnir um lagabreytingar sem hafa áhrif á atvinnulíf og samkeppni

Forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni. Er framlagning frumvarpsins liður í að hrinda í framkvæmd stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að hún muni beita sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi. 

Með frumvarpinu er ætlunin að draga úr reglubyrði atvinnulífsins að því marki sem almannahagsmunir og eftir atvikum aðrir lögmætir hagsmunir leyfa. Jafnframt verði samkeppni efld til að renna frekari stoðum undir kröfugt atvinnulíf sem skili þjóðinni aukinni framleiðni og hagvexti. Þetta verður gert með því að vanda sem best til undirbúnings og endurskoðunar laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem hafa áhrif á atvinnulífið og samkeppni, einkum að því er varðar samráð og mat á áhrifum. Hverju sinni verði leitað einfaldra, skilvirkra og hagkvæmra leiða til að ná fram samfélagslegum markmiðum. Til þess að ráðleggja stjórnvöldum og Alþingi á þessu sviði er lagt til að sett verði á fót óháð ráð, regluráð, sem gefi umsagnir og leiðbeini um helstu lagabreytingar og nýja löggjöf og reglur á þessu sviði, stuðli að því að auka færni starfsmanna stjórnsýslunnar, veiti aðhald, fylgist með árangri og bendi á leiðir til úrbóta. Sambærilegar nefndir hafa verið settar á fót í Bretlandi, Svíþjóð, Hollandi, Þýskalandi og Tékkneska lýðveldinu. Þá hefur norska ríkisstjórnin einnig boðað að slíkri nefnd verði komið á laggirnar. 

Samkvæmt frumvarpinu verður ráðuneytum, ríkisstofnunum og sveitarfélögum skylt að bera allar lagabreytingar og breytingar á stjórnvaldsfyrirmælum sem hafa umtalsverð áhrif á atvinnulíf eða samkeppni undir regluráð. Þingnefndum verður heimilt að gera slíkt hið sama, þ.e. varðandi þingmannafrumvörp og breytingartillögur við sjórnarfrumvörp. Umsagnir regluráðs verða samkvæmt frumvarpinu að meginstefnu birtar jafnóðum á vef ráðsins. 

Lögunum er ætlaður takmaður gildistími, þ.e. fjögur ár. Þá eru í frumvarpinu úrræði til að tryggja að fjöldi mála sem ráðið fær til umfjöllunar verði viðráðanlegur og að stærstu lagabreytingar sæti sérlega vandaðri skoðun.Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi lög nr. 27/1999 um opinberar eftirlitsreglur. 

Nánar:

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum