Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. nóvember 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Blóðbankinn 60 ára

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
Í tilefni 60 ára starfsafmælis Blóðbankans.

Góðir gestir.

Til hamingju með daginn, 60 ára starfsafmæli Blóðbankans.

Það má örugglega segja að Blóðbankinn sé sá banki hér á landi sem tvímælalaust nýtur trausts og velvildar landsmanna. Blóðbankinn gegnir enda mikilvægu samfélagslegu hlutverki sem er óumdeilt. Þeir sem leggja inn gera það ekki sín vegna heldur í trausti þess að þeir geti með því hjálpað öðrum sem á þurfa að halda. Allir vona að þeir þurfi sjálfir aldrei á úttekt að halda og því má í þessu samhengi segja að sælla er að gefa en þiggja.

Það er reyndar alls ekki sjálfgefið að Blóðbanki njóti trausts þótt aldrei verði deilt um mikilvægi rekstursins. Traustið kemur ekki af sjálfu sér í þessum reksti fremur en öðrum. Hér skipta öryggi og gæði starfsins grundvallarmáli og mikið er í húfi. Blóðbankinn hefur sinnt öryggis- og gæðamálum af kostgæfni og hann varð fyrstur heilbrigðisstofnana til þess að hljóta alþjóðlega gæðavottun.

Blóðgjöf er lífgjöf er eitt af kjörorðum Blóðbankans og bankinn er ein af grunnstoðum íslenska heilbrigðiskerfisins. Í tilkynningu frá Blóðbankanum í tilefni þessara tímamóta er bent á að mikilvægasta forsendan í starfsemi Blóðbankans er óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf íslenskra blóðgjafa. Óskað er eftir því að þjóðin og heilbrigðisyfirvöld íhugi mikilvægi sjálfboðaliðastarfs blóðgjafanna og að heilbrigðisyfirvöld leiti leiða til þess að gera starf blóðgjafanna sýnilegra og stuðli að því að fjölga blóðgjöfum með sérstöku kynningarstarfi á næstu árum.

Góðir gestir.

Það er ekki annað hægt en að taka áskorun sem þessari og ég get fullvissað ykkur um að heilbrigðisyfirvöld gera sér fulla grein fyrir því merka og mikilvæga starfi sem fram fer á vegum Blóðbankans um allt land. Ég vil því gjarna leggja mitt af mörkum sem heilbrigðisráðherra til að styðja við sjálfbæran rekstur banka allra landsmanna – bankans sem þjóðin getur ekki verið án og svo margir eiga líf sitt að launa.

Ég óska Blóðbankanum áframhaldandi velgengni í starfi og þakka starfsfólki hans og öllum þeim fjölmörgu sem styðja reglulega við starfsemi hans með því að gefa blóð fyrir ómetanlegt framlag til heilbrigðisþjónustu í landinu. – Enn og aftur, til hamingju með daginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum