Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. nóvember 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samningur um Landgræðsluskóga undirritaður

Frá undirritun samnings um Landgræðsluskóga.

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, skrifuðu í dag undir samning vegna Landgræðsluskóga. Samningurinn felur í sér áframhaldandi stuðning ríkisins við verkefni sem hefur það að markmiði að endurheimta landgæði með ræktun og gróðursetningu í rýrt og ógróið land.

Skógræktarfélag Íslands sér um stjórn verkefnisins en skógræktarfélögin sem eru starfrækt víða um land sjá um framkvæmd þess á hverjum stað, útvegun lands, friðun og vörslu, gróðursetningu og umhirðu. Gerðir eru þinglýstir samningar um öll svæði sem kveða m.a. á um að þau skuli vera opin almenningi til útivistar. Nánast öll skógræktarfélög landsins vinna nú á einn eða annan hátt að verkefninu. Þannig er það vettvangur áhugamannasamtaka í gróðurvernd um allt land.

Landgræðsluskógaverkefnið hófst árið 1990 og var hleypt af stokkunum í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands, í samvinnu skógræktarfélaganna í landinu, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og þáverandi landbúnaðarráðuneytis.

Gerðir hafa verið samningar um 130 svæði um allt land. Samkvæmt nýlegri úttekt á verkefninu þekja sýnilegir skógar nú tæpa 5000 hektara. Langflest Landgræðsluskógasvæði eru á landi í eigu sveitarfélaga, ríkis eða skógræktarfélaganna sjálfra.

Nýr samningur milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Skógræktarfélags Íslands gildir til fimm ára og felur í sér 35 milljóna króna árlegt framlag til verkefnisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum