Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. desember 2013 Forsætisráðuneytið

1. fundur stjórnarskrárnefndar

Dagskrá: 

  1. Skipun stjórnarskrárnefndar og umboð
  2. Starfsemi nefndar og aðbúnaður 
    2.1. Ritari 
    2.2. Heimasíða og gagnagrunnur 
    2.3. Fjöldi funda og fundardagar á vormisseri 
  3. Tímaáætlun nefndarinnar, meginatriði 
    3.1. Vinnulag, forgangsröðun og ferill 
    3.2. Möguleikar á flýtimeðferð vegna afmarkaðra mála
  4. Tilhögun vinnu á næstunni
  5. Önnur mál

Fundargerð 

1. fundur – haldinn mánudaginn 16. desember 2013, kl. 8.30, í Þjóðmenningarhúsinu, stofu Jóns Sigurðssonar, Reykjavík. 

Mættir voru eftirtaldir: Sigurður Líndal, formaður, Aðalheiður Ámundadóttir, Birgir Ármannsson, Freyja Haraldsdóttir, Jón Kristjánsson, Katrín Jakobsdóttir, Skúli Magnússon, Valgerður Bjarnadóttir og Valgerður Gunnarsdóttir. 

Þá sátu fundinn þau Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri löggjafarskrifstofu forsætisráðuneytis, og Sif Guðjónsdóttir, lögfræðingur á sömu skrifstofu.

Formaður setti fundinn og stýrði honum.

1. Skipun stjórnarskrárnefndar og umboð

Formaður vísaði til skipunarbréfa nefndarmanna, þar sem segir svo:

Í samkomulagi þingflokka frá 2. júlí 2013 um meðferð stjórnarskrárbreytinga 2013-2017 er gert ráð fyrir að forsætisráðherra skipi níu manna stjórnarskrárnefnd. Nefndarmenn eru skipaðir á grundvelli tilnefninga frá þeim stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi, nánar tiltekið fjórir fulltrúar tilnefndir af ríkisstjórnarflokkunum og fjórir af stjórnarandstöðu. Formaður er skipaður af forsætisráðherra án tilnefningar.

Nefndina skipa eftirtaldir:

  1. Sigurður Líndal, prófessor emeritus, formaður, skipaður án tilnefningar
  2. Aðalheiður Ámundadóttir, lögfræðingur, tilnefnd af Pírötum
  3. Birgir Ármannsson, alþingismaður, tilnefndur af Sjálfstæðisflokki
  4. Freyja Haraldsdóttir, framkvæmdastýra og varaþingmaður, tilnefnd af Bjartri framtíð
  5. Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra, tilnefndur af Framsóknarflokki
  6. Katrín Jakobsdóttir, alþingismaður, tilnefnd af Vinstrihreyfingunni - grænu framboði
  7. Skúli Magnússon, héraðsdómari, tilnefndur af Framsóknarflokki
  8. Valgerður Bjarnadóttir, alþingismaður, tilnefnd af Samfylkingu
  9. Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður, tilnefnd af Sjálfstæðisflokki

SM óskaði eftir að fært yrði til bókar að hann sé tilnefndur af Framsóknarflokki en komi þó ekki fram í nefndinni fyrir hönd flokksins eða stefnu hans.

Formaður kynnti þá fundarmenn sem ekki eru nefndarmenn:

  1. Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri löggjafarskrifstofu forsætisráðuneytis.
  2. Sif Guðjónsdóttir, lögfræðingur á sömu skrifstofu.

Í skipunarbréfum nefndarmanna segir einnig svo:

Hlutverk nefndarinnar er að leggja til breytingar á stjórnarskránni með hliðsjón af þeirri vinnu sem farið hefur fram á undanförnum árum. Samkvæmt framangreindu samkomulagi þingflokka skal nefndin hafa hliðsjón af m.a. tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar, niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og starfi þeirrar stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005-2007. Þá er ætlunin að nýlegar stjórnarskrárbreytingar í nágrannalöndum verði einnig hafðar til hliðsjónar, sem og önnur þróun í stjórnarskrármálum á alþjóðavettvangi.

Eftirtalin gögn (sérprentanir) voru til afhendingar á fundinum:

  1. Áfangaskýrsla nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, frá febrúar 2007. Formaður nefndarinnar var Jón Kristjánsson og þar átti einnig meðal annarra sæti Birgir Ármannsson. Páll Þórhallsson var ritari nefndarinnar.
  2. Skýrsla stjórnlaganefndar, frá febrúar 2011. Í stjórnlaganefnd sátu m.a. Aðalheiður Ámundadóttir og Skúli Magnússon.
  3. Frumvarp stjórnarlagaráðs frá júlí 2011, með skýringum. Í stjórnlagaráði átti sæti Freyja Haraldsdóttir og fyrir ráðið starfaði Sif Guðjónsdóttir. Páll Þórhallsson átti sæti í undirbúningsnefnd stjórnlagaþings (sem varð stjórnlagaráð).
  4. Frumvarp meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, frá nóvember 2012. Formaður nefndarinnar var Valgerður Bjarnadóttir og Birgir Ármannsson sat í minnihluta nefndarinnar. Páll Þórhallsson átti sæti í sérfræðingahópi stjórnskipunar- og eftirlitstnefndar Alþingis um tillögur stjórnlagaráðs.

Nefndarálit og breytingartillögur sem varða lið 4 verða send nefndarmönnum í kjölfar fundarins.

Formaður hélt áfram umfjöllun um skipunarbréf nefndarmanna:

Nefndin skal gera stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis grein fyrir framvindu nefndarstarfsins eftir því sem eðlilegt er. Stefnt er að því að vinnu nefndarinnar ljúki tímanlega svo að hægt sé að samþykkja frumvarp til breytinga á stjórnarskránni á yfirstandandi kjörtímabili en unnt er að áfangaskipta vinnunni eftir því sem henta þykir. Forsætisráðuneytið mun ákveða formanni þóknun í samráði við þóknananefnd en ekki er gert ráð fyrir að aðrir nefndarmenn fái þóknun fyrir störfin. Komi til þess að nefndarmenn vinni að ritun minnisblaða eða álitsgerða umfram það sem telja má til hefðbundinna nefndarstarfa verður greitt fyrir það samkvæmt reikningi og á grundvelli sérstaks samnings við forsætisráðuneytið. Nefndin ákveður verklag sitt í samráði við forsætisráðuneytið, þ.m.t. varðandi ritaraþjónustu, fundaaðstöðu, sérfræðiaðstoð og kynningarmál.

2. Starfsemi nefndar og aðbúnaður

Formaður gaf Páli Þórhallssyni orðið varðandi næstu tvo dagskrárliði:

2.1. Ritari

Af hálfu forsætisráðuneytis er lagt til að SG verði ritari nefndarinnar og PÞ bakhjarl í því efni, eftir þörfum. Jafnframt gætu fleiri starfsmenn forsætisráðuneytis veitt liðsinni.

Í fyrirliggjandi tillögu um fjárveitingu vegna starfsemi nefndarinnar er gert ráð fyrir 36 m.kr. á ári í fjögur ár (2013-2017).

Nefndarmenn gerðu ekki athugasemdir við framangreint.

2.2. Heimasíða og gagnagrunnur

PÞ lýsti því að gert sé ráð fyrir að útbúin verði aðgengileg heimasíða þar sem fjallað verði um verkefni nefndarinnar. Þar verði hægt að nálgast helstu gögn um stjórnarskrármál, svo sem eldri skýrslur, tillögur, lögskýringargögn og jafnvel fræðiskrif. Slíkur gagnagrunnur væri mjög gagnlegur fyrir störf nefndarinnar og opinbera umræðu um stjórnarskrármál.

Fram kom að dr. Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, væri að vinna tillögu að fyrirkomulagi slíkrar heimasíðu nefndarinnar.

Nefndarmenn gerðu ekki athugasemdir við framangreint.

2.3. Fjöldi funda og fundardagar á vormisseri

Ákveðið var að fundir á vormisseri verði haldnir annan hvern föstudag, kl. 9.15-11.15. Næsti fundur verður haldinn föstudaginn 17. janúar 2014. Ritari mun senda nefndarmönnum yfirlit yfir umrædda fundi.

3. Tímaáætlun nefndarinnar, meginatriði

3.1. Vinnulag, forgangsröðun og ferill

Formaður vísaði til flæðirits sem dreift hafði verið á fundinum („Sjö skrefa tímalína vegna vinnu stjórnarskrárnefndar“). Flæðiritið var unnið í forsætisráðuneyti að höfðu samráði við formann, á grundvelli hugmynda sem SM hafði komið á framfæri. SM fékk orðið og fór yfir það ferli sem þar er lýst. Flæðiritið er fylgiskjal með fundargerðinni. Meðal annars er gert ráð fyrir flokkun mála í A, B og C. Í A-flokki eru mál sem samstaða um um. Í B-flokki eru mál sem raunhæft er að afgreidd verði nú. Í C-flokki eru mál sem þurfa sérstakt ferli. Flæðiritið gerir ráð fyrir samráði við almenning, Alþingi/SEN, sérfræðinga og Stjórnarráð. Þá getur meðferð frumvarps verið á grundvelli ákvæðis um stundarsakir (þjóðaratkvæðagreiðsla) og/eða skv. 79. gr. stjórnarskrá.

Nefndarmenn ræddu það ferli sem flæðiritið gerir ráð fyrir og voru sammála um að hentugt væri að vinna út frá því, a.m.k. til að byrja með.

Rætt var almennt um atriði á borð við mikilvægi þess að greina hvað helst þarfnist lagfæringa við, hvort breyta eigi orðalagi ákvæða sem ekki er ágreiningur um, hvað geti átt heima í almennum inngangskafla stjórnarskrár og muninn á því að ræða stjórnskipun út frá annars vegar orðalagi ákvæða og hins vegar þeirri efnislegu stjórnskipun sem menn sjái fyrir sér.

Ákveðið að á næsta fundi verði nefndarmenn reiðubúnir að gera grein fyrir hugmyndum sínum um flokkun mála, sbr. flæðiritið. A-mál sem ekki reynist samstaða um færist í B-flokk og svo framvegis. Til viðbótar við framangreint byrji menn á næsta fundi að ræða nálgun nefndarinnar almennt (heildarendurskoðun eða úrbætur á afmörkuðum atriðum, uppbyggingu og kaflaskiptingu, …)

3.2. Möguleikar á flýtimeðferð vegna afmarkaðra mála

Nokkrir nefndarmenn lýstu stuttlega nokkrum hugmyndum sínum um mál sem þar gætu komið til greina.

4. Tilhögun vinnu á næstunni

Rætt um tilhögun fundargerða og birtingu þeirra en frekari umfjöllun og ákvörðun frestað til næsta fundar.

5. Önnur mál

Ekkert var rætt undir þessum lið.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.20.

SG skrifaði fundargerð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum