Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. desember 2013 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin kaupir netbirtingarrétt á Íslendingasögnum

Möðruvallabók, Brennu Njáls saga

Á fundi sínum í dag ákvað ríkisstjórn Íslands að festa kaup á netbirtingarrétti á þremur nýjum heildarútgáfum Íslendingasagna og þátta á dönsku, norsku og sænsku, sem Jóhann Sigurðsson og Saga forlag ehf. hafa haft veg og vanda að. Ákvað ríkisstjórnin að verja 10 milljónum króna til kaupanna á þessu ári, en eftirstöðvar kaupverðs verða greiddar á næstu 6-8 árum. 

Heildarþýðingar allra Íslendingasagna og þátta á dönsku, norsku og sænsku teljast vera eitt stærsta þýðingarátak í heiminum. Verkið hófst árið 2006 og lýkur á næsta ári, en þá koma sögurnar út í fimm bindum í hverju landi, samtals um 8.400 síður. Að verkefninu hafa starfað ötullega ríflega 60 fræðimenn, þýðendur og rithöfundar. 

Upphaf átaksins má rekja til ársins 2005 þegar íslenska ríkið keypti netbirtingarréttinn á ensku útgáfunni, Complete Sagas of Icelanders. Í framhaldinu var ráðist í þetta stóra sameiginlega norræna verkefni þar sem helstu fræðimenn og þýðendur á sviði norrænna fræða lögðust á eitt undir ritstjórn Gísla Sigurðssonar rannsóknarprófessors við Árnastofnun. Alþingi hefur stutt útgáfuna og hún hefur einnig fengið mikilvæga norræna styrki. Stefnt er að sameiginlegri útgáfu á vormánuðum 2014. 

Íslendingasögurnar hafa jafnan verið mikilvægasta sameiningartákn þjóðarinnar auk þess sem framtak þetta er til þess fallið að efla norræna samvinnu og samkennd, og leggja grundvöll að því að samnorrænn menningararfur og háþróuð frásagnarlist miðalda verði endurvakin í nýju og nútímalegu menningarsamhengi. Þá fellur framtakið vel að áherslum formennskuáætlunar Íslands í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2014. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum