Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. desember 2013 Forsætisráðuneytið

Áramótaávarp forsætisráðherra 2013

Forsætisráðherra flytur áramótaávarp 2013
Forsætisráðherra flytur áramótaávarp 2013

Góðir Íslendingar, gleðilega hátíð.

Í kvöld kveðjum við árið 2013, viðburðaríkt ár sem, eins og öll önnur ár, innihélt ótal tilefni bæði til að gleðjast og syrgja. Hlutföllin þar á milli eru alltaf ólík fyrir hvern og einn. En ef við lítum til heildarinnar, sameiginlegrar reynslu þjóðarinnar, var árið 2013 líklega betra en margir, jafnvel flestir, landsmenn höfðu þorað að vona. Það sem var þó öðru fremur gleðilegt við árið sem nú er að kveðja er að það veitir árinu sem við tekur gott veganesti. Árið 2013 hefur gefið okkur tilefni til að líta björtum augum fram á veginn og fagna nýju ári sem ári uppbyggingar og ómældra tækifæra.

Við síðustu áramót bentu mælingar til þess að óöryggi, og jafnvel svartsýni, væri ríkjandi. Þjóðin hafði tekist á við erfiðar aðstæður um nokkurra ára skeið en árangur erfiðisins var minni en vonir stóðu til. Óvissa um hvort eða hvenær mætti vænta viðsnúnings þjakaði marga.

Á fyrsta mánuði ársins 2013 urðu söguleg tíðindi. Litla landið okkar vann réttlátan sigur í átökum sem það hafði staðið í árum saman. Átökum þar sem andstæðingarnir voru stór erlend ríki, og jafnvel alþjóðastofnanir, en bandamenn voru fáir. Þó er rétt að minnast þess vinaþels sem Færeyingar og Pólverjar sýndu okkur strax í upphafi þrautagöngunnar.

En í byrjun ársins 2013 höfðu Íslendingar fullan sigur í deilunni um hvort almenningi bæri að ábyrgjast skuldir banka þar sem vaxtakostnaðurinn einn og sér hefði orðið meiri á hverju ári en rekstrarkostnaður Landspítalans, og í raun meira en tvöfaldur sá kostnaður því að greiða hefði þurft í erlendri mynt sem ekki var til. Ljóst er að þjóðarbúið hefði ekki staðið undir þeim greiðslum en málstaður hinnar staðföstu smáþjóðar hafði betur að lokum og fyrir vikið blasti við að allt það sem ella hefði tapast mætti nýta til að reisa við íslenskt efnahagslíf og um leið samfélagið sem svo mikið hafði mætt á.

Á næsta ári er gert ráð fyrir viðsnúningi í rekstri þjóðarbúsins. Skuldasöfnun verður stöðvuð en um leið verður meiru varið til heilbrigðismála og framlög til félagsmála verða meiri en þau hafa nokkurn tíma verið áður. Á mörgum sviðum viljum við geta gert meira, og þurfum að geta gert meira, ekki hvað síst í þeim málaflokkum sem líta má á sem fjárfestingu í framtíðinni, og nú þegar við hættum að reka ríkissjóð fyrir lánsfé skapast möguleikar á að sækja fram á næstu árum.

Síðustu mánuði ársins urðum við vör við að sú aukna verðmætasköpun, sem er forsenda velferðar til framtíðar, væri hafin. Hagvöxtur varð mun meiri en reiknað hafði verið með og líka fjárfesting í verðmætasköpun framtíðarinnar.

Með umfangsmiklum aðgerðum til að rétta hlut skuldsettra heimila verður létt á því fargi sem liggur á grunnstoð samfélagsins og hagkerfisins, fjölskyldunum í landinu. Verðtryggð húsnæðislán verða færð niður sem nemur allri þeirri óvæntu hækkun sem varð á árunum í kringum bankahrunið. Auk þess munu skattaafsláttur og önnur úrræði nýtast til að létta enn frekar á skuldunum sem haldið hafa aftur af vexti og velferð á Íslandi. 

Takist okkur að auka kaupmátt launa samhliða þessu verður staða heimilanna í landinu gjörbreytt til hins betra. Og nú sjáum við að ástæða er til að ætla að sú geti orðið raunin.

Kjarasamningar sem voru undirritaðir nú í lok ársins eru hugsaðir sem grundvöllur raunverulegra kjarabóta. Allir hljóta að vera meðvitaðir um að samningarnir nú fela ekki í sér að takmarki sé náð. Þeir marka aðeins upphaf en ekki endi, grundvöll fyrir raunverulega kaupmáttaraukningu og aukna velferð til framtíðar.

Á nýja árinu og árunum sem á eftir fylgja þurfum við að auka kaupmátt Íslendinga jafnt og þétt. Það ætlum við að gera í sameiningu. Sérstaklega þarf að bæta áþreifanlega kjör þeirra lægstlaunuðu en þau eru miklu lakari en við getum talið ásættanlegt á Íslandi. En það þarf líka að rétta hlut millitekjuhópanna sem hafa tekið á sig miklar byrðar á undanförnum árum. 

Íslendingar hafa þurft að færa margvíslegar fórnir á umliðnum árum. Landsmenn eiga þakkir skildar fyrir þá ósérhlífni sem þeir hafa sýnt á erfiðum tímum. Íslenska þjóðin á hrós skilið fyrir það hvernig hún tekst á við áföll og mótlæti. Baráttuþrek Íslendinga og óbilandi bjartsýni hefur fleytt okkur áfram að nýju.

Það þykir almennt ekki góður siður að fagna of snemma en við getum leyft okkur að fagna þeim tækifærum sem við stöndum frammi fyrir. Við eigum líka að leyfa okkur að gera okkur í hugarlund hvernig framtíðin getur orðið á Íslandi ef okkur ber gæfa til að nýta tækifærin.

Rúmlega 300 þúsund manna þjóð með þá lýðræðishefð, þekkingu, sterku innviði og ómældu auðlindir sem landið veitir á að geta byggt upp samfélag þar sem öll störf eru vel launuð og þeir sem hafa lokið starfsævinni eða þarfnast aðstoðar búa við öryggi.

Við höfum fulla ástæðu til að trúa því að hægt sé að ná þessum markmiðum og við eigum að trúa því. Trúin á betri framtíð, ásamt staðfestu og vinnusemi, er forsenda framfara.

Liðin ár hafa sýnt okkur að við Íslendingar getum náð árangri á hvaða sviði sem er.Á árinu sem nú er að ljúka höfum við séð landa okkar vinna afrek á ótal sviðum, meðal annars í íþróttum. Aníta Hinriksdóttir komst í hóp besta frjálsíþróttafólks heims, í sínum aldursflokki, og á einu og sama árinu komst íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu í úrslit Evrópumótsins og karlaliðið var nærri því að komast í úrslit heimsmeistaramótsins, nokkuð sem flestir, utan landssteinanna, höfðu talið óhugsandi. Enda vöktu þessi afrek athygli víða um heim og í mörgum erlendum fjölmiðlum veltu menn því fyrir sér hvernig svo fámenn þjóð gæti náð slíkum árangri, árangri sem áður hefði þótt óhugsandi þótt reynt yrði í hundrað ár. 

Þessi afrek, rétt eins og önnur afrek og framfaraskref Íslendinga, náðust vegna mikillar vinnu og þrautseigju. Vegna uppbyggingarstarfs og góðrar leiðsagnar kynslóðanna sem á undan komu og vegna þess að hinir ungu íþróttamenn höfðu trú á sjálfum sér og félögum sínum.

Í þessu liggur mikilvægur lærdómur fyrir þjóðina alla, sannindi sem Íslendingar hafa lengi þekkt en sakar ekki að rifja upp, sérstaklega eftir erfiða tíma. Við Íslendingar höfum ástæðu til að hafa trú á okkur og getu okkar til að ná árangri sem einstaklingar og sem samfélag. Trúin á eigin getu er raunar forsenda árangurs.

Það vissu Fjölnismenn og aðrir forsprakkar frelsisbaráttunnar. Þeir vissu að frelsi og framfarir á Íslandi væru háð því að þjóðin tryði því að hægt yrði að ná markmiðunum.

Baldvin Einarsson gaf út tímaritið Ármann á Alþingi í því skyni ,,að vekja andann í þjóðinni og fá hana til að meta sig réttilega”. Fyrr á þessu ári voru liðin 180 ár frá því að Baldvin lést sviplega en boðskapur hans á enn jafnvel við og þá.

Í fyrsta hefti Fjölnis, frá árinu 1835 var birt ritgerð eftir danska fræðimanninn Ludvig Müller, undir heitinu „Athugasemdir um Íslendinga“. Müller hafði lært íslensku og ferðast um landið og kynnst þjóðinni sem það byggði. Þótt ritgerðin hefði birst áður á prenti töldu Fjölnismenn að Íslendingum gæti þótt áhugavert að lesa hvað sagt væri um þá á í útlöndum.

Müller lýsir Íslendingum þannig að þeir líkist landinu sem þeir byggja, og standi óumbreyttir í blíðu og stríðu, eins og kletturinn, hvort sem hann er roðinn af sól eða laminn af regni. Íslendingar séu stöðugir og þolgóðir hvort sem þeir þurfi að þrauka til sjós dögum saman eða ferðast yfir fjöll í bleytu og stormi. Á sama hátt takist þeir á við hvern þann vanda sem að steðji og reyni ávallt til þrautar á meðan einhver úrræði eru.

Müller segir Íslendinga glögga og eftirtektarsama. Þeir deili tíðum hver við annan en séu fljótir að sameinast gegn utanaðkomandi ógn.

Hann segir að varla sé til annað land á hnettinum þar sem allir, jafnt fræðimenn sem vinnuhjú séu jafnfróðir, og ekki aðeins um það sem gerist í landinu heldur erlendis líka. Müller áréttar: ,,þetta er svo fágætt, og gengur svo yfir ókunnuga, sem koma til Íslands, að það er von þeim komi til hugar, þessi þjóð sé til þess kölluð, að rita sögu vorrar heimsálfu.”

Íslendingar eru sagðir afar áhugasamar um nýjungar og fræði og ekki hirðulausir um neina vísindagrein og þekking hinna fornu mála sé miklu algengari hjá Íslendingum en nokkurri annarri þjóð. Raunar séu margir bændur ekki síður vel að sér en hinir hálærðu prestar. 

Allir gangi í hin ýmsu störf og allir tali saman eins og jafningjar.

Müller minnist reyndar á nokkra hluti sem betur mættu fara hjá Íslendingum. Hann taldi nokkuð skorta á almenna siðsemi, áfengisdrykkja presta teldist minni löstur en annars staðar, söngstíll Íslendinga væri ekki skemmtilegur og auk þess skorti Íslendinga andargift í kveðskap þótt vísur þeirra væru dýrt kveðnar og af mikilli kunnáttu. 

Allt það sem talist gat neikvætt afsakaði ritstjórn Fjölnis og útskýrði í neðanmálsgreinum að um misskilning væri að ræða. Síðustu athugasemdina, um kveðskapinn, slógu Fjölnismenn út af borðinu með góðlátlegu gríni og bentu á að Müller hlyti að hafa verið að lesa Skírni.

En þrátt fyrir fyrirvara Fjölnismanna bárust lesendabréf í stríðum straumum frá Íslandi, sum með orðbragði sem ekki þótti hafandi eftir, þar sem skammast var yfir því að menn leyfðu sér að prenta annan eins óhróður um Íslendinga.

Nú sem fyrr höfum við Íslendingar ástæðu til að vera stoltir af landinu okkar og sögu þjóðarinnar. En við verðum líka alltaf að vera tilbúin til að bæta okkur og huga að því sem betur má fara svo að reynsla okkar og forfeðranna nýtist til að gera framtíðina í landinu okkar góða, enn þá betri. 

Þótt við Íslendingar séum sannarlega ekki fjölmenn þjóð, eigum við okkur glæsta sögu sem við leyfum okkur að vera stolt af. 

Þjóðmenning okkar er kunn langt út fyrir landsteinana. Hún er andlit okkar út á við. Þetta á við bæði að fornu og nýju. Þannig eru Íslendingasögur enn lesnar á ótal þjóðtungum víðs vegar um heim, en einnig metsölubækur spennusagnahöfunda samtímans. Íslenskt kvikmyndagerðarfólk hefur vakið athygli með verkum sínum og íslensk náttúra leikur aðalhlutverk í mörgum af stærstu kvikmyndum okkar daga. Tónlist íslenskra hljómsveita er leikin um allan heim. Vaxtarbroddarnir eru víða. Af þessu getum við sannarlega verið stolt og í menningunni felast mikil sóknarfæri. 

Menntamálaráðherra og ríkisstjórnin hafa að undanförnu unnið með markvissum hætti að sóknaráætlun fyrir listir, menningu og annað nýsköpunarstarf sem birtast mun á nýja árinu. Til framtíðar hafa skapandi greinar alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs, þar sem hugvit og sköpunarkraftur fara saman. 

Ég heiti á íslenska listamenn að taka höndum saman með okkur í þessu mikilvæga verkefni.

Með samvinnu getur árið 2014 markað nýtt upphaf sóknar á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.

Ávarpi í fyrsta riti Fjölnis lýkur á þessum orðum:

Óskandi væri Íslendingar færu að sjá, ... að það er aumt líf og vesælt, að sitja sinn í hverju horni, og hugsa um ekkert nema sjálfan sig, og slíta svo sundur felag sitt, og skipta sundur afli sínu í svo marga parta sem orðið getur — í stað þess að halda saman og draga allir einn taum, og hugsa fyrst og fremst um heiður og velgengni landsins, sem öllum góðum Íslendingum ætti þó að vera í fyrirrúmi.

Megi heiður og velgengni landsins vera í fyrirrúmi á nýja árinu. Á því ári verða 70 ár liðin frá stofnun lýðveldisins og 150 ár liðin frá fæðingu Einars Benediktssonar skálds.

Í hinu mikla aldamótaljóði sínu fer skáldið yfir það uppbyggingarstarf sem bíði þjóðarinnar á nýrri öld. Hvernig byggja þurfi á framtakssemi, menntun, vísindum, listum og menningu en jafnframt hversu mikilvægt sé að virða söguna og læra af henni. Svo minnir Einar á hvað skipti mestu máli, undirstöðu alls hins:

„Að elska, að finna æðanna slag, 
að æskunni í sálinni hlúa,
það bætir oss meinin, svo heimurinn hlær, 
svo höllinni bjartar skín kotungsins bær. 
Sjálft hugvitið, þekkingin hjaðnar sem blekking, 
sé hjarta ei með, sem undir slær. 
Hver þjóð, sem í gæfu og gengi vill búa, 
á guð sinn og land sitt skal trúa.“

Ég óska landsmönnum öllum farsældar og gleði á nýju ári.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum