Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. janúar 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Stefna um nýsköpun og tækni í félagsþjónustu

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað samráðshóp til að móta stefnu um framtíðarsýn og markmið stjórnvalda á sviði nýsköpunar og tækni í félagsþjónustu. Áhersla verður lögð á þróun velferðarþjónustu og lausnir sem nýtast borgurum með sérstakar þarfir.

Í skipunarbréfi ráðherra til samráðshópsins segir:

Stefnunni er ætlað að skýra framtíðarsýn og markmið íslenskra stjórnvalda er varðar nýsköpun og tækni í félagsþjónustu. Í framhaldi af gerð stefnunnar verði unnin áætlun um framkvæmd stefnunnar til ársins 2020. Við mótun stefnunnar verður leita samráðs og samvinnu við fulltrúa ríkis, sveitarfélaga, notenda og fulltrúa frá atvinnulífinu sem vinna að þróun og nýsköpun á vettvangi velferðartækni. Hugað verði sérstaklega að nýsköpun og tækni sem hjálpa til við að viðhalda eða þróa þjónustu velferðarsamfélagsins. Hér er skal horft til lausna sem nýtast borgurum með sérstakar þarfir t.d. við umönnun, verklega aðstoð, hjálpartæki, skipulag á heimilum, þjálfun, endurhæfingu, hæfingu, sérkennslu og atvinnu með stuðningi. Velferðartækni er því ekki afmörkuð við eitthvað eitt málasvið heldur snertir hún marga málaflokka, t.d. heilbrigðismál, félagsmál, menntamál og vinnumál, auk þess að hafa áhrif á samfélagið í heild sinni.

Í framhaldi verður skipuð sérstök verkefnisstjórn sem ætlað er að smíða verkáætlun um þær aðgerðir sem eru nauðsynlegar til þess að ná fram þeirri framtíðarsýn og markmiðum sem stefnan vísar til. Sú verkefnisstjórn mun síðan kynna heildstæða stefnumótun í byrjun júní 2014.

Samráðshópinn skipa

Þór G. Þórarinsson, án tilnefningar, formaður
Bryndís Snæbjörnsdóttir, tiln. af Landssamtökunum Þroskahjálp
Elvar Knútur Valsson, tiln. af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
Guðlaug Ósk Gísladóttir, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Halldór Guðmundsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Hákon Sigurhansson, tiln. af Samtökum atvinnulífins
Ragnheiður Stephensen, tiln. af Landssambandi eldri borgara
Sigrún Jóhannsdóttir, tiln. af Öryrkjabandalagi Íslands


Samráðshópurinn er skipaður af félags- og húsnæðismálaráðherra frá 10. janúar 2014.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum