Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. janúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Brussel – meira en ESB

Þórir Ibsen sendiherra í Brussel
Þórir Ibsen

Þegar Brussel ber á góma sjá flestir fyrir sér Evrópusambandið. Mikið rétt, eitt helsta  verkefni sendiráðsins í Brussel er að sinna hagsmunagæslu gagnvart ESB og á vettvangi EES- og Schengen samninganna. Um þetta má lesa í hálfsársskýrslum sendiráðsins

En við sýslum við ýmislegt annað hér i sendiráðinu, enda sinnir það fimm umdæmisríkjum; Belgíu, Hollandi, Lúxemborg, Sviss og San Marínó. Í þessum löndum búa hundruð Íslendinga, auk allra þeirra sem fara um þau árlega og eiga þar viðskipti. Með aðstoð kjörræðismanna okkar, sem fá ekki laun fyrir störf sín, tryggjum við samlöndum okkar aðstoð í neyð, aðstoðum fyrirtæki sem til okkar leita og veitum þjónustu fyrir utankjörstaðaratkvæðagreiðslu. Nú er þorrinn að ganga í garð og þá aðstoðum við Íslendingafélög með innflutninginn á þorramatnum. Vissulega furða tollyfirvöld sig stundum á hversu mikið sendiráðsstarfsmenn geta torgað af þessum undarlega mat.

Kynning á íslenskum samtímabókmenntumMenningarmálin eru einn ánægjulegasti þátturinn í starfi sendiráðsins þar sem þau draga upp jákvæða mynd af landi og þjóð og gefa okkur kærkomið tækifæri til að skapa tengsl við fólk í hinum ýmsu geirum. Því miður skortir oft fjármuni til menningarkynninga en ýmislegt má þó gera með útsjónarsemi og litlum tilkostnaði. Í mars n.k. opnum við bókmenntasýninguna "Fabulous Iceland - Portraits of Contemporary Icelandic Authors" í samvinnu við bókasafnið í Rotterdam. Um er að ræða ljósmynda- og fræðslusýningu um íslenska samtímahöfunda sem hönnuð var í tengslum við bókamessuna í Frankfurt, en þar voru íslenskar bókmenntir í forgrunni. Sýningin hefur vakið mikla athygli en við höfum m.a. sýnt hana í mörgum opinberum stofnunum hér í Brussel. Sýningin varð einnig til þess að sendiráðið tók höndum saman við menningarmiðstöðina Passa Porta og stóð fyrir upplestri Auði Övu Ólafsdóttur og Sjón á verkum sínum á Passa Porta Festival for International Literature, sem er stærsta bókmenntahátíð Belgíu. Húsfyllir var og urðu margir frá að hverfa.

Íslensk byggingarlist kynnt í BelgíuSendiráðið hefur og komið á framfæri íslenskri byggingarlist og sögu hennar. Nýlega tókum við þátt í samstarfsverkefni norrænna sendiráða og menningarstofnana í Brussel um kynningu á norrænni byggingarlist. Haldin var  norræn fyrirlestraröð í nokkrum borgum og til dæmis sóttu um 200 manns íslenska viðburðinn sem haldinn var í háskólanum í Gent.  Þar töluðu Pétur Ármannsson arkitekt, sem sagði frá sögu íslenskrar byggingarlistar á 20. öld og Sigurður Einarsson, einn af stofnendum Batterísins Arkítekta, sem sagði frá hönnun tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Í tengslum við þetta var sýnd  heimildarmynd um byggingu Hörpu eftir Margréti Jónasdóttur.

Haraldur Jónsson fremur gjörning í sendiherrabústaðnumSendiherrabústaðirnir reynast oft góður vettvangur til að koma á framfæri íslenskum listum og menningu, því þangað kemur mikill fjöldi erlendra gesta á ári hverju og margir með tengsl inn í menningar- og atvinnulíf. Í bústaðnum í Brussel eru nú til sýnis verk eftir 14 íslenska samtímalistmenn sem valin voru í samvinnu við Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar; þau Gabríelu Friðriksdóttur, Guðný Rósu Ingimarsdóttur, Harald Jónsson, Birgi Snæbjörn Birgisson, Eggert Pétursson, Gjörningaklúbbinn, Guðrúnu Kristjánsdóttur, Helga Þorgils Friðjónsson, Húbert Nóa, Ólöfu Nordal, Steingrím Eyfjörð, Svövu Björnsdóttur, Tuma Magnússon og Þór Vigfússon. Sýningin er hluti átaksverkefnis utanríkisráðuneytisins um kynningu á  íslenskri samtímamyndlist erlendis.

Þetta eru bara fáein dæmi um hvernig við í sendiráðinu komum að kynningu íslenskrar menningar og lista, sem er unnin í góðri samvinnu við íslensku kynningarmiðstöðvarnar á sviði myndlistar, hönnunar, tónlistar, bókmennta og kvikmynda. 

Þórir Ibsen er sendiherra í Brussel

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum