Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. janúar 2014 Innviðaráðuneytið

Rætt verði um aðkomu einkaaðila að uppbyggingu Keflavíkurflugvallar

Mikilvægt er að skoða vel mögulega aðkomu einkaaðila að uppbyggingu og rekstri Keflavíkurflugvallar til frambúðar en fyrir liggur að þörf er á umtalsverðum framkvæmdum við flugvöllinn á næstu árum samhliða auknum vexti í millilandaflugi. Þetta sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra í ávarpi við setningu fundar um millilandaflug og flugrekstur íslenskra flugfélaga erlendis sem haldinn var á vegum innanríkisráðuneytisins í dag.

Frá fundi innanríkisráðuneytisins um millilandaflug í dag.
Frá fundi innanríkisráðuneytisins um millilandaflug í dag.

Hanna Birna sagði að ólíkt því sem gerist í mörgum nágrannaríkjum okkar reki hið opinbera alla flugvelli hér á landi, þ.m.t. Keflavíkurflugvöll. „Okkur er öllum ljóst að með áframhaldandi vexti í millilandaflugi gerist þörf á miklum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli, þá helst við flugstöðina sjálfa en einnig öðrum innviðum flugvallarins. Okkur er á sama tíma ljóst að slíkar framkvæmdir eru kostnaðarsamar og kalla á miklar fjárfestingar,“ sagði Hanna Birna í ávarpi sínu.

„Ég tel því rétt að líkt og við höfum opnað á aðkomu einkaaðila, fjárfesta og annarra við vegaframkvæmdir – opnum við á umræðu um fjölbreyttari aðkomu að frekari uppbyggingu og rekstri flugvallarins. Það má útfæra með ýmsum leiðum en ég tel í það minnsta að við eigum að opna á málefnalega umræðu um þessi úrræði og kanna það til hlítar hvort aðrir en hið opinbera geta komið að framkvæmdum er tengjast uppbyggingu flugvalla.“

Að öðru leyti fór Hanna Birna yfir mikilvægi flugsins fyrir íslenskt samfélag, hversu þýðingarmiklu hlutverki flugið gegndi til að mynda tengingu við alþjóðasamfélagið, flutninga á fólki og vörum og þau tækifæri sem felast í auknum vexti flugsins hér á landi. Þá fór Hanna Birna yfir hlutverk hins opinbera sem fyrst og fremst snýr að eftirliti, að tryggja það að regluverkið í kringum flugið sé skýrt og skilvirkt, að tryggja gerð loftferðasamninga en síðast en ekki síst að tryggja virka samkeppni í fluginu íslenskum neytendum til hagsbóta. Þá sagði ráðherra einnig að til greina kæmi að fjalla meira um samgöngur út úr landinu og samskipti við nágrannaþjóðir við gerð stefnumótandi 12 ára samgönguáætlunar.

Þá sagði Hanna Birna einnig að flugið færi í sér mikil tækifæri fyrir Íslendinga á alþjóðavettvangi. Hún tók fram að flugfélögin hér á landi væru ekki aðeins að keppa við hvert annað heldur einnig við stærri alþjóðleg flugfélög. Þessi utan kepptu íslensk félög á þeim stóra alþjóðamarkaði sem leiguflugið væri og að fjöldi Íslendinga starfaði nú fyrir erlend flugfélög víða um heim.

„Þetta minnir okkur aðeins á það hvað heimurinn er í raun lítill og ef það er eitthvað sem gerir heiminn minni er það flugið. Hér liggja fleiri tækifæri fyrir flugheiminn á Íslandi. Við gerum ráð fyrir áframhaldandi vexti í flugi til og frá Íslandi sem mun til lengri tíma skapa fleiri störf, auka hagvöxt og tengja Ísland enn betur við umheiminn,“ sagði Hanna Birna.

„Á sama tíma sjáum við aukin tækifæri fyrir Íslendinga á alþjóðavettvangi. Fyrir þá sem ekki setja það fyrir sig að starfa erlendis eru mörg atvinnutækifæri. Alþjóðaspár gefa til kynna að á næstu árum verði skortur á flugmönnum í Mið-Austurlöndum og í Asíu, þar sem vöxtur flugheimsins er hvað hraðastur um þessar mundir, en jafnframt í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku þegar fram í sækir. Starfsemin í kringum flugnám og þjálfun flugáhafna er orðin heilmikil hér á landi og í raun mun meiri en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Það eru fjölmörg starfssvið sem koma að rekstri og umfangi flugvéla, s.s. flugmenn, flugvirkjar, flugfreyjur og flugþjónar, flugumferðarstjórar og fleiri. Allt þetta er hægt að læra að hluta eða að fullu hér á landi og í allflestum tilvikum er hægt að viðhalda þjálfun og þekkingu að miklu leyti hér heima. Aukin tæknimenntun og frekari samvinna flugheimsins og háskólasamfélagsins mun einnig fela í sér tækifæri fyrir Íslendinga til að koma að flugvélaframleiðslu eða öðrum tækniþáttum sem snúa að fluginu.“

Í lok ávarps síns sagði Hanna Birna að íslensk flugfélög gegndu mikilvægu hlutverki við það að markaðsetja Ísland á alþjóðavettvangi, hvort sem væri sem ferðamannastað eða fyrir aukið hlutverk Íslendinga í alþjóðlegu atvinnulífi.

Metár í flutningum

Hermann Guðjónsson, forstjóri Samgöngustofu, ræddi stöðu og áherslur Samgöngustofu og samstarf við flugrekendur. Hann sagði stofnunina standa á gömlum merg Flugmálastjórnar og að megin forsendur þess að Samgöngustofa gæti verið bakhjarl væru þær að heimildaveitin og eftirlit hennar standist alþjóðlegar kröfur. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, greindi frá helstu þáttum í umfangi Isavia en fyrirtækið veltir um 21 milljarði króna og starfsmenn eru 670 auk 180 hjá dótturfélögum. Björn Óli sagði síðasta ár hafa verið metár í flutningum og spár næstu 10 árin gerðu ráð fyrir áframhaldandi aukningu sem kallaði á miklar fjárfestingar í uppbyggingu.

Frá fundi um millilandaflug í dag.Þá töluðu fulltrúar flugfélaganna, þ.e. Icelandair, WOW, Bluebird Cargo, Air Atlanta, Flugfélags Íslands og Norlandair. Lýstu þeir starfsemi fyrirtækja sinna og umsvifum. Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, sagði meðal annars að vel væri staðið að gerð loftferðasamninga af hálfu stjórnvalda og hann sagði Reykjavíkurflugvöll eða flugvöll í nágrenni höfuðborgarinnar skipta innanlandsflugið öllu máli og þróun ferðaþjónustunnar miklu máli. Skúli Mogenen, forstjóri WOW, sagði lággjaldaflugfélög alls staðar hafa stækkað kökuna og að WOW hefði á síðasta ári flutt 415 þúsund farþega. Skúli Skúlason, framkvæmdastjóri Bluebird Cargo, sagði félagið með fimm flugvélar í rekstri, ein væri í verkefnum frá Keflavík en hinar fjórar erlendis. Hannes Hilmarsson, framkvæmdastjóri Air Atlanta, sem stundar einkum flug fyrir erlend flugfélög, sagði að tölur um umfang starfseminnar skráðust á flugnúmer viðskiptavina og kæmu þannig ekki fram í tölfræði hérlendis. Félagið er nú með 18 þotur í rekstri og starfsmenn voru yfir 1.100 í nóvember. Hannes sagði starfsemi Air Atlanta hafa skilað kringum 5 milljörðum króna í íslenska hagkerfið á síðasta ári. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, greindi frá millilandaflugi félagsins um Reykjavíkurflugvöll bæði til Grænlands og Færeyja og Arnar Friðriksson, sölu- og markaðsstjóri Norlandair á Akureyri, sagði frá starfseminni þar sem bæði nær til innanlandsflugs um Norðausturland og flug til Grænlands. 

Í lokin fjallaði Jens Bjarnason, forstöðumaður rekstrardeildar IATA, um alþjóða þróun frá sjónarhóli IATA. Hann ræddi meðal annars um ógnanir og tækifæri í fluginu og sagði íslenska flugrekendur betur setta en flesta aðra til að geta mætt helstu ógnunum í alþjóðaflugi.

Frá fundi um millilandaflug í dag. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum