Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. febrúar 2014 Forsætisráðuneytið

2. fundur stjórnarskrárnefndar

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Hugmyndir nefndarmanna um flokkun mála og forgangsröðun 
    2.1. Forgangsmál 
    2.2. Aðrar hugmyndir um breytingar 
    2.3. Mál sem þurfa annað/sérstakt ferli
  3. Miðlun upplýsinga um verkefni og starf nefndarinnar 
    3.1. Fundargerðir
    3.2. Heimasíða 
    3.3. Fréttatilkynning
  4. Önnur mál

Fundargerð

2. fundur – haldinn föstudaginn 17. janúar 2014, kl. 9.15, í Þjóðmenningarhúsinu, stofu Jóns Sigurðssonar, Reykjavík. 

Mættir voru eftirtaldir: Sigurður Líndal, formaður, Aðalheiður Ámundadóttir, Birgir Ármannsson, Jón Kristjánsson, Katrín Jakobsdóttir, Skúli Magnússon, Valgerður Bjarnadóttir og Valgerður Gunnarsdóttir. Freyja Haraldsdóttir hafði boðað forföll.

Þá sátu fundinn þau Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri löggjafarskrifstofu forsætisráðuneytis, og Sif Guðjónsdóttir, lögfræðingur á sömu skrifstofu.

Formaður setti fundinn og stýrði honum.

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 1. fundar, mánudaginn 16. desember 2013, var send nefndarmönnum með tölvupósti 19. desember. Engar athugasemdir komu fram og telst fundargerðin samþykkt.

2. Hugmyndir nefndarmanna um flokkun mála og forgangsröðun

2.1. Forgangsmál

Nefndarmenn ræddu dagskrárliði 2.1.-2.3. heildstætt. Með vísan til þeirrar umræðu og í þeim tilgangi að ná sem bestri sátt um forgangsröðun nefndarinnar í upphafi starfsins var samþykkt að fela formanni að leggja fram tillögu um hvaða efnisatriði verði rædd nánar á næstu fundum. Ætlunin er að þær umræður verði efniviður í fyrirhugaða grænbók og snúist því ekki um útfærslu einstakra ákvæða heldur grundvöll þeirra (stöðumat, framtíðarsýn og markmið).

Sú forgangsröðun sem að framan greinir felur á engan hátt í sér að önnur atriði muni ekki koma til umfjöllunar í grænbók, enda snýr verkefni nefndarinnar að stjórnarskránni í heild sinni. Þá er fyrirliggjandi mikil vinna sem nefndin getur nýtt sér.

2.2. Aðrar hugmyndir um breytingar

Sjá bókun undir lið 2.1.

2.3. Mál sem þurfa annað/sérstakt ferli 

Sjá bókun undir lið 2.1.

3. Miðlun upplýsinga um verkefni og starf nefndarinnar

3.1. Fundargerðir

Umfjöllun frestað til næsta fundar.

3.2. Heimasíða

Formaður gaf Páli Þórhallssyni orðið varðandi þennan dagskrárlið:

Dr. Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, hefur unnið tillögu að efnisskipan vefs þar sem fjallað verði um málefni stjórnarskrárinnar, sbr. minnisblað sem dreift var á fundinum. Tillagan gerir ráð fyrir að vefurinn stjornarskra.is vísi á nýjan vef og þar verði að finna núverandi gögn á stjornarskra.is, stjornlagarad.is sem og viðbótarefni. Á síðunni verði þannig að finna upplýsingar um starf stjórnarskrárnefndar nú, stjórnarskrána og þróun hennar, breytingartillögur sem ekki hlutu samþykki, dóma/álit sem vísi í stjórnarskrá, fræðilega umfjöllun, skýringar við einstakar greinar, stjórnskipan Íslands fyrir 1874, erlendar stjórnarskrár og fleira.

Nefndarmenn lýstu áhuga á að slíkri síðu yrði komið í gagnið sem fyrst.

3.3. Fréttatilkynning

Umfjöllun frestað til næsta fundar.

4. Önnur mál

Á fundinum fengu nefndarmenn í hendur eintök af nefndarálitum og breytingartillögum við frumvarp meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, frá nóvember 2012, þ.e. skjöl nr. 947, 948, 958, 959, 1111, 1112 og 1141, 415. mál á 141. löggjafarþingi). Sérprentun frumvarpsins í upphaflegri útgáfu var lögð fram á síðasta fundi (skjal nr. 510 í sama máli).

Næsti fundur verður haldinn föstudaginn 31. janúar, á reglulegum fundartíma og fundarstað nefndarinnar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.00.

SG skrifaði fundargerð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum