Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. febrúar 2014 Forsætisráðuneytið

3. fundur stjórnarskrárnefndar

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Umræðuefni á næstu fundum
    2.1. Minnisblað formanns
    2.2. Tilhögun við undirbúning næstu funda – sýnishorn
  3. Miðlun upplýsinga um verkefni og starf nefndarinnar
    3.1. Fundargerðir
    3.2. Heimasíða
    3.3. Erindi til nefndarinnar
  4. Önnur mál

Fundargerð

3. fundur – haldinn föstudaginn 31. janúar 2014, kl. 9.15, í Þjóðmenningarhúsinu, stofu Jóns Sigurðssonar, Reykjavík.

Mættir voru eftirtaldir: Sigurður Líndal, formaður, Aðalheiður Ámundadóttir, Birgir Ármannsson, Freyja Haraldsdóttir, Jón Kristjánsson, Katrín Jakobsdóttir, Skúli Magnússon, Valgerður Bjarnadóttir og Valgerður Gunnarsdóttir. 

Þá sat fundinn Sif Guðjónsdóttir, lögfræðingur á löggjafarskrifstofu forsætisráðuneytis og ritari nefndarinnar.

Formaður setti fundinn og stýrði honum. 

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 2. fundar, föstudaginn 17. janúar 2014, var send nefndarmönnum með tölvupósti 27. janúar. Engar athugasemdir komu fram og telst fundargerðin samþykkt.

2. Umræðuefni á næstu fundum

2.1. Minnisblað formanns 

Svohljóðandi minnisblað formanns um umræðuefni á næstu fundum stjórnarskrárnefndar var sent nefndarmönnum 27. janúar: 

Á 2. fundi stjórnarskrárnefndar var fjallað um flokkun þeirra mála sem undir nefndina heyra, nánar tiltekið í 1) Forgangsmál, 2) Aðrar hugmyndir um breytingar og 3) Mál sem þurfa sérstakt ferli. Með vísan til þeirrar umræðu og í þeim tilgangi að ná sem bestri sátt um forgangsröðun nefndarinnar í upphafi starfsins leggur formaður til að á næstu fundum nefndarinnar verði eftirfarandi atriði rædd nánar. 

   1. Þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta. 
   2. Framsal ríkisvalds í þágu alþjóðasamvinnu. 
   3. Auðlindir og umhverfisvernd. 

Þessu næst verði fjallað um embætti forseta Íslands (tiltekin atriði er það varða), kosningar og kjördæmaskipan, þing og ríkisstjórn (tiltekin atriði), dómstóla og mannréttindi, í röð sem verður ákveðin síðar, eftir atvikum með nánari afmörkun og án þess að önnur atriði séu útilokuð. 

Miðað er við að á næstu fundum muni nefndarmenn gera grein fyrir afstöðu sinni til þessara atriða, með áherslu á (frekari) afmörkun þeirra, hvort þau þurfi sérstakt ferli, stöðumat, framtíðarsýn og markmið. Umræður um nánari útfærslur tillagna og orðalag ákvæða verða hins vegar geymdar þar til síðar. 

Gert er ráð fyrir að umræðurnar skili nefndinni efni í fyrirhugaða grænbók, sem áætlað er að birt verði í vor. Tilgangur grænbókarinnar er að skapa upplýsta umræðu með þátttöku almennings, í samræmi við áherslur nefndarinnar á gagnsæi og fagmennsku. Að lokinni kynningu grænbókar og úrvinnslu athugasemda við hana hefst nánari útfærsla tillagna og samning frumvarps, síðan samráðsferli, úrvinnsla og loks endanlegur frágangur frumvarps. 

Þeim möguleika er haldið opnum að unnt verði að leggja fram frumvarp um ákveðin mál (flýtimeðferðarmál) til samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016 (samhliða forsetakosningum) en að öðru leyti er miðað við venjulegt ferli við stjórnarskrárbreytingar. Samkvæmt því miðast vinnan við að unnt verði að leggja fram frumvarp á Alþingi haustið 2016. 

Svo sem kunnugt er skal nefndin hafa hliðsjón af vinnu undanfarinna ára, m.a. tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar, niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og starfi þeirrar stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005-2007. Þá er ætlunin að nýlegar stjórnarskrárbreytingar í nágrannalöndum verði einnig hafðar til hliðsjónar, sem og önnur þróun í stjórnarskrármálum á alþjóðavettvangi.

Engar athugasemdir komu fram við minnisblað formanns en rætt um að halda þurfi til haga samspili einstakra atriða.

2.2. Tilhögun við undirbúning næstu funda – sýnishorn 

Lagt var fram sýnishorn (drög) að minnisblaði um tiltekið efnisatriði (þjóðaratkvæðagreiðslur), til grundvallar umræðu í nefndinni. Tilgangurinn var að skýra og skipuleggja hvernig undirbúa mætti fundi nefndarinnar á næstunni, þegar afmörkuð efni verða tekin til umfjöllunar. Í minnisblaðinu er í meginatriðum gert ráð fyrir sex almennum efnisþáttum: 

  1. Inngangur (stuttur, almennur).
  2. Gildandi réttur (yfirlit).
  3. Þróun erlendis (yfirlit).
  4. Helstu tillögur sem fram hafa komið (yfirlit, sbr. skipunarbréf nefndarmanna).
  5. Afstaða nefndarinnar. 
    A. Stöðumat (fræðileg/pólitísk greining á því hvort breytinga(r) er þörf)
    B. Sér nefndin fyrir sér miklar breytingar eða litlar? Breytingar í einu lagi eða áföngum? Þarf sérstakt ferli?
    C. Framtíðarsýn og markmið við endurskoðun.
    D. Helstu leiðir/áherslur að mati nefndarinnar og áhrif þeirra:Umræðupunktar fyrir viðkomandi málefni. 

  6. Helstu heimildir og ítarefni.

Talið var heppilegt að skipuleggja umfjöllun nefndarinnar almennt út frá þessum atriðum og að kaflar í fyrirhugaðri grænbók/áfangaskýrslu taki þannig á sig mynd eftir því sem henni vindur fram. Rætt var um að þar sem vinnan á þessu stigi miðast við áfanga en ekki endanlega niðurstöðu sé t.d. hægt að setja fram (mismunandi eða valkvæðar) hugmyndir/möguleika og/eða vekja á því athygli að tiltekið mál verði ekki rætt í einangrun og þarfnist umræðu. Ekki þurfi að fastákveða hvaða leið nefnd/nefndarmaður ætlar að fara. 

Undir dagskrárliðnum „4. Önnur mál“ (sjá síðar í þessari fundargerð) var rætt efnislega um þjóðaratkvæðagreiðslur á þeim grunni sem hér hefur verið lýst, sbr. framangreint sýnishorn (drög) að minnisblaði um það efni.

3. Miðlun upplýsinga um verkefni og starf nefndarinnar

3.1. Fundargerðir

Talið heppilegt að í fundargerðum sé almennt fjallað um meginatriði umræðna, ákvarðanir og  niðurstöður, auk þeirra bókana sem nefndarmenn óska eftir sérstaklega. Fundargerðir verða birtar á heimasíðu nefndarinnar, sem er í undirbúningi á vegum forsætisráðuneytis. 

3.2. Heimasíða

Áfram hefur verið unnið að undirbúningi heimasíðu og er miðað við að þeirri vinnu ljúki í vor. Nefndarmenn lögðu áherslu á nýtingu þess efnis sem þegar liggur fyrir frá vinnu undanfarinna ára, einkum  á stjornarskra.is, stjornlagarad.is og althingi.is. 

Katrín Jakobsdóttir vék af fundi kl. 10.00.

3.3. Erindi til nefndarinnar

Nefndinni hafa borist tvö erindi og voru þau lögð fram á fundinum:

  1. Sigurður Bárðarson, 23.1.2014: Tillaga að ákvæði um framkomu við aðrar þjóðir.
  2. Haukur Arnþórsson, 24.1.2014: Áhrif netsins á lýðræði. Beiðni um að koma á fund nefndarinnar.

Nefndin fagnar því að fá viðbrögð og eftir atvikum skrifleg erindi, sem nefndarmenn munu kynna sér eftir föngum, en hefur ekki rúm til að funda með utanaðkomandi aðilum nema sérstaklega standi á. 

Gert er ráð fyrir að fyrirhuguð grænbók/áfangaskýrsla verði skýr grundvöllur fyrir skoðanaskipti um verkefni nefndarinnar. Fram að þeim tíma geta menn haft samband við nefndina í gegnum heimasíðu og forsætisráðuneyti. Nefndin telur æskilegt að erindi til nefndarinnar verði birt á heimasíðu.  

4. Önnur mál

Athygli nefndarmanna var vakin á því að dagana 2. og 3. maí næstkomandi verður haldið hér á landi norrænt málþing um stjórnskipunarrétt, undir yfirskriftinni „Valddreifing og breytingar á stjórnarskrá“. Málþingið er haldið í samvinnu Lagastofnunar Háskóla Íslands og fleiri aðila. 

Ákveðið var að ræða efnislega um þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta, með áherslu á eftirfarandi atriði (sbr. minnisblað sem lagt var fram undir dagskrárlið 2.2. hér að framan):

  1. Afstaða nefndarinnar. 
    A. Stöðumat (fræðileg/pólitísk greining því hvort breyting(a) er þörf)
    B. Sér nefndin fyrir sér miklar breytingar eða litlar? Breytingar í einu lagi eða áföngum? Þarf sérstakt ferli?
    C. Framtíðarsýn og markmið við endurskoðun.
    D. Helstu leiðir/áherslur að mati nefndarinnar og áhrif þeirra:
         1. Í hvaða tilfellum á að gera ráð fyrir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu?
             a) Við stjórnarskrárbreytingar, sbr. núverandi bráðabirgðaákvæði
             b) Við lagasetningu eða til afturköllunar laga (einhver málefni þó undanskilin?)
             c) Vegna mikilvægra alþjóðasamninga
             d) Vegna tiltekinna mikilvægra mála þar sem Alþingi hefur tekið ákvörðum með lagasetningu, d
                 breytingar á kirkjuskipan, sbr. 2. mgr. 79. gr. stjskr. 
         2. Hver á að geta framkallað þjóðaratkvæðagreiðslu skv. (1)?
            a) Forseti lýðveldisins, sbr. 26. gr., breytingar á útfærslu?
            b) Tiltekinn hluti þingmanna
            c) Tiltekinn hluti kjósenda 
            d) Blanda af ofangreindu, t.d. þurfi atbeina bæði hluta kjósenda og forseta 
         3. Eiga að vera einhver skilyrði um lágmarksþátttöku eða lágmarksatkvæðavægi?
         4. Á að gera ráð fyrir eins konar eftirliti dómstóla með því að ekki séu borin upp mál í þjóðaratkvæðagreiðslu
             sem stangast á við stjórnarskrá?
         5. Eiga að vera nánari ákvæði í stjórnarskrá um tímafresti, útfærslu þjóðaratkvæðagreiðslunnar eða
             söfnun undirskrifta?
        6. Á að gera ráð fyrir svokölluðu þjóðarfrumkvæði? 

Ákveðið var að fela formanni að stýra frekari vinnslu á minnisblaði um þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta, í samræmi við það sem fram kom í umræðum. Skilað verður drögum að uppfærðu minnisblaði og nefndarmenn munu geta brugðist við því.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.10. 

SG skrifaði fundargerð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum