Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. febrúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Minningum komið í skjól

Axel Nikulásson í Mongólíu
Axel Nikulásson - Mongolia

Á síðustu mánuðum hefur það gerst nokkrum sinnum að fólk hefur haft samband við sendiráðið vegna látinna feðra sinna sem eiga það sameiginlegt að hafa verið í herliði Breta á Íslandi á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Þessi kynslóð manna er óðum að hverfa á braut og eftirlifandi afkomendur gert að ráðstafa munum sem tilheyrðu þeim. Einn viðmælenda minna orðaði það svo að hann væri að „koma minningu um föður sinn í skjól".

Roskin systkini af landsbyggðinni litu t.a.m. við í sendiráðinu einn daginn til að athuga hvort áhugi væri á að taka við bókum um íslenska náttúru sem faðir þeirra hafði eignast á Íslandi og haldið upp á – þó ekki hefði hann lesið íslensku. Við tókum vel á móti þeim og fengum nokkru síðar bækur í pósti sem komið var í hendur bókasafni á Íslandi til varðveislu.

Eldri maður var að ganga frá búi föður síns sem nýlega hafði fallið frá og fann kassa með munum sem tengdust herþjónustu hans. Þar var fjöldi ljósmynda sem teknar voru á Íslandi og í Mið-Austurlöndum þar sem faðir hans starfaði síðari ár heimsstyrjarldarinnar. Medalíur og athyglisverð plögg um veruna á Íslandi voru þar á meðal. Maðurinn spurði hvort einhver á Íslandi hefði hugsanlega áhuga á að fá þessa muni en faðir hans hefði alltaf talað vel um dvöl sína á Íslandi og kynni sín af fólki þar. Við öllum þessum gögnum var tekið og þau framsend Stríðsárasafninu á Reyðarfirði sem mun annast þau vel.

Loks er vert að segja frá konu sem hringdi nokkrum sinnum í sendiráðið til að spyrjast fyrir um ýmis kennileiti á Íslandi og gönguleiðir, veðurfar og aðbúnað. Það var ekki fyrr en í þriðja símtali að mig minnir sem hún sagði mér að hún hefði nýlega fylgt móður sinni til grafar og fundið í fórum hennar skókassa með bréfum, póstkortum, dagbók og landakortum með merktum gönguleiðum um Ísland. Þetta voru munir sem faðir hennar átti en hann lést ungur maður stuttu eftir stríð og móðir hennar varðveitti kassann í hálfa öld.

Bréfin voru bæði frá föður hennar til fjölskyldu og vina í Bretlandi en einnig var að finna kort sem fóru á milli mannsins og íslenskra vina. Dagbókin segir líka frá skemmtilegu fólki og fallegum gönguleiðum um Vestfirði og hún lét sig dreyma um að ganga í fótspor föður síns. Hún velti einnig fyrir sér hvers vegna móðir hennar hefði varðveitt þessa hluti svona lengi og taldi að það hefði verið af virðingu fyrir því hversu vænt föður hennar þótti um veru sína á Íslandi og því fólki sem hann kynntist þar. Hún hét því ennfremur að láta mig vita ef af ferðinni yrði.

Samskipti við þetta fólk eru mjög gefandi og það skín alls staðar í gegn að vera feðranna á Íslandi var þeim kær og minningarnar mjög góðar. Enginn þessarra manna heimsótti Íslands eftir að stríðinu lauk enda annar tími en nú og ferðalög til útlanda nær óþekkt fyrir aðra en sterkefnað fólk. Auk þess að bera Íslandi vel söguna eftir að heim var komið, áttu þessir menn það sameiginlegt að taka með sér íslenskar lopapeysur og þóttu þær mikið gersemi. Í köldum húsum Bretlandseyja var lopapeysan verðmæt eign og sagði ein konan mér að faðir hennar hefði helst kosið að klæðast lopapeysunni daglega og ekki fengist úr henni fyrr en hún var við það að detta í sundur. Í margþvældri umræðu um svokallaða „Íslandsvini”, finnst mér rétt að halda til haga minningunni um þessa menn.

Axel Nikulásson sendiráðunautur í London

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum