Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. febrúar 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Framhaldssamningur um Skóla á grænni grein undirritaður

Grænfáninn.
Grænfáni blaktir við hlið íslenska fánans.

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar hafa undirritað þriggja ára samning um áframhaldandi stuðning ríkisins við Skóla á grænni grein, eða Grænfánaverkefnið svokallaða.

Um er að ræða framhald af fyrri samningi sem undirritaður var 2011 og rann sitt skeið um síðustu áramót.

Skólar á grænni grein (Eco-Schools) er alþjóðlegt verkefni sem Landvernd hefur rekið hér á landi frá árinu 2001. Þátttökuskólar vinna að því að geta flaggað alþjóðlegu viðurkenningunni Grænfánanum sem veitt er fyrir vel unnið störf að umhverfismálum. Þurfa skólarnir að hafa stigið sjö skilgreind skref í umhverfisstjórnun til að geta sótt um Grænfánann sem er  veittur til tveggja ára í senn. Sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi og sýna framfarir í umhverfismálum.

Alls eru 217 skólar á öllum skólastigum þátttakendur í Grænfánaverkefninu. Tæplega 37% leikskóla og ríflega helmingur grunnskóla, tæp 30% framhaldsskóla og 3 af 7 háskólum á landinu öllu eru Skólar á grænni grein. Rúm 70% þeirra skóla sem taka þátt í verkefninu hafa fengið afhentan Grænfánann einu sinni eða oftar og þar með hlotið hina alþjóðlegu viðurkenningu.

Samningurinn felur í sér árlegt 12 milljóna króna framlag ríkisins til verkefnisins til ársloka 2016. Til viðbótar kemur þátttökugjald þeirra skóla sem skráðir eru til þátttöku í verkefninu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum