Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. febrúar 2014 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra á Viðskiptaþingi

Fundarstjóri, formaður Viðskiptaráðs og góðir gestir.
Undanfarin ár varð hlé á þeirri hefð að forsætisráðherra ávarpi Viðskiptaþing. Það var miður því Viðskiptaþing er breiður vettvangur forsvarsmanna stórra sem smárra vinnustaða í landinu, fyrirtækja sem mynda kjölfestuna í hagsæld Íslendinga. Það er mér því kærkomið á fyrsta ári sem forsætisráðherra að fá tækifæri til að ræða við ykkur um landsins gagn og nauðsynjar.

Ég er þó ekki hingað kominn til að segja ykkur bara það sem þið viljið heyra, og sjálfsagt er það misjafnt í svona stórum hópi hvað menn vilja heyra, eða við skulum vona það.

Ég er kominn til að ræða hreinskilnislega um hvernig staða hinna ýmsu mála, sem þið í viðskiptalífinu látið ykkur miklu varða, horfir við mér og stjórnvöldum. Eitthvað mun ég vísa til þess sem á undan er gengið en fyrst og fremst fara yfir hvers sé að vænta á næstu misserum og hvernig þið sem starfið í viðskiptum á Íslandi og stjórnvöld geta í sameiningu náð sem mestum árangri á komandi árum.

Við viljum vinna með ykkur og við viljum að þið náið árangri vegna þess að samfélagið í heild nær ekki árangri nema atvinnulífið dafni. Staða ríkissjóðs, kjör launþega, heilbrigðisþjónusta eða önnur lífsins gæði batna ekki nema atvinnulífið fái tækifæri til að skapa aukin verðmæti og búi við aðstæður sem stuðla að slíkri verðmætasköpun.

Við viljum greiða götu ykkar því að hagsmunir okkar fara saman. Öflugt atvinnulíf, framtakssemi, fjárfesting, nýsköpun og önnur verðmætasköpun eru forsenda velferðar á Íslandi eins og annars staðar.

Ég er bjartsýnn, ég er mjög bjartsýnn á framtíð Íslands.

Ég veit að undanfarin ár hafa verið fólki í atvinnurekstri erfið. Menn létu ýmsilegt yfir sig ganga og reyndu að þreyja Þorrann, þótt stundum væri það gert ómögulegt. En eftir margra ára þrautagöngu virðast menn nú vera að öðlast trú á framtíðina og fjárfesting er að taka rækilega við sér. Skyndileg hagvaxtaraukning og framkvæmdir um allt land bera vott um það. Það er líka full ástæða til að hefja sóknina að nýju.

En þótt atvinnurekendur og annað framtaksamt fólk sé að hefjast handa við endurreisnina verða stjórnvöld þó að halda áfram að bæta umgjörð og aðstæður atvinnulífs á Íslandi eigi þessi kraftur og sá ávöxtur sem hann getur gefið að skila sér til fulls.

Samtök atvinnurekenda á Íslandi, sem félagsmenn halda gangandi með frjálsum framlögum, hafa heilmikla burði til að leita hugmynda um nýtingu tækifæra og lausna á því hvernig ryðja megi burt hindrunum, vinna að rannsóknum og hvers konar framfaramálum í þágu atvinnulífsins. Slík vinna getur nýst velviljuðum stjórnvöldum ákaflega vel. Þess vegna er gagnlegt fyrir forsvarsmenn atvinnurekenda að nálgast stjórnvöld á uppbyggilegan hátt.

Það veldur því dálitlum áhyggjum að það virðist verða vart löngunar til að fá útrás vegna gremju síðustu ára, ára þegar margir atvinnurekendur höfðu á orði að fjandskapur við atvinnulífið væri slíkur að menn lifðu í ótta og legðu ekki í að tjá sig um stefnu stjórnvalda. 

Eftir þolinmæði síðasta kjörtímabils er eins og sumir af forvígismönnum atvinnurekenda telji sig þurfa að bæta fyrir tapaðan tíma. Dæmi eru um að þeir telji best að gera það með því að skipa sér á bekk með pólitískum krossförum úr háskólasamfélaginu eða líkja eftir upphrópanaorðræðu internetsins.

Forsvarsmenn í samtökum atvinnurekenda þurfa að varast að verða eins og ferðalangurinn í sögunni um tjakkinn.
Þið þekkið flest þessa sögu. Fyrst villtist ferðalangurinn af leið, svo sprakk dekk á bílnum, eitt af hjólum atvinnulífsins og bíllinn lenti útí skurði. Þá hófst mikil þrautaganga, ganga sem stóð heilt kjörtímabil, leitin að tjakknum. Á göngunni meðfram vegkantinum fékk ferðalangurinn enga hjálp en ótal skvettur úr drullupollum. 

Það þykknaði stöðugt í mannum þannig að þegar hann komst loks hrakinn, þreyttur og blautur, að upplýstum sveitabæ, til bónda sem átti tjakk og dráttarvél og reyndar kaffi og pönnukökur í eldhúsinu, þá var ferðalangurinn búinn að sannfæra sjálfan sig um að allir væru á móti sér og hreytti því í bóndann að hann gæti bara átt þennan tjakk og sína aumu dráttarvél.

Ég veit að menn töldu rétt að sýna þolinmæði á síðasta kjörtímabili og þorðu jafnvel ekki að gagnrýna stjórnvöld af ótta við að lenda á svörtum lista, en það gagnar ekki að fá útrás fyrir það núna þegar losnar um og komin er ríkisstjórn sem skilur þarfir atvinnulífs og hefur sýnt að hún er tilbúin til að taka slagi og fá yfir sig nokkrar gusur til að rétta stöðu atvinnulífsins.Við erum samherjar ykkar, vegna þess að við vitum að velferð samfélagsins alls er háð því að atvinnulífinu vegni vel.

Nýverið benti ég á þá staðreynd að þótt það væri nauðsynlegt að efla bæði innlenda og erlenda fjárfestingu, enda væri hvor tveggja nauðsynleg, hefði innlend fjárfesting ákveðna kosti umfram þá erlendu, þ.e.a.s. að erlend fjárfesting leiddi á endanum til meira útstreymis fjármagns en sú innlenda og nú þyrftum við á því að halda að bæta greiðslujöfnuð landsins. Því mætti ekki vanrækja innlenda fjárfestingu.

Þetta reyndist ofvaxið skilningi nokkurra netbúa og álitsgjafa sömu tegundar eða að minnsta kosti töldu þeir rétt að snúa út úr öllu saman. Það var svosem ekkert óvænt við það.

En svo tók forstöðumaður á skrifstofum Samtaka atvinnulífsins þessa vitleysu upp á fræðslufundi um erlenda fjárfestingu og taldi að ríkisstjórnin, og þá sérstaklega forsætisráðherra, væri andsnúinn erlendri fjárfestingu. Svo var bollalagt um að þetta hræddi burt erlenda fjárfesta og væri til marks um að Íslendingar væru logandi hræddir við útlendinga en þó einkum erlenda fjárfesta.

Þetta voru skilaboðin af fundi Samtaka atvinnulífsins til umheimsins þegar ég var nýkominn af ráðstefnu sem haldin var í Bretlandi til að reyna að fá erlenda fjárfesta til landsins, en ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafa notað hvert tækifæri til að kynna landið sem fjárfestingarkost.

Allt var þetta auðvitað tóm vitleysa. Það að benda á mikilvægi þess að bæta viðskiptajöfnuð landsins skaðar ekki orðspor landsins. Það að halda því ranglega fram að stjórnvöld á Íslandi séu fjandsamleg erlendum fjárfestingum er hins vegar mjög skaðlegt.

Þess vegna legg ég til að forsvarsmenn atvinnurekenda nýti það fjármagn og bolmagn sem þeir hafa til að leggja fram hugmyndir og uppbyggilegar ábendingar og vinna með stjórnvöldum. Hinn kosturinn er sá að spara félagsmönnum samtakanna framlögin og setja á fót bloggsíðu.

Ég rifja þetta upp því að umræðuefnið hér í dag er spurningin um hvort Ísland sé nægilega opið fyrir alþjóðlegum viðskiptum og hvernig efla megi alþjóðageirann á Íslandi.

Augljóslega vantar mikið þar upp á og ekki þarf að eyða löngum tíma í að fara yfir að ýmsar breytingar hafa orðið á undanförnum árum sem standa alþjóðlegum viðskiptum á Íslandi fyrir þrifum. Það góða er þó að þessu má breyta til hins betra og sú vinna er í fullum gangi.

Ríkisstjórnin vinnur að því að gera Ísland sem best í stakk búið til að vera öflugur þátttakandi í alþjóðaviðskiptum og búa fyrirtækjum sem besta starfsaðstöðu á Íslandi, en þau markmið fara augljóslega saman.

Sú vinna hófst raunar þegar á fyrsta ríkisstjórnarfundi þar sem sett var af stað vinna við að einfalda regluverk atvinnulífsins og létta á þeirri byrði sem óhófleg skriffinnska og eftirlit eru orðin. Farið verður í gegnum allt núgildandi regluverk en jafnframt gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að íþyngjandi og skaðlegar reglur og lög haldi áfram að bætast við.

Þar höfum við notið góðs af reynslu stjórnvalda í öðrum löndum og erum m.a. að koma á svo kölluðu regluráði í samráði við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja að ný löggjöf innleiði hvata en ekki hindranir.

Stjórnvöld vinna að því að liðka fyrir fjárfestingu með öllum tiltækum ráðum, bæði innlendri og erlendri. Mörg stór og vænleg erlend fjárfestingaverkefni hafa verið í undirbúningi að undanförnu og aðkoma stjórnvalda hefur miðað að því að skapa þær aðstæður að sem flest slík verkefni verði að veruleika.

Erlend fjárfesting skapar virðisauka, störf, skatttekjur og svo framvegis rétt eins og innlend fjárfesting, en það á erlend lántaka reyndar að gera líka.

Á þessu var þó veigamikil undantekning á undanförnum árum, þar sem uppi voru áform um að Íslendingar tækju lán, í erlendri mynt, upp á nokkur hundruð milljarða króna og annað eins í vöxtum án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Í því máli varð ég fyrir vonbrigðum með samtök atvinnurekenda.

Samfélagið hefði ekki staðið undir þeim kröfum sem hver forsprakkinn á eftir öðrum taldi að ætti bara að klára - þá myndu hjólin fara að snúast. Þar var ekki hugað að undirliggjandi tölum eða staðreyndum eins og þeirri að menn kaupa sér ekki betra lánstraust með því að taka á sig enn meiri skuldir, meiri skuldir heldur en hægt er að standa undir.

Það er mikilvægt að fara ekki fram af meira kappi en forsjá og muna að reikna dæmið til enda fyrir fyrirtækin og fyrir samfélagið. Fyrirtækin eru hluti af samfélaginu og njóta góðs af því þegar því vegnar vel, rétt eins og samfélagið nýtur góðs af því þegar fyrirtækjunum vegnar vel.

Þess vegna verða forystumenn samtaka atvinnurekenda líka að huga að samfélagslegri ábyrgð sinni. Ekki bara vegna þess að það er rétt heldur líka vegna þess að það er efnahagslega mikilvægt, hagsmunirnir fara saman. 
Það var ekki ábyrgt gagnvart samfélaginu að berjast fyrir því að skattgreiðendur tækju á sig hundruða milljarða kröfur bara til að losna við vesen. Vesenið af því að láta undan slíku hefði orðið miklu meira á endanum. Það hefði kallað á langvarandi samdrátt og lífskjararýrnun og ekki hefði atvinnulífið hagnast á því.

Á sama hátt er mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf að gjaldeyrishöftin verði ekki afnumin nema að skilyrði séu til þess. Þar skiptir uppgjörið á slitabúum gömlu bankanna höfuðmáli. Á fimm árum hefur ekki tekist að klára nauðasamninga á þann hátt að það réttlæti afléttingu hafta. 

Til þess að hægt sé að veita þeim aðilum sem óska eftir því undanþágur, þarf að liggja fyrir lausn sem rúmast vel innan greiðslujöfnuðar Íslands. Mikilvægt er að undirstrika að hér er ekki um samningsefni að ræða. Annað hvort er þetta skilyrði uppfyllt eða ekki.

Það kemur ekki til greina af hálfu stjórnvalda að íslenskur almenningur, og íslenskt atvinnulíf, taki á sig auknar byrðar til að leysa einn hóp úr höftum á meðan restin er skilin eftir með enn stærri vanda. Lausn þarf því að vera til þess fallin að leyfa almenna afléttingu fjármagnshaftanna.

Að undanförnu hefur orðið vart tilrauna til að setja af stað umræðu sem virðist til þess ætluð að þrýsta á að stjórnvöld veiti kröfuhöfum föllnu bankanna sérlausnir. Slíkar tilraunir munu ekki bera árangur. Og það er mikilvægt að íslenskir atvinnurekendur láti ekki þessa tilburði villa sér sýn.

Hagsmunirnir sem eru undir í skuldaskilum bankanna og aflandskrónum eru gríðarlegir. Við Íslendingar höfum kynnst því vel á síðustu árum hversu mikið var til í þeirri staðhæfingu Ottós von Bismarck að þjóðir ættu ekki vini, aðeins hagsmuni. Óhætt er að fullyrða að sú lýsing á enn frekar við um vogunarsjóði heldur en þjóðir. 

Okkur hefur tekist að verja hagsmuni þjóðarinnar þrátt fyrir ágengni og ósvífni marga ríkja, ríkjasambanda og alþjóðastofnana og við munum halda því áfram. Það er skýrt að afnám hafta má ekki stofna í hættu efnahagslegum stöðugleika eða þeim félagslega styrk samfélags okkar sem byggður hefur verið upp á lýðveldistímanum.
Um stöðu þessara mála vil ég að öðru leyti ekki segja meira á þessari stundu en að greining á efnahagsstöðu þjóðarbúsins og mögulegum leiðum til afnáms gjaldeyrishafta með hliðsjón af greiðslujöfnuði er komin vel á veg. Svo það sé á hreinu þá mun ríkisstjórnin ekki undir nokkrum kringumstæðum fórna langtímahagsmunum komandi kynslóða við skuldaskil fallinna banka. Því getið þið treyst.

Höftin hjálpa okkur auðvitað ekki við að byggja upp góðan grunn að alþjóðageira. En hafa verður í huga að afnám hafta tryggir ekki skilvirkt og hagkvæmt aðgengi nýsköpunar og smærri og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni. Því fer fjarri. Erfiðleikar slíkra fyrirtækja við fjármögnun, sérstaklega á jaðarsvæðum innan Evrópusambandsins, eru nú álitnitnir stórskaðlegir í hagkerfum þessara landa.

Þrátt fyrir höftin eru heilmikil sóknarfæri á Íslandi fyrir bæði innlend og erlend fyrirtæki. Það skortir ekki fjármagn í landinu. Hins vegar skortir aðgengi að lánsfé á eðlilegum kjörum.

Það er orðið afar erfitt að fá lánsfé í bönkum út á góðar hugmyndir. Fjármagn er ekki veitt nema gegn verðmætum veðum og þá á háum vöxtum. Utan höfuðborgarinnar, þar sem veðhæfi fasteigna er lakara, stendur þetta fjölmörgum vænlegum verkefnum fyrir þrifum, meðal annars á sviði útflutnings og ferðaþjónustu.

Vextir þurfa að lækka og fjármálastofnanir verða að þora að lána út á fleira en steinsteypu. Þær þurfa líka að búa við hvetjandi regluverk.

Lífeyrissjóðirnir þurfa líka að fara að láta verulega til sín taka á sviði nýsköpunar. Löggjöfin sem lífeyrissjóðir starfa eftir þarf að breytast svo að þeir geti tekið virkari þátt í að búa til þau auknu verðmæti sem mun þurfa til að standa undir lífeyri framtíðarinnar. Þess vegna þurfa lífeyrissjóðirnir að taka aukinn þátt í að skapa ný störf og ný verðmæti. Ef menn trúa því raunverulega að fjármagn sem rennur til nýsköpunar skili sér margfalt til baka, eins og flestir hér telja væntanlega að sé raunin, þá hljótum við líka að trúa því að fjárfesting lífeyrissjóða í nýsköpun, meðal annars með lánveitingum, skili þeim verulegum ávinningi. Þótt eitthvað tapist þá verði heildaráhrifin jákvæð.

Öðru máli gegnir um yfirráð lífeyrissjóða yfir atvinnulífi í landinu. Lífeyrissjóðir eru stórir hluthafar í flestum skráðum félögum og margir hafa af því áhyggjur að atvinnulíf landsmanna sé að stórum hluta komið undir stjórn fólks sem ekki á beinna hagsmuna að gæta.

Á meðan lífeyrissjóðir búa við gjaldeyrishöft þarf ekki að koma á óvart að þeir séu fyrirferðamiklir á íslenskum hlutabréfamarkaði. Ég hef á hinn bóginn efasemdir um ágæti þess þegar hópur lífeyrissjóða stofnar sérstakt fyrirtæki til að taka stórar stöður í öðrum fyrirtækjum. 

Forsvarsmenn atvinnulífsins sem jafnframt ráða stjórnum lífeyrissjóða hljóta að spyrja sig hvort sú gerð af kapítalisma sé það sem best henti til að byggja upp framsækið atvinnulíf?

Í framhaldi af hruni fjármálakerfisins átti sér stað gríðarleg eignatilfærsla á Íslandi. Fjölmargir atvinnurekendur sem lagt höfðu hart að sér í áraraðir urðu að sjá á eftir fyrirtækjum sínum í hendur banka, lífeyrissjóða eða fjárfestingafélaga þessara aðila. Það er talsvert áhyggjuefni að með þessari þróun hefur þróttur verið dreginn úr höndum frumkvöðla og dugmikilla einstaklinga sem áður voru uppistaðan í stétt atvinnurekenda.

Stór fyrirtæki undir stjórn hámenntaðra sérfræðinga eru nauðsynleg hverju nútíma þjóðfélagi en gleymum samt ekki að flest voru þessi fyrirtæki stofnuð og byggð upp fyrir frumkvæði lítilla atvinnurekenda. Það vill því miður gleymast að undirstaða heilbrigðs atvinnulífs er að til sé fólk sem er tilbúið að leggja á sig óendanlega vinnu til að sjá drauminn um eigið fyrirtæki rætast. 

Iðnaðarmaðurinn í Hafnarfirði, hárgreiðslukonan á Egilsstöðum, veitingamaðurinn á Akureyri, bóndinn í Fljótshlíðinni, útgerðarmaðurinn á Suðurnesjum, verktakinn á Ísafirði, verslunareigandinn í Reykjavík, fólkið sem sofnar með málefni fyrirtækisins á heilanum og vaknar með þá hugsun eina að láta reksturinn ganga. 
Þetta er fólkið sem byggði upp íslenskt atvinnulíf, framtak og dugnaður þessa fólks varð sú uppspretta fjármagns sem lagt hefur grundvöll að mörgum þeim félögum sem nú drífa áfram atvinnulíf landsins.
Eins og ég hef rakið er samfélagsleg ábyrgð atvinnulífsins mikilvæg og hagkvæm og nauðsynlegt að stjórnvöld skapi aðstæður sem virkja drifkraft atvinnurekenda. En það er líka mikilvægt að ólíkar atvinnugreinar séu ábyrgar hver gagnvart annarri og gleymi sér ekki í tilraunum til að auka til muna skammtímaávinning einnar greinar á kostnað annarrar, eða samfélagsins í heild.

Við viljum hag íslenskrar verslunar og þjónustu sem mestan en það sama hlýtur að eiga við um framleiðendur. „Veljum íslenskt“ segja Samtök iðnaðarins og ég get svo sannarlega tekið undir það. Samtök verslunar og þjónustu fara reglulega í átak til að hvetja fólk til að versla í íslenskum búðum en ekki erlendum, „Það borgar sig að versla á Íslandi“ hét það síðast og ekkert nema gott um það að segja.

En það skýtur óneitanlega skökku við þegar sömu aðilar ráðast reglulega í herferð gegn innlendum framleiðendum, einkum matvælaframleiðendum, fyrir að vinna að því sama, þ.e.a.s. eflingu innlendrar framleiðslu. Þetta er að verða að árvissum viðburði með sömu aðalleikurum í hvert sinn. Tilgangurinn er að auka hlutdeild erlendrar framleiðslu á kostnað innlendrar þrátt fyrir að álagning á erlend matvæli sé tvöfalt meiri en á þau innlendu.

Það er hætta á að það líti út eins og tvískinnungsháttur ef samtök leggjast gegn því að fólk geti pantað póstsendingar frá útlöndum fyrir allt að 2000 kr. án þess að greiða aðflutningsgjöld en berjast á sama tíma með öllum tiltækum ráðum gegn því að íslenskir bændur njóti sömu heimamarkaðsverndar og í viðskiptalöndum okkar.

Svo eru það heimilin. Það má ekki gleyma því að þótt afkoma heimilanna sé háð því að atvinnulífinu vegni vel þá er atvinnulífið líka háð því að heimilunum vegni vel.

Athygli þjóðmálaumræðunnar hefur að undanförnu beinst að höfuðstólslækkun húsnæðislána. Sú aðgerð er vissulega óhefðbundin þó ekki séum við ein um að grípa til aðgerða því stjórnvöld og seðlabankar fjölmargra ríkja beittu sér fyrir óhefðbundnum aðgerðum í kjölfar fjármálakreppunnar til að draga úr hættu á langvarandi stöðnun. 
Nýleg skýrsla ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um tekjudreifingaráhrif aðgerða stærstu seðlabanka heimsins í kreppunni á helstu hópa samfélagsins setur þetta í áhugavert samhengi.

Stýrivextir seðlabanka Bandaríkjanna, Evrópu og Bretlands lækkuðu úr 4-6% árið 2008 í 0-1% frá kreppunni og fram á þennan dag auk margvíslegra annarra aðgerða til að spýta fé inn í hagkerfið. Þessar aðgerðir juku landsframleiðslu um 1-3% og minnkuðu atvinnuleysi um eitt prósentustig. Ríkissjóðir þessara landa græddu á aðgerðum seðlabankanna vegna lægri vaxta sem aðgerðunum fylgdu en áhrifin á heimilin birtust með mismunandi hætti eftir aldri og skuldsetningu. Almennt hagnaðist yngra og skuldsettara fólk vegna lægri vaxta á húsnæðislánum en eldra fólk og fjármagnseigendur tapaði af vöxtum sem það ella hefði fengið.

Seðlabanki Íslands birti í morgun greiningu sína á áhrifum skuldaleiðréttingarinnar. Það er út af fyrir sig áhugaverð forgangsröðun að Seðlabankinn skuli leggja mikla vinnu í slíka greiningu óumbeðinn, á meðan ríkisstjórn Íslands bíður enn eftir greiningu á greiðslujöfnuði Íslands sem óskað var eftir fyrir nokkru síðan.

Enn áhugaverðara er að sjá að einar helstu áhyggjur Seðlabankans snúa að því að leiðréttingin muni virkja aukið peningamagn í umferð á næstu fjórum árum. Ekki er þó minnst á að afnámsferli Seðlabankans hefur virkjað meira en tvöfalda þá upphæð af nýju peningamagni með sama hætti án þess að Seðlabankinn hafi séð ástæðu til að fjalla um áhrif þeirra aðgerða á sama hátt.

Afnám verðtryggingar er annað mál sem verið hefur fyrirferðarmikið í umræðunni hér á landi. Engum dylst að hér á landi virkar peningastefnan ekki sem skyldi sem m.a. má rekja til eðli verðtryggðra lána og miðlun peningastefnunnar á verðtryggða húsnæðisvexti heimila kemur í besta falli fram á löngum tíma. 

Greiðslubyrði á mánuði hefur verið heimilum tamara tæki við stærstu ákvarðanir um fjárfestingar en vextir. Þessu þarf að breyta og afnám þess verðtryggingarkerfis sem við höfum búið við er mikilvægt. Uppbygging húsnæðiskerfisins og endurskipulagning á tilhögun íbúðalána eru einnig brýn verkefni ríkisstjórnarinnar í því skyni að skapa heilbrigðara umhverfi heimila og fjármálamarkaðar.

Á síðasta kjörtímabili dró ég ekki dul á þá skoðun mína að ríkisstjórnin sem þá sat færi rangt að við endurreisn landsins. Ég var af ýmsum sakaður um að setja fram óhefðbundnar hugmyndir sem ekki ættu stoð í raunveruleikanum. Hugmyndir um 20% niðurfærslu skulda voru afgreiddar sem töfrabrögð þar sem draga ætti kanínur upp úr hatti.

Forystumaður í samtökum atvinnulífsins um árabil, Víglundur Þorsteinsson, hefur háð langa og þrautseiga baráttu til að fá afhent gögn frá tíma fyrri ríkisstjórnar og nú hafa verið gerðar opinberar fundargerðir nefndar um endurreisn bankakerfisins. Fundargerðirnar sýna, eins og Viðskiptablaðið hefur bent á, að hugmyndir um 20% niðurfærslu voru meira en raunhæfar, þær áttu fullan rétt á sér.

Ég er enn þeirrar skoðunar að í niðursveiflu eigi ríkisvaldið að hvetja en ekki letja. Ég er enn þeirrar skoðunar að það skili ekki árangri að að skattleggja sig út úr samdrætti og kreppu. Og ég er enn þeirrar skoðunar að á síðasta kjörtímabili hafi hin ýmsu samtök atvinnulífsins ekki verið nægilega kröftug í andstöðu við þær breytingar sem gerðar voru eða reynt var að gera til hins verra. Nú vona ég að við getum á næstu árum náð saman um aðgerðir til að koma hagkerfinu aftur á gott skrið.

Sóknarfærin fyrir okkur sem þjóð eru mýmörg. Hljóðlát bylting er að eiga sér stað í virðisaukandi vinnslu sjávarafurða, tækifæri til aukinnar arðsemi í raforkuframleiðslu eru til staðar, uppbygging ferðaþjónustu hefur verið án hliðstæðu og fjölmörg íslensk fyrirtæki í alþjóðaviðskiptum hafa staðið sig afburðavel við erfiðar aðstæður. Þá eru sóknarfæri fólgin í ónógri framleiðni fyrirtækja sem framleiða fyrir innlendan markað og skorti á hagræðingu hjá hinu opinbera. Tækifærin felast í að gera hlutina betur og bæta þannig lífskjör.

Olíu- og gasleit og hugsanleg vinnsla á Drekasvæðinu auk leitar og vinnslu við Grænland mun kalla á mikla þjónustu og starfsemi á hafi úti, starfsemi sem byggir á hálauanstörfum og sérþekkingu á fjölmörgum sviðum. Ætlar íslenskt atvinnulíf að vera ráðandi á þessu sviði hér á okkar heimasvæði eða ætlum við að láta öðrum þjóðum það eftir?
Í Tyrklandi er dugmikill íslenskur athafnamaður að láta smíða skip til að þjónusta olíuiðnað á hafi úti. Skipið verður að öllum líkindum skráð í Noregi og mun því sigla undir norskum fána. Mér skilst að ástæðan sé fyrst og fremst sú að skráning skipa í Noregi er hagstæðari en hér á landi. Færeyingar hafa náð góðum árangri í að fá erlend skipafélög til að skrá skip sín í Færeyjum og alls munu um 200 skip sem sigla um heimsins höf vera skráð í Færeyjum. Þetta er ágætt dæmi um að ef við sem þjóð ætlum að nýta tækifæri okkar verðum við að vinna saman að því að verða samkeppnisfær. Eða eins og Míkhael Gorbatsjev sagði: „Lífið refsar þeim sem koma of seint.“

Starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja gæti vissulega verið betra. Og það mun batna, jafnt og þétt næstu misserin og árin. En það breytir ekki því að sum fyrirtæki munu sjá sér hag í því að flytja sig um set og fara þangað sem ívilnanirnar eru mestar, eða færa sig nær markaðstorgum heimsins. Það er reyndar reynsla fjölmargra aðildarríkja ESB að þau hafa séð á eftir nýsköpunarfyrirtækjum, m.a. á sviði tölvutækni, til Bretlands og Sviss, og er þó hvorugt landið með evruna.

Ísland er ekki á leið í Evrópusambandið. Í landinu er ríkisstjórn sem er einhuga um að hag landsins sé best borgið utan sambandsins, eins og fjölmörg dæmi undanfarinna ára sanna. Umræðan um Evrópusambandið og Evrópusambandsaðild hefur hins vegar verið nokkuð sérkennileg á Íslandi undanfarin ár, svo ekki sé meira sagt. 
Hér hefur orðið lífsseig sú sérstæða hugmynd að hægt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að kanna hvað er í boði. Breytir þá engu hversu oft og afgerandi Evrópusambandið sjálft reynir að leiðrétta þetta og benda á að ljóst sé hvað er í boði og það sem er í boði sé ekki umsemjanlegt.

Varla dettur íslenskum atvinnurekendum það til hugar að það sé æskileg eða yfir höfuð framkvæmanleg utanríkisstefna fyrir Ísland að ríkisstjórn sem er alfarið andvíg aðild að ESB standi í viðræðum við sambandið með það að markmiði að koma landinu þar inn? 

Undirriti jafnvel samning um aðild Íslands að ESB við hátíðlega athöfn í Brussel og láti klingja í kampavínsglösunum, en lýsi því svo strax yfir að þau ætli að berjast gegn því sem þau voru að undirrita? Varla dettur fólki í hug að ábyrg ríkisstjórn myndi fara með land sitt í slíka vegferð?

Myndi stjórn í hlutafélagi ganga frá samningi um samruna við annað fyrirtæki vitandi það að meirihluti hluthafa væri andvígur samrunanum, og ekki aðeins það heldur væri öll stjórnin, hver einasti stjórnarmaður í fyrirtækinu, andvígur samrunanum. 

En ætlaði samt að verja einhverjum árum í að gera ráðstafanir til að undirbúa samrunanann, miða öll störf fyrirtækisins við þann undirbúning, já og undirrita svo samkomulag um samruna með fyrirvara um samþykki hluthafafundar, til þess eins að geta svo sagt: við teljum samninginn sem við vorum að undirrita ekki fyrirtækinu í hag, og að mjög óráðlegt væri að staðfesta hann.

Í samskiptum Íslands og ESB er ekki einu sinni um samruna að ræða heldur beiðni umsóknarríkis um innlimun.
Við munum áfram eiga gott samstarf við nágranna okkar í Evrópu og efla það víðtæka samstarf sem við eigum við Evrópuþjóðir. Um leið verður haldið áfram að auka viðskipti við lönd um allan heim og hefja sókn á nýja markaði, m.a. á grundvelli fríverslunarsamninga.

Fríverslunarsamningur við Kína hefur vakið mikla athygli. Kínverjar gerðu fríverslunarsamning við Íslendinga, fyrsta Evrópuþjóða. Þjóðir um allan heim hafa áhuga á Íslandi og líta á Ísland sem land tækifæra. Við eigum að nýta þau tækifæri og eiga viðskipti og uppbyggileg samskipti, bæði við þjóðir í Evrópu og um allan heim.

Í yfirskrift þessa fundar er spurt upp á ensku hvort Ísland sé ,,open for business”. Svarið er: „Yes, Iceland is open for business, but the store is not for sale.“

Þakka ykkur aftur fyrir aftur fyrir boðið og gangi ykkur sem best á alþjóðavettvangi og hér heima, í landi tækifæranna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum