Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. febrúar 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra við undirritun nýtingaráætlunar Arnarfjarðar

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp við undirritun nýtingaráætlunar Arnarfjarðar sem fram fór á Bíldudal 27. febrúar 2014.

Ágætu fundargestir


Það er mér einstakur heiður og sönn ánægja að fá að ýta úr vör þessum viðburði sem til er efnt í þeim tilgangi að undirrita nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð. Það er jafnframt ánægjulegt að sjá þann góða og breiða hóp gesta sem hér er mættur sem er til marks um það víðtæka samráð og samstarf sem liggur að baki „Nýtingaráætlun Arnarfjarðar“. Nýtingaráætlunin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og er hugsuð sem yfirlýsing hlutaðeigandi sveitarfélaga um hvernig þau vilja að strandsvæði fjarðarins séu nýtt á sjálfbæran hátt til hagsmuna fyrir samfélagið og er það vel.Afurðir hafsins hafa frá fyrstu tíð verið mikilvægar fyrir lífsviðurværi þjóðarinnar. Strandjarðir, þar sem aðstaða var góð til lendingar og stutt var á miðin, voru eftirsóttar á öldum áður. Slíkar jarðir bjuggu jafnframt yfir margvíslegum hlunnindum og gat aðgengi að slíkum hlunnindum riðið baggamuninn á milli feigs og ófeigs, þegar þröngt var í búi. Til marks um hlunnindi Reykhóla í Reykhólasveit er eftirfarandi vísa eftir Eirík Sveinsson og er hún frá miðri nítjándu öld:

“Söl, hrognkelsi, kræklingur
hvönn, egg, reyr, dúnn, melur
kál, ber, lundi, kolviður.
Kofa , rjúpa, selur”.
                     Eiríkur Sveinsson 1855 


Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að þessi vísa var ort en sjávarafurðir eru þjóðinni ennþá afar mikilvægar og eiga stóran þátt í þeirri velsæld sem varð til á Íslandi á 20. öldinni. Fiskveiðar er ein af grunnstoðum þjóðarbúsins og er útflutningur sjávarafurða ein verðmætasta útflutningsgreinin. Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa auk þess leitt til ýmis konar tækniþróunar og þekkingarsköpunar í atvinnugreininni sem er vaxandi þáttur í útflutningi og verðmætasköpun. 

En umfang atvinnustarfsemi á strandsvæðum hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Fjölbreytni athafna og eftirspurn eftir athafnasvæðum hefur aukist og má í því samhengi nefna aukna ásókn í fiskeldi,  aukin umsvif í ferðaþjónustu,  kræklingarækt og kalkþörunganám.  Þá er stöðug þróun í starfsemi sem sækir í að nýta haf- og strandsvæði. 

Sem dæmi eru þegar hafnar prófanir á sjávarfallavirkjunum hér við land og ekki ólíklegt að sókn verði í slíka orkuvinnslu. Vindmillur sem hafa verið reistar í tilraunaskyni á jöðrum hálendisins eru að gefa góða raun.  Frekari þróun vindorkuvera er því í sjónmáli og ekki ólíklegt að staðsetning á strandsvæðum komi til álita líkt og raunin er í nágrannalöndum okkar. Við þurfum að vera viðbúin aukinni eftirspurn eftir hafsvæðum og nýjum möguleikum til verðmætasköpunar.

Með aukinni ásókn í strandsvæði eykst hættan á hagsmunaárekstrum og að vistkerfið skaðist ef ekki er gætt fyllstu varúðar.  Ef auðlindir haf- og strandsvæða eiga áfram að geta stuðlað að velsæld og verðmætasköpun verður að tryggja að vistkerfi hafsins skaðist ekki. Því heilbrigt vistkerfi er grundvöllur þess að vistkerfið geti þjónað þörfum okkar og gefið okkur þær afurðir sem til þarf til að styðja við efnahagslega uppbyggingu. 

Góðir gestir
Þetta viðkvæma samspil náttúru og nýtingar er okkur fullljóst og við höfum á undanförnum árum verið að fóta okkur í rétta  átt. 

Í niðurstöðu skýrslu sem unnin var af nefnd sem skipuð var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra árið 2010 kom meðal annars fram að heildarsýn vanti yfir starfsemi á hafsvæðum við Ísland og að ekki sé til heildstæð löggjöf um stjórn strandsvæða. Stjórnvöld þurfa að marka sér skýra stefnu um málefni hafsins og setja verður löggjöf um skipulag haf- og strandsvæða. Í löggjöfinni verði ákveðið hver skuli bera ábyrgð á að skipuleggja og samræma nýtingu og vernd á strandsvæðum og jafnframt að aðkoma almennings og hagsmunaaðila verði tryggð í skipulagsferlinu. Landskipulagsstefna samkvæmt skipulagslögum getur verið vettvangur til að setja fram samþætta skipulagsstefnu stjórnvalda fyrir hafsvæði Íslands.

Á síðastliðnu hausti ákvað ég að hefja skyldi vinnu við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 og að í henni verði sett fram heildstæð sýn um skipulagsmál hafsins - ásamt því að tilgreina á hvaða svæðum í kringum Ísland sé brýnt að vinna nákvæmara haf- og strandskipulag. 

Skipulagsstofnun hefur nú lokið vinnu við greinargerð til undirbúnings vinnu við gerð lagafrumvarps um stjórnsýslu og skipulag haf- og strandsvæða. Stofnunin skoðaði og greindi löggjöf og reglur hérlendis og einnig í Skotlandi og á Norðurlöndunum í þeim tilgangi að finna fyrirmyndir sem við gætum lært af. 

Í nýrri skýrslu stofnunarinnar er meðal annars gerð grein fyrir þeim tveimur stjórntækjum sem helst eru þekkt í umræðunni, það er strandasvæðastjórnun og hafskipulagi og hvernig þessi tæki hafa verið nánar útfærð í Skotlandi, Svíþjóð og á vettvangi Evrópusambandsins. Fjallað er um hvernig skipulagssvæði hafs og stranda hafa verið afmörkuð í þessum tveimur löndum og hvernig skipulagslegri ábyrgð er fyrir komið. Bæði í Skotlandi og í Svíþjóð er skipulag hafs og stranda á forræði ríkisins en skipulagsgerðin er unnin á svæðisvísu og fer fram með virkri þátttöku hlutaðeigandi sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila.

Í skýrslunni er lagt til að mörkuð verði heildstæð stefna í Landsskipulagsstefnu fyrir alla efnahagslögsöguna. Þá er jafnframt talið skynsamlegt að unnið verði staðbundið skipulag á haf- og strandsvæðum þar sem aðstæður kalla á nánari skipulagsgerð vegna álags og eftirspurnar. 

Í kjölfar þessa hefur ráðuneytið hafið undirbúning að skipun í nefnd sem ætlað er að vinna tillögu að frumvarpi til laga um skipulag hafs og stranda. Gert er ráð fyrir að í hópnum muni sitja fulltrúar þeirra ráðuneyta sem fara með málaflokka hafsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Leitað verður samráðs við breiðan hóp hagsmunaaðila um tillögu að lagafrumvarpinu. 

Af þeim skýrslum sem gerðar hafa verið um stöðu mála á haf- og strandsvæðum má ráða að augljós þörf er á að skapa skýrari ramma um ráðstöfun hafssvæða til nýtingar og verndar og einnig að skapa grundvöll fyrir útgáfu leyfa. Í gerð og mótun skipulagsáætlana, eins við þekkjum þær, felst að ráðstafa svæðum til mismunandi nota eða verndar með hliðsjón af stefnu stjórnvalda og þeim hagsmunum sem kunna að ríkja á viðkomandi svæði. Skipulagsferlið er hugsað sem opið ferli sem á að tryggja aðkomu almennings og hagsmunaaðila að ferlinu áður en ákvörðun er tekin um skipulagstillöguna. Samráð og skipulagsferlið er ekki síður mikilvægur þáttur en sjálf lokaafurðin. Það á við hvort heldur sem er á láði eða legi. Mér skilst að slík nálgun hafi ráðið för við mótun nýtingaráætlunar Arnarfjarðar. 

Lífríki hafsins virðir engin landamæri og hafsvæði falla ekki undir eignarhald einstaklinga né lögaðila.  Leyfisveitingar á hafi og eftirlit með þeim eru á hendi ýmissa opinberra stofnana. Mikilvægt er að að móta verkfæri og stjórnskipulag sem tekur með samræmdum hætti á skipulagi hafs og stranda alls staðar á landinu og að með því fyrirkomulagi verði tryggðir hagsmunir heildarinnar. 

Ágætu fundargestir
Það má segja að sveitarfélög á Vestfjörðum hafi þjófstartað með gerð nýtingaráætlunar fyrir Arnarfjörð. Aðstandendur verkefnisins eiga mikið hrós skilið fyrir það framtak og það frumkvæði sem þeir hafa sýnt með því að ráðast í þá frumkvöðlavinnu sem felst í gerð nýtingaráætlunarinnar. Vafalítið verður litið til Nýtingaráætlunar Arnarfjarðar við gerð skipulagsáætlana fyrir haf- og strandsvæði í öðrum fjörðum og á öðrum svæðum við strendur landsins í framtíðinni og þjónar þannig sem fordæmi. 

Það er öllum ljóst og kemur fram í nýtingaráætluninni að hún á sér ekki stoð í lögum né hafa ábyrgðaraðilar hennar lögsögu yfir hlutaðeigandi hafsvæði. Þrátt fyrir að svo sé má gera ráð fyrir að nýtingaráætlunin muni nýtast sem rammi fyrir leyfisveitingar opinberra aðila og þegar ákvarðanir eru teknar um ráðstöfun og nýtingu hafsvæðis í Arnarfirði. Það er styttra en áður í að lögformlegur rammi skapist um skipulag strandsvæða. Þegar þar að kemur verða Vestfirðingar tilbúnir því að með gerð nýtingaráætlunarinnar hefur skapast dýrmæt þekking og reynsla. 

Ég óska ykkur innilega til hamingju með Nýtingaráætlun Arnarfjarðar og megi hún stuðla að heilbrigðu vistkerfi, sjálfbærri nýtingu til hagsbóta fyrir samfélag og efnahag á Vestfjörðum sem og á landinu öllu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum