Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. mars 2014 Forsætisráðuneytið

Ráðherranefnd um lýðheilsumál sett á laggirnar

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að setja á fót ráðherranefnd um lýðheilsumál. Forsætisráðherra stýrir nefndinni, í samræmi við reglur um starfshætti ráðherranefnda en auk hans eiga heilbrigðisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra fast sæti í nefndinni. Aðrir ráðherrar taka þátt í störfum hennar eftir þörfum, samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra. 

Jafnframt hefur verið ákveðið að setja á fót ráðgefandi nefnd - lýðheilsunefnd - undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra sem í eigi sæti fulltrúar forsætisráðuneytis, velferðarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, embættis landlæknis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, UMFÍ, ÍSÍ, Landssambands eldri borgara, aðila vinnumarkaðarins o.fl. Gert er ráð fyrir að jafnframt komi einstaklingar, sem hafa látið sig lýðheilsumál varða hér á landi og erlendis, að starfi nefndarinnar.

Lýðheilsunefndin mun vinna drög að heildstæðri stefnumótun og aðgerðaáætlun sem hefur það að markmiði að efla og bæta lýðheilsu almennings á öllum aldursskeiðum. Gert er ráð fyrir að nefndin skili heilbrigðisráðherra tillögum sínum.

Stofnun nefndanna tveggja er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið á um að bætt lýðheilsa og forvarnastarf verði meðal forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar en þar segir m.a. orðrétt:

„Unnið verður að því að auka almenn lífsgæði landsmanna með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Þannig má einnig draga úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt til framtíðar.“

Fyrir liggur að um er að ræða málefni sem varðar fjölmörg svið s.s. heilbrigðismál, félagsmál, menntamál, umhverfismál, skipulagsmál og fjármál. Heilbrigðisráðherra fer samkvæmt forsetaúrskurðum með málefni er varða lýðheilsu og forvarnir og hefur unnið að framgangi framangreindra mála. Íslendingar hafa verið í fararbroddi í ýmsu er varðar líkamlega, andlega og félagslega heilsu og standa flestum þjóðum framar hvað varðar lága tíðni ungbarnadauða, mæðra- og ungbarnavernd og lífslíkur. Þá hefur verið unnið brautryðjandastarf hvað varðar heilsueflandi verkefni í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Lagt hefur verið til að sérstakri verkefnisstjórn undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra verði falið að starfa með ráðherranefndinni og lýðheilsunefndinni. Varið verður  15 m. kr. til lýðheilsuverkefnisins af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar árið 2014 og að unnin verði áætlun um kostnað við verkefnið fyrir árið 2015 sem lögð verði til grundvallar við fjárlagagerð vegna ársins 2015.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum