Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. mars 2014 Utanríkisráðuneytið

Evrópustefna stjórnvalda kynnt

Ríkisstjórn Íslands kynnti í dag Evrópustefnu sem byggist á efldri hagsmunagæslu á vettvangi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og annarra gildandi samninga Íslands og Evrópusambandsins. Í stefnunni er lögð áhersla á skilvirka framkvæmd EES samningsins, m.a. með því að efla samráð innan stjórnsýslunnar og við Alþingi. Áhersla verður á áframhaldandi sjálfstæð, virk og náin samskipti og samstarf við ESB og aðildarríki. Í stefnunni áréttar ríkisstjórnin mikilvægi þess að Ísland komi fyrr að mótun löggjafar á vettvangi ESB.

Á meðal þess sem stefnt er að, er:

  • Unnið verði mat á hagsmunum Íslands af EES samningnum, sem liggi fyrir haustið 2014, í tilefni 20 ára afmælis samningsins.
  • Settur verður á fót samráðshópur m.a. með fulltrúum atvinnulífsins og utanríkisráðuneytis til þess að greina tækifæri innan Evrópu með hliðsjón af núgildandi viðskiptasamningum.
  • Samstarf við Noreg og Liechtenstein á vettvangi EES-samningsins verði eflt.
  • Áhersla lögð á áframhaldandi öflugt norrænt og vestnorrænt samstarf til að efla enn frekar hagsmunagæslu á Evrópuvettvangi.
  • Styrkt tvíhliða samstarf við önnur Evrópuríki, svo sem á sviði öryggismála, viðskiptamála og vísinda og menningarmála.

Þá fylgir Evrópustefnunni sérstök aðgerðaáætlun um EES samninginn sem felur í sér að gert verði átak í snemmgreiningu löggjafar á vettvangi EES til að greina á fyrstu stigum stór hagsmunamál sem kalla á sérstök viðbrögð. Á árinu 2014 verði upptöku gerða í EES-samninginn hraðað umtalsvert og eigi síðar en á fyrri hluta árs 2015 verði innleiðingarhalli EES gerða orðinn undir 1%. Á sama tíma  verði ekkert dómsmál fyrir EFTA dómstólnum vegna skorts á innleiðingu EES gerða.

Á meðal aðgerða sem gripið verður til má nefna:

  • Framkvæmd EES-samningsins verður reglulega á dagskrá funda ríkisstjórnar.
  • Komið verður á fót stýrihópi um framkvæmd EES samningsins undir forsæti forsætisráðuneytis með þátttöku skrifstofu Alþingis.
  • Komið verður á fót samstarfshópi um EES mál milli stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði með áherslu á hagsmunagreiningu EES reglna.
  • Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sæki alla þá óformlegu ráðherrafundi ESB sem þeim er boðið til með það að sérstöku markmiði að fjalla um þau sérstöku hagsmunamál Íslands sem greind hafa verið á frumstigum löggjafarvinnu ESB.
  • Komið verður á reglubundnum fundum EES-ráðherra Íslands, Noregs og Liechtenstein í tengslum við EES-ráðsfundi.
Evrópustefnan í heild sinni

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum