Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. mars 2014 Forsætisráðuneytið

Nýr framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jens Stoltenberg
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jens Stoltenberg

Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, verður næsti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, en fastaráð bandalagsins komst samhljóða að þeirri niðurstöðu á fundi sínum í dag.

Stoltenberg mun taka við af Anders Fogh Rasmussen hinn 1. október nk. Jens Stoltenberg er þrettándi framkvæmdastjóri bandalagsins frá stofnun þess og fyrsti Norðmaðurinn til að gegna stöðunni.

„Jens Stoltenberg er vel að tilnefningunni kominn. Hann hefur mikla reynslu af alþjóðamálum og hefur vakið verðskuldaða athygli á alþjóðavettvangi á umliðnum árum. Atlantshafsbandalagið er ein af meginstoðum varnarsamstarfs Íslands og það er okkur Íslendingum mikið hagsmunamál hver heldur þar um stjórnartaumana hverju sinni. Anders Fogh Rasmussen hefur reynst farsæll framkvæmdastjóri og ég hef fulla trú á að Jens Stoltenberg, annar norrænn leiðtogi, muni verða það einnig,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sem upplýsti ríkisstjórnina í morgun um fyrirhugaða ákvörðun fastaráðsins.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að fyrir íslenska hagsmuni sé gott að nýr framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins þekki vel til áherslna Íslands í málefnum bandalagsins. „Norsk stjórnvöld hafa reynst áreiðanlegur og góður samstarfsaðili í öryggis- og varnarmálum á síðustu árum. Norðmenn hafa tekið reglulega þátt í loftrýmisgæslu á Íslandi frá árinu 2009 og leiddu nú síðast þátttöku Svía og Finna í loftvarnaræfingum á Íslandi í síðasta mánuði. Við studdum því heilshugar að Jens Stoltenberg yrði fyrir valinu sem næsti framkvæmdastjóri," segir Gunnar Bragi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum