Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Gæði þjónustu og aðbúnaðar íbúa á hjúkrunarheimilum

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Stefnt er að því að birta reglulega stöðu gæðavísa sem veita vísbendingar um meðferð og umönnun á einstökum hjúkrunarheimilum.  Heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að skoða í samhengi nýtingu fjármuna á hjúkrunarheimilum, mönnun og niðurstöður mælinga á gæðum þjónustunnar sem þar er veitt.

Embætti landlæknis annast eftirlit með starfsemi hjúkrunarheimila. Einn liður í eftirlitinu felst í því að skoða reglulega hvernig hjúkrunarheimilin standa gagnvart svokölluðum RAI gæðavísum og viðmiðum embættisins um meðferð og umönnun. Hjúkrunarheimilin hafa um árabil getað fylgst með stöðu gæðavísa hjá sér en sérstök viðmið fyrir þessa vísa voru fyrst tekin í notkun árið 2010.

Gæðavísarnir sem horft er til eru tuttugu. Sem dæmi má nefna gæðavísa sem mæla hve byltur eru algengar á viðkomandi hjúkrunarheimili, notkun róandi lyfja og svefnlyfja, algengi þrýstingssára, notkun á líkamsfjötrum (öryggisbúnaði) og notkun þvagleggja.

Gæðavísar verði birtir reglulega

Stefnt er að því að niðurstöður gæðamælinga og hvernig hjúkrunarheimili standa gagnvart gæðaviðmiðum Embættis landlæknis verði innan tíðar birtar reglulega og er unnið að undirbúningi þess hjá embættinu. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir æskilegt að hraða þessari vinnu þannig að unnt verði að hefja reglulega birtingu þessara niðurstaðna sem fyrst.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherraFjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um niðurstöður úttekta Embættis landlæknis á hjúkrunarheimilunum Sólvangi í Hafnarfirði og Sunnuhlíð í Kópavogi sem gerðar voru að beiðni velferðarráðuneytisins, m.a. vegna erfiðrar fjárhagsstöðu þeirra. Sú umfjöllun hefur að verulegu leyti snúist um mönnun á heimilunum fremur en meðferð og umönnun. Kristján Þór segir mikilvægt að skoða þetta í samhengi, því gæði þjónustunnar skipti öllu máli:

„Meðferð og umönnun á íslenskum hjúkrunarheimilum er góð og heimilin rekin af metnaði til þess að sinna heimilisfólkinu eins vel og kostur er. Því tel ég að enginn þurfi að óttast þótt niðurstöður gæðavísanna verði birtar opinberlega, heldur verði það þvert á móti til gagns og góðs fyrir alla. Í þessu felast líka tækifæri fyrir hjúkrunarheimilin til þess að bera sig saman, auka samstarf og efla gæðastarf“ segir heilbrigðisráðherra.

Úttekt Ríkisendurskoðunar

Ríkisendurskoðun hefur fallist á ósk heilbrigðisráðherra um að gera viðamikla úttekt á afkomu og fjárhagslegri stöðu hjúkrunarheimila og er sú vinna hafin. Meðal þess sem skoðað verður er hvort rekstrarframlag ríkisins í formi daggjalda nái að mæta hjúkrunarþyngd íbúa og þörf þeirra fyrir þjónustu. Þar verður einnig horft til þess að hvaða leyti fjárframlög taka tillit til þátta sem geta haft áhrif á rekstrarhagkvæmni, s.s. stærð heimila og staðsetning, skipulag þeirra o.fl.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að úttekt Ríkisendurskoðunar muni verða mikilvægt innlegg í þá vinnu sem framundan er til að stuðla að skynsamlegri nýtingu fjármuna og bættu rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila til framtíðar: „Við verðum að ræða um þennan rekstur á skynsamlegum nótum, byggja á staðreyndum og skoða málin í samhengi, þ.e.a.s. gæði þjónustunnar, fjárhagslegan rekstur, húsnæði, mönnun og aðra þætti sem máli skipta.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum