Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. apríl 2014 Forsætisráðuneytið

A-523/2014. Úrskurður frá 1. apríl 2014

Úrskurður

Hinn 1. apríl 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-523/2014 í máli ÚNU 13020002. 

Kæruefni

Hinn 8. febrúar 2013 mótttók úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A vegna synjunar embættis sérstaks saksóknara á beiðni um aðgang að skýrslum tveggja hópa sérfræðinga sem unnu á vegum lögfræðistofunnar LYNX og endurskoðunarstofnunnar Cofisys.

Málsatvik

Forsaga málsins er sú að hinn 4. janúar 2013 sendi kærandi svohljóðandi beiðni til sérstaks saksóknara:

„Ég óska eftir því með vísan til upplýsingalaga að fá aðgang að skýrslu LYNX Advokatfirma um Landsbanka Íslands og skýrslu Cofisys um Glitni. Í þessum skýrslum tel ég vera upplýsingar sem sýna fram á að ég hafi haft rangar upplýsingar um stöðu bankanna árið 2007 sem bæði leiddi til þess að fasteignaverð var of hátt og einnig að ég ofmat eignir mínar við kaup á fasteign í lok árs 2007.“

Sérstakur saksóknari svaraði kæranda með bréfi, dags. 8. janúar 2013. Þar segir:

„Embætti sérstaks saksóknara barst með neðangreindum tölvupósti beiðni þín um aðgang að skýrslu Lynx Advokatfirma um Landsbanka Íslands og skýrslu Cofisys um Glitni. Því er til að svara að beiðninni er hafnað með vísan til 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þar sem lögin gilda ekki rannsókn eða saksókn í opinberu máli en umbeðin gögn teljast til rannsóknargagna. Yður er heimilt að bera synjun embættisins um að veita aðgang að gögnum skv. upplýsingalögum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamálefni innan 30 daga frá því að þér er tilkynnt um ákvörðunina sbr. 14., 15. og 16.gr. sömu laga.[…]“

Af því tilefni að við fyrri ákvörðun var ekki getið réttra lagaheimilda tók sérstakur saksóknari nýja ákvörðun og sendi hana kæranda með bréfi, dags. 12. janúar 2013. Þar segir m.a.:

„…Upplýsingalög nr. 50/1996 voru felld úr gildi fjórum dögum áður en beiðni þín barst embætti sérstaks saksóknara til úrlausnar en til þeirra laga var vísað í ákvörðun um að synja um aðgang. Ný upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi 1. janúar sl. en efni þeirra lagareglna sem vísað var til í ákvörðuninni er óbreytt í nýju lögunum. Synjunin byggir því á 1. mgr. 4. gr. laga nr. 140/2012 þar sem hin nýju lög gilda ekki um rannsóknir sakamáls eða saksókn. Um kæru til úrskurðarnefndar er síðan fjallað í 20., 21. og 22. nýju laganna nr. 140/2012. Heiti úrskurðarnefndarinnar, aðsetur og kærufrestur er óbreytt frá fyrri lögum. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.“

Í þeirri kæru, sem síðan barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál, hinn 8. febrúar 2013, segir m.a.:


„8. janúar s.l. óskaði ég eftir við sérstakan saksóknara að fá aðgang að skýrslum sem Ráðgjafafyrirtækið Lynx Advokatfirma gerði um Landsbanka Íslands og Ráðgjafafyrirtækið Cofisys  um Glitni.  Gerði ég það á grundvelli  þess að fréttafluttningur af þessum skýrslum í blöðum bentu til þess að saknæmt  athæfi bankanna og endurskoðenda þeirra hafi skaðað hagsmuni mína og fjölmargra annarra verulega. Ólafur Þ. Hauksson sérstakur saksóknari hafnaði þessari beiðni minni á grundvelli að þetta væri rannsóknargagn. Sjá afrit af meðfylgjadi tölvupósti.

Ég kæri málið til úrskurðarnefndar um upplýsingarmál á eftirfarandi forsendum: Í frétt Vísis þann 13. desember 2010 […]  hafði slitastjórn Glitnis fengið skýrsluna um Gamla Glitni til sín. Ég og þeir aðilar sem [ég] vinn fyrir gætu þurft að stefna Glitni m.a. á grundvelli upplýsinga sem eru í skýrslunni. Því er ekki rétt að halda því fram að skýrslan sé lokað rannsóknargagn þegar þeir sem bera sökina hafa fengið skýrsluna samdægus.

Eins er að ef skýrslan fer til þrotabús Glitnis er ekki óeðlilegt að álykta að slitastjórn Landsbankans sé líka með skýrsluna um Landsbankann undir höndum. Slitastjórnirnar sjá í skýrslunni, einungis upplýsingar um hvernig þessi tvö ráðgjafafyrirtæki hafa náð að lesa úr þeim gögnum sem þau fengu að sjá í bönkunum.  Ef um refsiverða háttsemi er að ræða mun sérstakur saksóknari fara í mál fyrir hönd ríkisins við þrotabúin á grundvelli þessarar skýrslu og gagna sem hann getur aflað sér með rannsóknarheimildum sínum.  Því get ég ekki séð að afhending á þessum skýrslum til mín geti skaðað rannsóknarhagsmuni Sérstaks saksóknara, því bæði hann og þeir sem gætu borið sök hafa aðgang að þessum gögnum nú þegar.

Sérstakur saksóknari má einungis rannsaka mál sem Fjármálaeftirlitið telur ástæðu til að rannsaka.  Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands hefur í gegnum tíðina komið fram fyrir hönd bankanna og reynt að bregða fæti fyrir að einstaklingar og fyrirtæki fái rétt sinn án þess að fara í gegnum dómstóla. Gott dæmi um þetta er aðkoma Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans að leiðréttingu gengistryggðra lána og reglum sem þessir aðilar settu um vaxtaútreikning á þeim eftir fyrsta dóm.  Þær reglur eru þvert á stjórnarskrá samanber að nú er búið að dæma afturvirkni þessara laga ólöglega.  Því má gera ráð fyrir að þessir aðilar gangi gegn almannahagsmunum við að einstaklingar geti leitað réttar síns án þess að fara fyrir dómstóla sjálfir, enda líklegt miðað við áðurnefnd dæmi að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki muni láta sérstakan saksóknara sækja mál gegn slitastjórnum bankanna vegna lögbrota þeirra.  Það er bæði dýrt og hafa einstaklingar ekki aðgang að gögnum til að standa jafnfætis þeim sem glæpina frömdu. […].“

Hinn 5. mars 2013, sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál bréf til sérstaks saksóknara, veitti honum kost á umsögn og óskaði afrits af umbeðnum gögnum. Í svarbréfi hans, dags. 13. mars 2013, segir m.a.: 

„Nánar tiltekið er beðið um skýrslur tveggja hópa sérfræðinga á vegum lögfræðistofunnar LYNX og endurskoðunarstofnunnar Cofisys sem unnar voru, að beiðni sérstaks saksóknara, upp úr m.a. haldlögðum skjölum úr húsleitum starfsmanna embættisins sem fram fóru 1. október 2009 í tengslum við rannsókn embættisins á máli lögreglunnar með málanúmer 090-2008-0041 í málaskrá lögreglunnar. Um er að ræða sérfræðingaskýrslu sem er hluti rannsóknargagna þess máls. Um sakamálarannsókn þess gilda lög nr. 88/2008 en í þeim lögum eru meðal annars ákvæði sem fjalla um heimildir til afhendingar gagna.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 gilda þau ekki um rannsóknir sakamáls eða saksókn en ekki er fyrir að fara lagaheimild í lögum um meðferð sakamála til afhendingar á nefndum gögnum umrædds sakamáls til kæranda þess máls sem hér er til umfjöllunar. Er því ljóst að hvorki verður byggt á upplýsingalögum né á lögum um meðferð sakamála um aðgengi hans að umbeðnum upplýsingum. Ekki þykir ástæða til að rökstyðja frekar synjunina eða veita frekari andsvör við efnislega röngum fullyrðingum sem fram koma í kærunni.

Í 1. kafla upplýsingalaga er fjallað um markmið og gildissvið laganna. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laganna er þeim sem kæran beinist að skylt að láta úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að enda falli viðkomandi undir gildissvið laganna. Röksemd undirritaðs fyrir synjun á afhendingu umbeðinna gagna er sú að sá hluti starfsemi embættisins sem varðar rannsóknir eða saksókn eða gögn þeim tengd falli ekki undir gildissvið upplýsingalaga skv. 1. kafla upplýsingalaga. Þar af leiðandi er því hafnað að láta nefndinni í té umbeðin afrit af umræddum skýrslum enda standa til þess engar heimildir samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Vísað er til áskilnaðar í 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga að skyldan til að afhenda nefndinni gögnin eigi einungis við þá sem falla undir gildissvið laganna skv. 1. kafla upplýsingalaga. Að öðru leyti vísast til fyrri samskipta við kæranda varðandi rökstuðning fyrir ákvörðun sérstaks saksóknara í máli þessu.“

Umsögn sérstaks saksóknara var send kæranda til athugasemda með bréfi, dags. 19. mars 2013. Athugasemdir hans bárust með bréfi, dags. 2. apríl. Þar segir:

„Svar sérstaks saksóknara til nefndar um upplýsingamál kemur undirrituðum ekki á óvart enda er það í upplýsingalögum að gögn í sakamálarannsóknum falli ekki undir gögn sem eigi að afhenda. Hitt er að þessar skýslur eru orðnar í það minnsta tveggja og hálfs árs gamlar og embættið hefur ekki notað þær sem sönnunargögn. 

Sérstakur saksóknari hefur ekki notað þessa skýrslur fyrir dómi í þeim málum sem hann hefur lagt fram. Hann ætti fyrir löngu [að] vera búinn að ná í viðhlítandi gögn sem bent er á í skýrslunni að séu saknæm. Skv. lögum um sérstakan saksóknara þarf hann ekki húsleitarheimildir né aðrar heimildir til að fá gögn frá gömlu bönkunum, heldur getur hann farið fram á að gögnin séu afhent án skilyrða. Að auki skv. lögum hafa þeir sem stefnt er fyrir dóm að hafa aðgang að málsskjölum þannig að gömlu bankarnir ættu nú  þegar [að] hafa aðgang að þessum skýrslum. […]

Það besta er að á þessum rúmum þremur árum frá því að skýrslurnar voru gerðar og rúmlega fjórum árum frá því sem embættið var stofnað hefur embættið ekki komið fram með eitt mál þar sem bankarnir eru ákærðir fyrir brot á einstaklingum þrátt fyrir fjölmargar vísbendingar þar að lútandi.  

Að framansögðu get ég ekki fallist á að þessar skýrslur séu sönnunargögn í sakamáli gegn skilanefndum bankana. Rökin eru eftirfarandi: 

1. Sérstakur saksóknari hefur ekki notað skýrslurnar fyrir dómi þó að þær séu bráðum að verða 3 ára gamlar.  Saksóknari getur ekki haldið þessum upplýsingum hjá sér langt inní framtíðina og valdið almenningi þannig skaða. 

2. Sérstakur saksóknari hefur skv. lögum um embættið heimild til að ná í öll gögn án sérstakra heimilda hjá þrotabúunum.  Því hafa þessar skýrslur ekki gildi í dómsmáli þar sem embættið getur fyrirvaralaust náð í frumheimildir og er líklega krafinn um frumheimildir fyrir dómi á grundvelli aðgangs að öllum gögnum úr þrotabúunum. 

3. Sérstakur saksóknari kemur í veg fyrir að ég sem einstaklingur geti nýtt mér upplýsingar úr skýrslunum til að verja mig gagnvart bönkunum. Því er embættið að brjóta á rétti mínum til að geta varið mig fyrir dómi með því að leyna þeim upplýsingum sem eru í þessum skýrslum.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi tilefni til að senda sérstökum saksóknara annað bréf, dags. 13. ágúst 2013. Í því segir m.a.:

„Vísað er til fyrri bréfaskrifta vegna kæru [A] á synjun yðar um að verða við beiðni hans um aðgang að skýrslum tveggja hópa sérfræðinga sem unnar voru að yðar beiðni. Þér kveðið þær vera hluta sakamálarannsóknar sem upplýsingaréttur samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 nái ekki til. 

Af hálfu úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur verið ákveðið með vísan til 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 að fara fram á að þér afhendið nefndinni í trúnaði afriti af umræddum gögnum.

Jafnramt er óskað eftir því að þér rökstyðjið nánar, eftir atvikum með vísan til viðeigandi ákvæða upplýsingalaga nr. 140/2012, það sem fram hefur komið af yðar hálfu um að umræddar skýrslur séu gögn varðandi rannsókn eða saksókn og dómsmeðferð sé ólokið.

Er þess farið á leit að ofangreind gögn og svör berist nefndinni ekki síðar en 23. ágúst næstkomandi.“

Sérstakur saksóknari svaraði með bréfi, dags. 19. ágúst 2013. Í því segir m.a.:

„Er sú afstaða ítrekuð að skylda til að afhenda gögn nær ekki til þeirra gagna sem falla ekki undir gildissvið laganna en eins og fram kemur skýrt í fyrra bréfi er hér um að ræða skýrslur sérfræðinga sem unnar eru m.a. upp úr haldlögðum gögnum úr húsleitum. Vísast til 86. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 um heimild lögreglu til að leita til sérfróðra manna í þágu rannsóknar þegar þörf er á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál svo sem læknisrannsókn, efnafræðilegri rannsókn, rithandarsýnishorni eða bókhaldsrannsókn. Skýrslunar teljast því hluti af málsgögnum sakamáls sem er til rannsóknar hjá embættinu. Um afhendingu gagna máls til aðila þess fer því alfarið eftir lögum um meðferð sakamála en ekki upplýsingalögum eins og upplýsingalög sjálf reyndar tilgreina. […] Fæst ekki með neinu móti séð með hvaða hætti skoðun nefndarinnar á umræddum gögnum breyti neinu um þá stöðu, enda hefur nefndin engar forsendur til að vega og meta hvort tiltekin gögn hafi þýðingu fyrir rannsókn eða saksókn sakamáls eða ekki. Sending rannsóknargagna embættisins til nefndarinnar myndi því ganga í berhögg við lög um meðferð sakamála, vera án viðhlítandi lagastoðar í upplýsingalögum og kann að setja rannsóknarhagsmuni máls í hættu.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi innanríkisráðherra bréf, dags. 20. nóvember 2013. Í því segir m.a.:

„Tilefni bréfs þessa er ágreiningur milli úrskurðarnefndar um upplýsingamál, annars vegar, og sérstaks saksóknara, hins vegar, um inntak þeirrar skyldu stjórnvalda að senda úrskurðarnefndinni afrit af gögnum þeirra mála sem kærð eru til nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. […]

Í I. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012 er fjallað um markmið og gildissvið laganna. Í 2. gr. laganna er m.a. kveðið á um að lögin taki til allrar starfsemi stjórnvalda og jafnframt vikið að gildissviði gagnvart lögaðilum í eigu ríkisins. Í 3. gr. er svo m.a. kveðið á um að lögin taki til einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun.

Í V. kafla upplýsingalaga er fjallað um úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Í 2. mgr. 22. gr. laganna er fjallað um málsmeðferð nefndarinnar. Þar segir m.a.: Þeim sem kæra beinist að er skylt að láta nefndinni í té afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að, enda falli viðkomandi undir gildissvið laganna skv. I. kafla. Nefndin getur mælt svo fyrir í bréfi þar sem óskað er afrits gagna samkvæmt þessari málsgrein að gögn sem henni eru afhent í trúnaði séu auðkennd sérstaklega.

Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir m.a. um 22. gr.: Þá er í málsgreininni tekið fram að þeim sem kæra beinist að sé skylt að láta nefndinni í té afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að, enda falli viðkomandi undir gildissvið laganna skv. I. kafla. Sambærilegt ákvæði er nú að finna í 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga, sbr. 3. gr. laga nr. 83/2000. Enn fremur er í ákvæðinu að finna það nýmæli að nefndin geti mælt svo fyrir í bréfi þar sem óskað er afrits gagna að gögn sem afhent eru nefndinni í trúnaði verði auðkennd sérstaklega. Slíkt er til þess fallið að tryggja betur en ella öryggi við meðferð gagna hjá nefndinni og þykir ekki íþyngjandi gagnvart þeim sem þarf að afhenda nefndinni gögn, enda getur viðkomandi vart rökstutt afstöðu sína í viðkomandi máli nema að hafa þegar tekið afstöðu til hvers og eins gagns sem beiðni beinist að. Sama niðurstaða, um skyldu til að láta úrskurðarnefndinni í té afrit gagna, mundi samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar leiða af kærusambandi við nefndina, sbr. 20. gr. frumvarpsins, skyldu nefndarinnar til að upplýsa mál áður en úrskurðað er í því, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, og af eðli máls með tilliti til úrskurðarhlutverks nefndarinnar. Skýlaust ákvæði um þetta efni er hins vegar án vafa til mikils hagræðis við störf nefndarinnar, auk þess sem það tekur af allan vafa um skyldur einkaréttarlegra fyrirtækja og annarra einkaaðila til að verða við réttmætum kröfum nefndarinnar um afhendingu gagna. Í því sambandi verður sérstaklega að hafa í huga að í ákveðnum tilvikum verður að telja réttmætt að nefndin krefjist þess að fá afhent gögn, m.a. í því skyni að móta sér endanlega afstöðu um það hvort aðili falli undir gildissvið upplýsingalaga. Það væri aðeins í þeim tilvikum þegar lögaðili fellur án vafa utan gildissviðs laganna sem honum væri stætt á því að neita að afhenda úrskurðarnefndinni gögn sem hún hefur óskað eftir að fá í hendur.

Af synjun sérstaks saksóknara um aðgang að gögnum, dags. 12. janúar 2013, og umsögn embættisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 5. mars 2013, verður ráðið að óumdeilt sé að embætti sérstaks saksóknara falli undir upplýsingalög nr. 140/2012 og að synjun embættisins á beiðni um gögn sé kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Enda gaf sérstakur saksóknari leiðbeiningar um kærurétt til nefndarinnar í synjunarbréfi sínu. Hins vegar telur sérstakur saksóknari að „sá hluti starfsemi embættisins sem varðar rannsóknir eða saksókn eða gögn þeim tengd falli ekki undir gildissvið upplýsingalaga“, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna og þar af leiðandi sé embættinu ekki skylt að láta úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af hinum umbeðnu gögnum.

Í tilvitnuðum lögskýringargögnum að baki 22. gr. upplýsingalaga er m.a. bent á að úrskurðarnefndin sé í störfum sínum bundin af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til þess að sinna rannsóknarskyldu sinni kunni nefndinni að vera þörf á að fá hin umdeildu gögn í hendur. Af þessum sökum sé sérstaklega kveðið á um það í lögunum að þeim aðilum sem falla undir lögin sé skylt að afhenda nefndinni gögn málsins óski hún eftir því. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál vekur athygli á því að í hinum tilvitnuðu athugasemdum er sérstaklega tekið fram að einkaaðila sem telur sig ekki falla undir ákvæði upplýsingalaga sé engu að síður skylt að afhenda umbeðin gögn, enda kunni skoðun nefndarinnar á gögnunum að vera nauðsynleg til þess að hún geti tekið endanlega afstöðu til þess hvort aðili falli undir gildissvið upplýsingalaga.

Með vísan til framangreinds, einkum 20. og 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál það engum vafa undirorpið að þeim aðilum sem á annað borð falla undir upplýsingalög sé skylt að afhenda nefndinni öll þau gögn sem viðkomandi hefur í sínum vörslum og kæra lýtur að, telji nefndin það nauðsynlegt til að meta hvort umrædd gögn eða huti þeirra falli utan gildissviðs upplýsingalaga eða ekki. Úrskurðarnefndin lítur svo á að slíkt mat geti samkvæmt framangreindum lagaákvæðum engan veginn verið í höndum þess stjórnvalds sem kæra beinist að. 

Í máli því sem hér um ræðir telur úrskurðarnefndin þörf á að fá gögn málsins til þess að meta hvort veita eigi aðgang að umbeðnum gögnum í heild eða að hluta og telur að synjun sérstaks saksóknara á beiðni nefndarinnar þar að lútandi komi í veg fyrir að hún geti rækt störf sín lögum samkvæmt. […]

Í tilefni af framangreindu óskar úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir því við innanríkisráðherra að ráðuneytið hlutist til um að sérstakur saksóknari afhendi nefndinni þau gögn er kæran frá 8. febrúar 2013 laut að, í samræmi við skýr fyrirmæli 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, svo að nefndinni sé mögulegt að sinna því hlutverki sínu að úrskurða um lögmæti synjunar sérstaks saksóknara á afhendingu þeirra frá 12. janúar 2013.“

Innanríkisráðuneytið sendi ríkissaksóknara bréf, dags. 29. nóvember 2013. Í því segir m.a.:

„Ráðuneytinu hefur borist erindi frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, dags. 20. nóvember 2013, þar sem þess er óskað að ráðuneytið hlutist til um að sérstakur saksóknari afhendi nefndinni tiltekin gögn. Í ljósi stjórnunar- og eftirlitsheimilda ríkissaksóknara og sjálfstæði ákæruvaldsins, sem og með hliðsjón af  ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012 um að gögn er varði rannsókn sakamáls og saksókn falli ekki undir gildissvið upplýsingalaga, framsendist erindi úrskurðarnefndar hjálagt til þóknanlegrar afgreiðslu ríkissaksóknara.“

Ríkissaksóknari sendi úrskurðarnefndinni bréf, dags. 10. desember 2013. Í því segir m.a.:

„Með vísan til ákvæða laga um meðferð sakamála og 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, telur ríkissaksóknari óheimilt að afhenda úrskurðarnefnd um upplýsingamálefni nefnd gögn. Er að öðru leyti vísað til og tekið undir röksemdir sérstaks saksóknara fyrir þeirri ákvörðun að hafna afhendingu gagnanna, sem reifuð eru í bréfi hans frá 19. ágúst sl.“ 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun sérstaks saksóknara á beiðni [A] um aðgang að skýrslum tveggja hópa sérfræðinga sem unnar voru að beiðni sérstaks saksóknara, m.a. upp úr haldlögðum skjölum úr húsleitum embættisins. Synjun sérstaks saksóknara er byggð á því að skýrslurnar séu hluti sakamálarannsóknar og því nái upplýsingaréttur samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 ekki til þeirra. 

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, gilda þau m.a. ekki um aðgang að gögnum í málum sem varða rannsókn sakamála og saksókn. Um hann fer að sérákvæðum laga um meðferð sakamála. Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara segir að hann hafi stöðu og almennar heimildir lögreglustjóra samkvæmt lögreglulögum og lögum um meðferð sakamála og fari með stjórn lögreglu sem starfi við embætti hans. Sérstakur saksóknari og saksóknarar við embætti hans séu ákærendur samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Í 6. gr. laganna segir að um starfsemi embættisins gildi að öðru leyti ákvæði lögreglulaga og laga um meðferð sakamála að því leyti sem lögin kveði ekki á um annað.

Ákvæði 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er samhljóða 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í framkvæmd þeirra laga byggði úrskurðarnefnd um upplýsingamál á því í úrskurðum sínum að í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, um að lögin giltu ekki um „rannsókn eða saksókn í opinberu máli“, fælist að ekki væri unnt að krefjast aðgangs að gögnum varðandi rannsókn eða saksókn á grundvelli laganna. Þau gögn sem kærandi hefur óskað aðgangs að eru skýrslur sem m.a. munu vera unnar upp úr haldlögðum skjölum úr húsleitum embættis sérstaks saksóknara, sem fram fóru hinn 1. október 2009 í tengslum við rannsókn á máli lögreglu, sem hefur númerið 090-2008-0041 í málaskrá lögreglu.

Eins og rakið er í málsmeðferðarkaflanum hér að framan hefur sérstakur saksóknari ekki sent úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af þeim skýrslum sem mál þetta lýtur að. Telur hann sér það óheimilt þar sem skýrslurnar falli utan gildissviðs upplýsingalaga nr. 140/2012. Í tilefni af þessu telur úrskurðarnefndin rétt að taka fram að hún telur það engum vafa undirorpið að þeim aðilum sem á annað borð falla undir upplýsingalög, þ. á m. sérstökum saksóknara, sé skylt að afhenda nefndinni öll þau gögn sem viðkomandi hefur í vörslum sínum og kæra lýtur að, telji nefndin rétt að kalla eftir umræddum gögnum til að glöggva sig betur á viðkomandi máli og eftir atvikum taka afstöðu til þess hvort gögnin falli undir upplýsingalög. Vísast um þetta til skýrs orðalags 22. gr. upplýsingalaga og þeirra sjónarmiða sem rakin eru í bréfi nefndarinnar til innanríkisráðherra, dags. 20. nóvember 2013. Það er þannig í verkahring úrskurðarnefndar um upplýsingamál að leggja mat á það hvort gögn sem þau sem kærandi óskar eftir falla undir upplýsingaskyldu samkvæmt upplýsingalögum en ekki þess stjórnvalds sem í hlut á, hér sérstakur saksóknari. Framfylgi stjórnvald ekki framangreindri skyldu sinni að afhenda úrskurðarnefndinni gögn er slíkt framferði sem best til þess fallið að vekja þá tortryggni bæði nefndarinnar og almennings að viðkomandi stjórnvald sé að leyna gögnum sem upplýsingaskylda stjórnvalda nær til og er slíkt einkar óheppilegt.   

Þótt úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi að eigin mati verið ranglega synjað um afhendingu umbeðinna gagna af hálfu sérstaks saksóknara telur hún sér nauðugan þann kost einan að byggja á því sem fram hefur komið af hálfu embættisins um að umræddar skýrslur séu gögn varðandi rannsókn eða saksókn, sem falli utan gildissviðs upplýsingalaga, en samkvæmt upplýsingalögum er úrskurðarnefndinni ekki fengnar nægilegar ríkar valdheimildir, s.s. sérstakar kæruleiðir, til þess fá gögn afhent sem stjórnvald neitar að láta af hendi til nefndarinnar. Úrskurðarnefndinni er því ekki önnur leið fær en að byggja á þeirri fullyrðingu sérstaks saksóknara að umbeðin gögn falli utan gildissviðs upplýsingalaga og samkvæmt því verður hún að vísa kærunni frá.

Úrskurðarorð

Kæru [A], dags. 8. febrúar 2013, á hendur sérstökum saksóknara, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.  


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir              

Friðgeir Björnsson 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum