Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. apríl 2014 Utanríkisráðuneytið

Íslensk sérþekking nýtist vel í samstarfi við Alþjóðabankann 

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, fundaði í gær með fulltrúum Alþjóðabankans, en bankinn gegnir lykilhlutverki í íslenskri þróunarsamvinnu.

Átti hann fund með Rachel Kyte eins varaforseta Alþjóðabankahópsins og sendifulltrúa bankans í loftlagsmálum. Gunnar Bragi fór yfir áherslur Íslands innan Alþjóðabankans  sem eru fiskimál, jarðhiti og jafnrétti kynjanna. Einnig ræddu þau nýja stefnu bankans sem samræmist vel áhersluatriðum Íslands. Lýsti Kyte mikilli ánægju með samstarf Íslands og bankans, en það hefði gegnt lykilhlutverki að færa málefni hafsins og jarðhita mun ofar í áherslum hans. Vænti hún mikils af framhaldi samstarfsins og vonaði að Ísland hefði tækifæri til þess að viðhalda og helst auka samstarf sitt við bankann.

Þá fundaði Gunnar Bragi með Jeni Klugman framkvæmdastjóra jafnréttismála í Alþjóðabankanum. Jafnréttismál hafa verið efld til muna í öllum störfum og verkefnum bankans. Áhersla hefur verið lögð á að auka efnahagslegan styrk kvenna og þar með að efla almennan hagvöxt í þróunarríkjum. Ísland, ásamt hinum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum hafa sameiginlega verið meðal forysturíkja innan bankans að þrýsta á um auknar áherslur á sviði jafnréttismála.

Að lokum fundaði Gunnar Bragi með Vijay Iyer framkvæmdastjóra sjálfbærra orkumála í bankanum. Mikill áhugi er meðal þróunarríkja á nýtingu sjálfbærra orkuauðlinda og er jarðhiti þar ofarlega á blaði. Sagði Gunnar Bragi Íslendinga hafa þarna mikil sóknarfæri í að deila þekkingu sinni og bregðast við orkufátækt í þróunarríkjum og áhugi bankans á frekara samstarfi er viðvarandi og vaxandi.

Á morgun flytur Gunnar Bragi ávarp fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á fundi þróunarnefndar Alþjóðabankans. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum