Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. maí 2014 Forsætisráðuneytið

Samstarfssamningur um undirbúning framkvæmda í Finnafirði undirritaður í Ráðherrabústaðnum

Frá undirritun samstarfssamnings um undirbúning framkvæmda í Finnafirði
Frá undirritun samstarfssamnings um undirbúning framkvæmda í Finnafirði

Formlegur samstarfssamningur á milli Bremenports, Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps og verkfræðistofunnar EFLU var undirritaður í dag í Ráðherrabústaðnum og voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, viðstödd undirritunina. 

Með samstarfssamningi þessara aðila er staðfest ákvörðun þeirra að vinna saman að mati á hagkvæmni alþjóðlegrar umskipunar- og þjónustuhafnar í Finnafirði og ábata fyrir nærliggjandi svæði og sveitarfélög. Samningurinn kveður á um réttindi og skyldur aðila við rannsóknir og mat á lagalegum, tæknilegum, umhverfislegum og fjárhagslegum þáttum framkvæmda. Með samningnum liggur fyrir áætlun um þær rannsóknir sem ráðast þarf í næstu ár. Áætlað var að heildarkostnaður við rannsóknir, umhverfismat og frumhönnun nemi hundruðum milljóna króna . Bremenports mun leggja til fjármagn til þessara verkefna. 

Á fundinum kom fram að á yfirstandandi ári verður megin áhersla lögð á söfnun gagna vegna umhverfismats og frumhönnunar og skipulag hafnarinnar. Hafist verður handa við að skoða gróður og fuglalíf á mjög stóru svæði í og við Finnafjörð. Jarðtæknilegar athuganir fara fram og komið verður fyrir veðurstöðvum á svæðinu og mælibaujum. Nákvæmar landmælingar og kortagerð munu ennfremur verða gerðar. Á árinu 2015 halda lífríkisrannsóknir áfram auk þess sem fornleifarannsóknum verður sinnt. Einnig verður lífríki fjöru og fjarðar rannsakað. Frumhönnun hafnarinnar mun hefjast sem og frumskoðun innra skipulags hafnarsvæðisins. Líklegt er að formlegt umhverfismatsferli geti hafist árið 2016 og má reikna með að það taki alls 2 ár. Framkvæmdir við Finnafjörð gætu því hafist árið 2018. Á komandi mánuðum munu eiga sér stað viðræður milli stjórnvalda og þróunaraðila Finnafjarðarhafnar um nauðsynlega innviði og grunngerð við Finnafjörð, s.s. raforkuafhendingu og vegagerð. 

„Þetta er söguleg stund og mikill og merkur áfangi, ekki síst þegar litið er til stöðu Íslands við framtíðaruppbyggingu í tengslum við Norðurslóðir,“ sagði forsætisráðherra að lokinni undirritunni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum