Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. maí 2014 Forsætisráðuneytið

Fjölmörg mál afgreidd á ársafmæli ríkisstjórnarinnar

Fundur ríkisstjórnar í Ráðherrabústaðnum 23. maí 2014
Fundur ríkisstjórnar í Ráðherrabústaðnum 23. maí 2014

Ríkisstjórnin fagnaði ársafmæli sínu í dag. Í tilefni þess var fundurinn haldinn í Ráðherrabústaðnum. Fjölmörg mál voru á dagskrá ríkisstjórnarinnar. 

Forsætisráðherra lagði fram minnisblað um að vinnu við 10 liða þingsályktun um skuldavanda heimilanna væri lokið. Ítarlegri fréttatilkynningu um það má finna annars staðar hér á vefnum. Einnig lagði forsætisráðherra fram minnisblað um varðveislu varðskipsins Óðins við Sjóminjasafnið í Reykjavík. Samþykkti ríkisstjórnin að verja tveimur milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu til þess að tryggja varðveislu Óðins. Það er gert með fyrirvara um að samkomulag náist við Reykjavíkurborg um framtíð rekstrar varðskipsins. 

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra lögðu fram sameiginlega tillögu um neyðaraðstoð vegna flóða í Serbíu og Bosníu-Hersegóvínu sem gerð er ítarlegri skil í annarri tilkynningu hér á vefnum. Því til viðbótar lagði utanríkisráðherra fram tillögu um Schengen samkomulagið sem fól í sér samþykki reglugerðar nr. 604/2013 (Dyflinarreglugerð III).

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði tvö mál fyrir ríkisstjórn. Annað byggðist á minnisblaði um fiskeldi sem vaxandi grein á Íslandi og hitt um stöðu sjávarbyggða. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra stóðu síðan sameiginlega að tillögu um hafnarframkvæmdir á Bíldudal. 

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra stóðu sameiginlega að minnisblaði um úthlutun til uppbyggingar á ferðamannastöðum sumarið 2014.

Félags- og húsnæðismálaráðherra lagði fram minnisblað um rekstrarumgjörð embættis ríkissáttasemjara. Þá stóðu félags- og húsnæðismálaráðherra og innanríkisráðherra sameiginlega að tveimur tillögum. Annars vegar vegna verkefna er lúta að þriðja lið í þingsályktunum um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Hins vegar vegna aukinnar áherslu á lausnir vegna greiðsluaðlögunar. 

Innanríkisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherrra og utanríkisráðherra lögðu fram sameiginlega tillögu að móttöku sýrlenskra flóttamanna í sumar. Þá lögðu innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra fram tvær tillögur sem tengjast greiðsluaðlögun og skuldamálum heimilanna.

Því til viðbótar var innanríkisráðherra með tillögu sem felur í sér að öll ráðuneyti hefji vinnu við að færa verkefni til sýslumanna. Er það í framhaldi af nýsamþykktum lögum um stækkun og eflingu embætta sýslumanna sem er og í samræmi við stjórnarsáttmálann. Með breytingunum er gert ráð fyrir töluverðri fjölgun starfa á landsbyggðinni. 

Einnig var samþykkt tillaga innanríkisráðherra sem felur í sér að ráðherra fái umboð ríkisstjórnarinnar til að hefja formlegar viðræður við viðeigandi aðila um að undirbúa, hanna og leggja Sundabraut. Það felur í sér að ríki og einkaaðilar kanni mögulegt samstarf um fjármögnun og framkvæmd samgönguverkefna.

Nánari upplýsingar veita hlutaðeigandi ráðuneyti. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum