Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. maí 2014 Forsætisráðuneytið

Norrænir leiðtogar funda í Hofi á Akureyri

Forsætisráðherrar Norðurlandanna og formenn landsstjórna Grænlands, Færeyja og Álandseyja
Forsætisráðherrar Norðurlandanna og formenn landsstjórna Grænlands, Færeyja og Álandseyja

Fundi forsætisráðherra Norðurlandanna og formanna landsstjórna Grænlands, Færeyja og Álandseyja lauk nú um hádegisbilið. Fundinn sátu einnig framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og forseti Norðurlandaráðs. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, leiddi umræðu um málefni norðurslóða og lagði áherslu á sameiginlega hagsmuni Norðurlandanna á svæðinu og mikilvægi samstarfs, meðal annars innan Norðurskautsráðsins. Einnig voru á dagskrá fundarins málefni tengd Norrænu ráðherranefndinni og Norðurlandaráði.

Að loknum fundi héldu aðkomnir forsætisráðherrar Norðurlandanna af landi brott, en forsætisráðherra og leiðtogar sjálfstjórnarlandanna, auk embættismanna, heimsóttu Borgir við Háskólann á Akureyri og kynntust þar viðamikilli starfsemi sem lýtur að málefnum norðurslóða. Heimsókn leiðtoga sjálfstjórnarlandanna lýkur í dag með skoðunarferð um Tröllaskaga þar sem meðal annars byggðasafnið Hvoll á Dalvík verður heimsótt, sem og Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði. Þá mun forsætisráðherra taka fyrstu skóflustungu að svokölluðu Gæruhúsi við hlið Síldarminjasafnsins. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum